Setningarræða á ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði, 4. mars á Akureyri
4. mars Akureyri
Kæru ráðstefnugestir.
Það er virkilega ánægjulegt að vera hér í dag. Þegar ég leit út um gluggann í gærkvöldi var ég svolítið hrædd um að komast ekki norður. En hingað er ég komin á ráðstefnu sem ber yfirskriftina Ungt fólk og lýðræði. Og ráðstefna sem ber slíka yfirskrift er mikilvæg ráðstefna.
Eitt af merkilegustu ævintýrum HC Andersen er sagan af nýju fötum keisarans. Eins og þið munið þá fjallar hún um keisarann sem fær saumuð á sig hin glæsilegustu föt sem eru þó í raun engin föt, aðeins blekking. En af því keisarinn var valdamikill og trúði þeim sem sögðust vera að klæða hann í dýrindis fatnað þá þorði enginn af ráðgjöfum hans að efast, að spyrja. Í sínum ímynduðu fötum spásseraði keisarinn um strætin, dáðist að sjálfum sér, lét fólkið dást að sér. Enginn dirfðist að efast um þessi glæsilegu klæði, keisarinn trúði, ráðgjafarnir trúðu, fólkið trúði. Enginn spurði. Ekki fyrr en barnið sagði það sem aðrir hugsuðu en þorðu ekki að segja. Barnið sagði: hann er ekki í neinum fötum. Og þá sáu það allir, meira að segja sjálfur keisarinn uppgötvaði að hann hefði verið blekktur.
Þessi saga er merkileg. Hún segir okkur hvað það er mikilvægt að efast, að spyrja. Hún fjallar um mikilvægi sjálfstæðrar gagnrýnnar hugsunar. Hún er um mikilvægi þess að við getum sagt hvað við erum að hugsa. Óhrædd.
Það er kominn mars. Veturinn hefur verið erfiður. Síðustu árin hefur verið talað mikið um peninga á Íslandi. Lengi vel var talað um einkaþotur og kaupauka. Það var talað um mannauð í staðinn fyrir fólk. Það var ekki nóg að vera manneskja heldur þurfti maður að vera mannauður. Síðan sjötta október hefur verið talað mikið um kreppu á Íslandi. Við höfum haft áhyggjur.
Áhyggjur eru hluti af því að vera til. Áhyggjur eru hluti af því að bregðast við vanda og það sem meira er: af því að leysa vanda. Við þurfum að vera óhrædd við að tala um áhyggjur okkar og við verðum að hlusta á áhyggjur annarra. Þannig færumst við nær því að leysa málin. Og þótt síðustu mánuðir hafi að mörgu leyti verið erfiðir þá hefur umræðan snúist um mikilvæg mál. Hún hefur snúist um framtíðina og hún hefur snúist um lýðræði.
Ég gæti haldið langan fyrirlestur um æskulýðslög og mikilvægi þess að ungt fólk og börn taki þátt í æskulýðsstarfi en þið vitið það best sjálf. Þið finnið það sjálf hvað það er mikilvægt að hafa rödd sem hlustað er á. Þið vitið hvað það er mikils virði að taka þátt í umræðum, hafa áhrif á samfélagið.
Ég gæti sagt að raddir ungs fólks þurfi að heyrast af því að þið eruð framtíðin. Og ég ætla að segja það: það er mikilvægt að raddir ungs fólks heyrist af því að þið eruð framtíðin. Lýðræðið er sameign okkar allra og raddir ykkar verða að heyrast; frumkvæði ungs fólks og reynsla hinna eldri eru nauðsynleg blanda fyrir framtíðina.
Lýðræði snýst um að fólk sé virkir þátttakendur í samfélagi og að á það sé hlustað. Lýðræði er ekki bara kosningar á fjögurra ára fresti. Ungmennaráð eru til dæmis hluti af lýðræði: góður vettvangur til þess að þróa þátttöku og áhrif ungs fólks í samfélaginu.
Ég vil þakka Ungmennafélagi Íslands og Háskólanum á Akureyri fyrir frábært framtak. Ég vona að það verði skemmtilegar umræður hér í dag -af því að lýðræðið er skemmtilegt.
Njótið þess að ræða saman, spyrja, efast, muna að þið eruð þátttakendur, mikilvægir þátttakendur, í samfélagi, samfélagi þar sem við þurfum ekki á allsberum keisurum að halda.