Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. júlí 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Opnun Tónlistarsafns Íslands í Kópavogi

Góðir gestir.

Það er ánægjulegt að vera hér með ykkur við upphaf hinnar ríkulegu dagskrár Kópavogsdaga og við opnun Tónlistarsafns Íslands sem nú hefur starf sitt formlega með þeirri sýningu sem við sjáum hér í salnum. Samningur menntamálaráðuneytis og Kópavogsbæjar um Tónlistarsafnið var undirritaður hér á þessum stað fyrir ekki svo löngu og nú er vinnan við verkefni Tónlistarsafnsins að komast á fullt. Þessi tími vorsins og menningarhátíð bæjarbúa er kjörið tækifæri til að opna safnið fyrir almenningi.

Tónlistarsafni Íslands er ætlað að vera þjónustu-, fræðslu- og miðlunarsetur fyrir tónlist og er ætlað að þjóna almenningi, söfnum og stofnunum í landinu með upplýsingum um listgreinina. Það er göfugt verkefni að efla þekkingu, skilning og áhuga á sögu íslenskrar tónlistar og það verður spennandi að fylgjast með vinnu safnsins og þróun á næstu árum.

Eins og allir þekkja er eðli tónlistar slíkt að mönnum verður orða vant. Franski rithöfundurinn Victor Hugo sagði einfaldlega að tónlist tjái það sem ekki er hægt að segja með orðum en megi heldur ekki liggja í þagnargildi. Tónlistarmaðurinn Elvis Costello sagði eitt sinn í viðtali að það að fjalla um tónlist í rituðu máli væri líkt og að fjalla um arkitektúr með dansi – sem er ekki öfundsvert verkefni.

Góðir gestir,

Líkt og aðrir viðstaddir vona ég að fræðimenn sem koma til starfa hjá Tónlistarsafni Íslands nái að yfirstíga fyrrnefnda erfiðleika, og ég er þess fullviss að á komandi árum munum við njóta þess starfs sem hér verður unnið með ýmsum hætti. Verkefnin eru nær óþrjótandi, viljinn er fyrir hendi til að gera eins vel og mögulegt er, og hér sem öðrum sviðum menningarlífsins er það ekki síst samvinnan á milli stofnana, safna og fræðimanna sem skilar árangri með góðum stuðningi almennings og yfirvalda.

Ég vil óska tónlistarfólki, Tónlistarsafni Íslands, Kópavogsbæ og öllum velunnurum íslenskrar tónlistarsögu til hamingju með daginn.

Takk fyrir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta