Nýsköpunarþing Rannís, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Útflutningsráðs 2009. Grand Hótel - Fimmtudaginn 12. mars, 2009
Fundarstjóri, góðir fundargestir,
Það er gaman fyrir mig svona nýskapaðan menntmálaráðherra að ávarpa nýsköpunarþing sem þrjár merkisstofnanir halda sameiginlega undir yfirskriftinni OPIN NÝSKÖPUN. Hugurinn fer eiginlega á flug við þetta nýstárlega hugtakasamband og ekki spillir Yrkingin hans Þórarins Eldjárn á innsíðu boðskortsins þar sem bollalagt eru um eðli nýsköpunar og snúið upp á orð og merkingar.
Opin nýsköpun er þýðing á orðasambandi Open Innovation með það fræðilega innihald merkingar - að nýsköpun verði nú á dögum ekki til eins og áður var innan lokaðra veggja fyrirtækja sem haldi þekkingu sinni og aðferðum fyrir sig og stundi rannsóknir í stórum, vel öryggislæstum rannsóknastofum, - heldur leiti fyrirtæki nú víða fanga, - eigi í fjölþættri samvinnu bæði við önnur fyrirtæki, stór og smá, og við stofnanir og háskóla. Það er gert til að fá aðgang að fjölþættri þekkingu og reynslu úr mörgum hornum á mörgum sviðum til að skapa nýjar afurðir, vöru og eða þjónustu sem nútíma samfélag þarf á að halda.
Þannig er t.d. brædd saman þekking á sviði lífvísinda, efnistækni og upplýsingatækni við þekkingu á sviði framleiðslutækni, hönnunar og markaðsfærslu til að búa til vöru og þjónustu með sífellt meira innihald þekkingar á bak við sig og til að auka notagildi hennar fyrir kaupendur.
Þetta hljómar vel, ef satt er, og virkar sannfærandi. Það virðist líka geta hentað vel fyrir okkar aðstæður með okkar mörgu smáfyrirtæki í litlu samfélagi með sínar stuttu boðleiðir en mannauð með fjölbreytta alþjóðlega þekkingu og reynslu á ótrúlega mörgum sviðum. Er það ekki einmitt það sem við þurfum að nýta vel núna þegar endurnýja þarf hagkerfið og atvinnuvegina eftir bankahrunið?
Ég sé að dagskrá þingsins endurspeglar með táknrænum hætti þessa ,,opnu nálgun" þar sem blandað er saman reynsluheimi fyrirtækja, hönnuða, fjárfesta, kveðskapar og kvæðamennsku.
Ég get ekki varist þeirri hugsun að í undanförnu góðæri höfum við sem þjóð vanrækt nýsköpun og endurnýjun atvinnulífisins nema á því takmarkaða sviði sem fjármálaheimurinn bauð uppá. Ég veit reyndar að bankarnir soguðu til sín mikinn fjölda hámenntaðs fólks, m.a. á sviði vísinda og tækni, og fékk þeim vel launuð störf við verkefni sem - kannski eftir á að hyggja hefðu betur verið óunnin. Á meðan fékkst ekki þetta fólk til starfa við verkefni sem lakar voru launuð en hefðu skilað okkur meiri verðmætum til framtíðar litið.
Erlendar athuganir á frammistöðu okkar segja nú að dregið hafi úr nýsköpun hér á landi á síðustu árum og við höfum ekki verið að uppskera eins og við höfum sáð með býsna myndarlegum framlögum til rannsókna, reiknað sem hlutfall af þjóðartekjum. Þær ályktanir draga erlendar stofnanir, eins og Efnahags- og framfarastofnunin í París (OECD) í nýlegu samanburðaryfirliti um horfur í vísindum tækni og iðnaðarmálum (OECD Science, Technolgoy and Industry Outlook 2008)m og sömuleiðis Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í nýlegri skýrslu um stöðu nýsköpunar í Evrópu (European Innovation Scoreboard 2009) af tölfræðilegum gögnum og skoðanakönnunum sem Íslendingar leggja fram sjálfir til skoðunar.
Ég vil samt ekki draga fjöður yfir það að stuðningskerfi okkar við nýsköpunina hefur verið vanbúið á þessum árum mikils hagvaxtar, - sérstaklega stuðningur okkar við frumkvöðla og sprotafyrirtæki og fjárskortur Nýsköpunarsjóðs hefur í mörg ár staðið þróuninni fyrir þrifum. Nú vona ég að úr rætist þar. Jákvætt er þó að samkeppnissjóðirnir, Rannsóknasjóður og Tækniþróunarsjóður hafa verið efldir og samstaða er um það á Alþingi að draga helst ekki úr þeirri viðleitni að efla þá - þótt ekki blási byrlega um ráðstöfunarfé hins opinbera á næsta ári.
Á vegum menntamálaráðuneytisins, iðnaðarráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins er nú verið að leggja lokahönd á úttekt á aðstæðum til nýsköpunar í tengslum við heilbrigðisþjónustuna í landinu, ekki síst á grundvelli þeirra umfangsmiklu rannsókna sem þar eru unnar. Ég veit að meginniðurstöður þeirrar athugunar eru þær að mikil auðlind felst í þeim framúrskarandi rannsóknum sem stundaðar eru af starfsfólki og vísindamönnum innan Landspítala háskólasjúkrahúss (LSH) og víðar í heilbrigðisgeiranum. Við erum fremst í röð í afköstum og sýnileika eða fjölda tilvitnana á ýmsum helstu sviðum líf og læknavísinda. Einnig vitum við að fjölmörg fyrirtæki stór og smá hafa verið sett á laggirnar eða eru í burðarliðnum til að framleiða vörur og þjónustu í þágu heilbrigðisgeirans og til að bæta hag sjúklinga. Við vitum af fyrirtækjunum Össur, Actavis, Íslenskri erfðagreiningu og vaxandi sprotafyrirtækjum eins og NimbleGen Systems, Orf líftækni, Saga Medica, og fyrirtækjum í örðum skyldum greinum eins og Bláa lóninu og hinu gamalgróna Lýsi hf. sem einbeita sér að heilsuvörum og snyrtivörum. En fjölmörg önnur fyrirtæki og nýjar viðskiptahugmyndir eru nefndar til sögunnar og mér skilst að hér séu mörg mjög áhugaverð tækifæri á ferðinni sem við hljótum að veita eftirtekt á komandi árum og gera okkar best til að sjái dagsins ljós með þeim tækifærum sem við höfum.
Ég veit að kallað er eftir mun nánari samvinnu opinbera geirans og einkageirans er verið hefur og það stendur nokkuð uppá stjórnvöld að marka stefnu um þau mál, m.a. um opinber innkaup á frumgerðum og fyrirgreiðslu um samvinnu við þróun nýrra efna, hugbúnaðar, tækja og búnaðar til læknisfræðilegra greininga og meðferðar sem einkafyrirtæki vilja koma á markað en verða fyrst að fá að reyna við okkar kröfuhörðu aðstæður í höndum sérfræðinga og upplýsts almennings. Við erum líka meðvituð um þá möguleika sem bygging nýs ,,Landssjúkrahúss" gæti boðið uppá - bæði til að þróa nýjungar en ekki síður til að skapa sterkari samlegðaráhrif milli greina lífvísinda, læknisfræði og verkfræði sem leitt gætu til nýrrar verðmætasköpunar sem byggð er á framúrskarandi þekkingu á ýmsum sviðum. Þarna er m.ö.o framundan mikilvægt tækifæri til að ástunda af endurnýjuðum krafti,,Opna Nýsköpun" eins hér er til umræðu.
Ágæta samkoma!
Ég vona að þessi morgunstund og athöfnin við afhendingu nýsköpunarverðlaunanna hér í lok fundarins verði okkur hvatning til samstöðu um að hlúa að nýsköpun á öllum sviðum. Ég hvet til þess að þar verði víða leitað fanga, og í þeirri leit verði horft til þeirra mikilvægu gilda að nýjungar gagnist okkur í sókn eftir bættu mannlífi og sjálfbærri nýtingu auðlinda sem er undirstaðan að farsælu lífi í þessu landi til framtíðar. Svo ég noti orðin hans Þórarins:
,,Berast ekki á
en bera á.
Þetta er blandan;
Heilfylli hugvits
sálafylli siðvits
fáeinir askar bókvits".
Og svo:
,,Á rás úr rásum
á förum upp úr förum
rása upp og út.
Allt er annað hvort
öpun
eða ný sköpun!"