Ávarp ráðherra við afhendingu viðbyggingar Fjölbrautaskólans í Breiðholti 20. ágúst 2009
Nýbygging Fjölbrautaskólans í Breiðholti, 20. ágúst 2009, kl. 15
Skólameistari, skólanefndarmenn, kennarar, starfsfólk, nemendur, góðir gestir!
Það verða tímamót í starfsemi Fjölbrautaskólans í Breiðholti (FB) í dag. Þá fær skólinn til afnota nýja byggingu sem lengi hefur verið beðið eftir. Skólinn hefur búið við þröngan húsakost lengst af í þau rúmlega 30 ár sem hann hefur starfað. Það er því sérstakt ánægjuefni fyrir mig að vera viðstödd hér í dag er hið nýja húsnæði skólans verður opnað.
Með tilkomu byggingarinnar batnar aðstaða skólans á ýmsum sviðum. Hann fær aukið rými til almennrar kennslu og listkennslu. Þá batnar aðstaða nemenda umtalsvert með nýju mötuneyti og fjölnotasal á fyrstu hæð. Framkvæmdir hafa gengið vel frá því að verkið var boðið út í desember 2007. Byrjað var að byggja í apríl í fyrra og nú rúmu ári seinna sjáum við afraksturinn í þessu fallega og notadrjúga húsi.
Skólastarf í FB stendur á traustum grunni. Hann var fyrsti fjölbrautskólinn sem stofnaður var á Íslandi og tók til starfa haustið 1975. Nú hafa ríki og Reykjavíkurborg sameinast um að færa skólanum betri aðstöðu og er það í samræmi við gildandi samstarfssamning um uppbyggingu framhaldsskóla í Reykjavík. Þessi áfangi er mikilvægur í að bæta aðstöðu og aðgengi nemenda að framhaldsnámi í borginni en mjög þröngt hefur verið í framhaldsskólunum í Reykjavík undanfarin ár.
FB er einn af okkar stærstu framhaldsskólum. Þar er í boði mjög fjölbreytt nám og verkleg- og bókleg kennsla samtvinnast í skólanum. Hugmyndir um hinn breiða, sveigjanlega og fjölbreytta skóla hafa náð að þroskast hér. Skólinn hefur lagt sig fram um að mæta óskum nemenda sinna um menntun á margvíslegum sviðum. Starfsfólk skólans hefur verið duglegt við laga starfsemina að breyttum þörfum og gjarnan tekið við nemendum umfram það sem skólinn rúmar með góðu móti. Vil ég þakka því fyrir að gera sitt best til að leysa úr þröngri stöðu við innritun nýnema nú í vor.
Það eru fleiri tímamót hér í dag en þau sem ég hef áður nefnt. Kristín Arnalds sem verið hefur skólameistari Fjölbrautaskólans í Breiðholt um langt skeið lætur nú að störfum. Nýr skólameistari hefur verið ráðinn, Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir. Ég vil þakka Kristínu sértaklega fyrir langan og farsælan feril hér í FB og óska henni heilla í allri framtíð. Guðrúnu Hrefnu býð ég velkomna til starfa og óska henni alls hins besta í spennandi og krefjandi störfum sem henni bíða hér í skólanum í samstarfi við metnaðarfullt samstarfsfólk og námsfúsa nemendur.
Starfsmenn FB, nemendur og velunnarar skólans!
Til hamingju með þessa nýju byggingu. Ég þakka öllum sem unnu að undirbúningi framkvæmdarinnar svo og verktökum fyrir vel unnin störf. Fjölbrautaskólinn í Breiðholt horfir sem fyrr til spennandi framtíðar. Skólinn verður nú betur búinn til að takast á við þau verkefni sem hans bíða. Megi góður andi ríkja í þess nýja húsi.