Ávarp í tilefni af afhendingu Foreldraverðlauna Heimilis og skóla í Þjóðmenningarhúsinu 4. júní 2009
Ágætu gestir
Í dag veita Landssamtökin Heimili og skóli foreldraverðlaun samtakanna í 14. sinn við hátíðlega athöfn hér í Þjóðmenningarhúsinu og hafa verðlaunin náð að festast í sessi í samfélaginu. Það er ákaflega mikilvægt að beina sjónum að því sem vel er gert í skólum og veita frumkvöðlum og eldhugum viðurkenningu fyrir brautryðjendastarf sem vonandi nær að festast í sessi í skólunum og breiðast út til hagsbóta fyrir nemendur og fjölskyldur þeirra og samfélagið í heild. Viðurkenningar af þessu tagi eru ekki síst mikilvægar á þessum miklu umbrotatímum í samfélaginu þegar brýnt er að horfa til þeirra tækifæra sem möguleg eru út úr vandanum og í þeim efnum gegnir menntakerfið lykilatriði með foreldra sem virka þátttkendur í menntun barna sinna og sjálfboðaliðastarfi til að styðja við skólastarfið.
Það er ánægjulegt að sjá hversu mörg verkefni eru á hverju ári tilnefnd til Foreldraverðlauna og það er ekki öfundsvert hlutverk fyrir dómnefnd að velja eitt verkefni öðru fremur til foreldraverðlauna. Því er gleðilegt að sjá að einnig eru veitt sérstök hvatningarverðlaun og dugnaðarforksverðlaun. Að mínu mati eru allir sem hafa verið tilnefndir sigurvegarar og vil ég nota tækifærið og þakka ykkur öllum fyrir framlag ykkar til bættrar menntunar og aukinnar velferðar nemenda með frumkvöðlastarfi ykkar. Heimili og skóli eiga heiður skilinn fyrir að vekja með foreldraverðlaununum athygli á þeim fjölmörgu verkefnum sem stuðla að því að efla það mikilvæga og fjölþætta starf sem fram fer innan leik-, grunn- og framhaldsskóla með öflugu og jákvæðu samstarfi heimila, skóla og nærsamfélagsins að leiðarljósi.
Eitt af lykilatriðum í góðum skóla er að virkja foreldra til samstarfs í því skyni að nemendur nái sem bestum árangri á menntabrautinni og einnig til að heimili og skóli byggi í sameiningu upp heilsteypta sterka einstaklinga sem geta tekist á við líf og starf í lýðræðissamfélagi. Afar mikilvægt er að virkja nemendur einnig til þátttöku í skólunum bæði hvað varðar mál sem snerta menntun, velferð og aðbúnað þeirra og réttindi. Brýnt er að hlusta á rödd nemenda og hvetja þá til sem virkastrar þátttöku. - Skólar eru vettvangur til að vinna að eflingu lýðræðis, umburðarlyndis og jafnréttis bæði meðal starfsmanna og nemenda og ekki síður með markvissu samstarfi við foreldra og nærsamfélag skólanna.
Velferð barna er í skólalöggjöf skilgreind sem grundvallaratriði í starfi skóla sem eiga að gæta að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan þeirra barna er hann sækja. Skólinn á að vera griðastaður barna þar sem þau finna til öryggis, fá tækifæri til að þroska og nýta hæfileika sína og njóta bernsku sinnar. Réttur barna til skólagöngu er settur skýrt fram og skyldur skólayfirvalda í þeim efnum áréttaðar. Velferð barna í grunnskólum byggir ekki síst á því að foreldrar og forráðamenn gæti hagsmuna barna sinna, eigi samstarf við skóla og styðji börn á skólagöngu þeirra og sinni námi þeirra.
Ég vil nota þetta tækifæri til að beina því sérstaklega til allra viðstaddra og og til skólasamfélagsins alls að leggja sérstaka áherslu á líðan nemenda og vera vel á verði í þeim efnum á komandi skólaári. Í þeim efnum verða allir þeir aðilar sem koma að skólastarfi að standa saman til að móta sem jákvæðastan skólabrag.
Ég vil að lokum þakka Heimili og skóla fyrir það mikla starf sem samtökin hafa unnið í því að auka virkni foreldra á öllum skólastigum til þátttöku í námi barna sinna og foreldrastarfi almennt. Ég vona að það starf haldi áfram af miklum krafti því framlag foreldra er mikilsvert bæði til að bæta námsárangur nemenda og auka almenna velferð nemenda. Með því að virkja foreldra til þátttöku í skólastarfi er hægt að leysa úr læðingi afl sem stuðlar að enn betri menntun og velferð og um leið betra samfélagi.
Ég vil að lokum óska þeim sem hlýtur foreldraverðlaun Heimilis og skóla til hamingju og öllum viðstöddum til hamingju með daginn.