Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

08. september 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur ávarp á setningarathöfn Bókmenntahátíðar í Reykjavík, 5. september 2009

„Hann stendur ásamt tjaldi og sendlíngi í fjöruborðinu niðrundan bænum og horfir á ölduna sogast að og frá. Kanski er hann að svíkjast um.“

Svona byrjar Halldór Laxness skáldsögu sína Heimsljós. Það er mikil list að skrifa upphafslínur bókar. Að margra mati hafa Camus og Kafka vinninginn í þessari list. Og höfundur Biblíunnar verður líka að teljast mjög efnilegur í þessum efnum: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. Jörðin var þá auð og tóm. Myrkur grúfði yfir djúpinu en andi Guðs sveif yfir vötnunum.“ Það má segja að með þessum orðum sé tónninn fyrir sköpunina sleginn á tæran og einfaldan hátt.

Góður vinur minn byrjar á bókum – en klárar þær sjaldnast. Ég skil ekki þessa áráttu hans því sjálf vil ég klára bækur, sjá hvernig þær enda, kynnast persónum og aðstæðum til fulls. Hann er mér ósammála. Kannski er þetta eitthvað sálrænt, þetta er örugglega eitthvað sálrænt, kannski er hann í einkalífinu hræddur við skuldbindingar, forðast að kynnast fólki til fulls, þolir ekki vonbrigðin við að sjá gallana sem leynast undir yfirborði okkar allra.

Bækur eru nefnilega eins og fólk. Misjafnar. Góðar, síðri, fagrar, ljótar, krefjandi, gefandi. Ég hef myndað sterk tilfinningabönd við bækur, sumar hafa orðið vinir mínir, misjafnlega góðir, sumar traustir vinir sem ég leita til oft, aðrar hafa fylgt mér í lífinu eftir lestur þeirra án þess að ég þurfi reglulega að endurlesa þær. Þær eru bara þarna, hafa breytt lífi manns, skotið rótum og fara hvergi.

Ég vil þó vara fólk við því að rugla bókum saman við fólk, sérstaklega að setja samasem merki milli bóka og höfunda þeirra. Góðir menn geta skrifað vondar bækur og vondir menn geta skrifað góðar bækur.

Bækur eru fólk. Á ensku er til máltækið að ekki skuli dæma bækur af kápunni. Þessi orð eru alltaf viðeigandi, ekki síst á tímum sem einkennast af yfirborði og skorti á dýpt. Hið mikla flóð upplýsinga hefur stækkað fyrir okkur heiminn að flatarmáli en ekki að rúmmáli. Ætli megi ekki segja að við vitum lítið um margt. Fréttirnar segja okkur tíðindin af ókunnu fólki á framandi stöðum. Skapa, ef vel tekst til, samúð og samkennd í augnablik. Samkennd sem dofnar fljótt og ristir oft grunnt.

Það er hins vegar í gegnum listina sem lífi okkar er breytt. Í gegnum listina, og þá ekki síst bókmenntirnar, erum við kynnt fyrir ókunnugu fólki í framandi aðstæðum. Við komumst undir yfirborð ólíkra samfélaga. Í stað hins einsleita dyns sem stafar frá fréttaveitunum færir listin okkar fjölskrúðugt og oft hjartsláttartruflandi líf.

Í gegnum bókmenntir gefst okkur færi á kynnast fólki sem oft er erfitt að komast í návígi við, hvað þá kynnast. Og af því ég minntist á vin minn og byrjunaráráttu hans þá er rétt að vitna í upphaf Vansæmdar JM Coetzee:

„Af fimmtíu og tveggja ára gömlum manni að vera, fráskildum, þykist hann hafa fundið ágæta lausn á kynlífsvanda sínum.“

Þetta segir vinur minn að segi allt sem segja þurfi um tilveru miðaldra karlmanna. Og fyrir mig, sem unga konu á Íslandi, þá er það auðvitað einstækt tækifæri að kynnast hugarheimi miðaldra karlmanns í Suður-Afríku á þennan hátt. Ég get síðan borið hann saman við hugarheim miðaldra karlmanna í íslenskum bókmenntum. Og þessi samanburður getur farið fram án þess ég þurfi nokkurn tíma að leggja það á mig að kynnast miðaldra karlmönnum. Ég þarf bara að opna tvær bækur.

En einhvern veginn grunar mig að þeim svipi saman hjörtum mannanna í Súdan og Grímsnesinu.

„Já: Ég er vistmaður á hæli; hjúkrunarmaðurinn minn fylgist með mér, hann hefur vart af mér augun og það er gægjugat á hurðinni, en hjúkrunarmaðurinn er brúneygður og sér ekki í gegnum mig, bláeygðan manninn.“

Já, svona hefst Blikktromma Gunters Grass. Upphaf sem er afskaplega grípandi. Við getum flest verið sammála um að sá sem lýkur þeirri bók uppsker ríkulega.

Það er reyndar ekki langt síðan Gunter Grass var hér á Íslandi, þá sem gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavík. Og þegar litið er yfir þá rithöfunda sem munu bera uppi Bókmenntahátíð 2009 sést vel hversu öflug þessi hátíð er í ár, eins og fyrri ár.

Bókmenntahátíðin er fastur og mikilvægur liður í íslensku menningarlífi. Af því ég ræddi um upphaf þá er ljóst að Bókmenntahátíð í Reykjavík er upphaf nýrra ævintýra fyrir alla þá sem að henni koma. Augljós eru áhrifin sem upplestur allra þeirra höfunda sem hér stíga á stokk mun hafa á áheyrendur sem fá mikilvæga innsýn í fjölbreytt höfundarverk. Ég efast heldur ekki um að rithöfundar og skáld sem hér koma fram muni eiga góðar og frjóar stundir.

Fólk er nefnilega eins og bækur. Það er gott að fletta upp í fólki, stundum er auðvelt að lesa það, stundum erfitt. Þeir höfundar sem hér munu koma fram sem fulltrúar skáldverka sinna eru í mörgum tilfellum upphaf á lengri kynnum. Þannig eru þeir eins og fyrstu línurnar í bókmenntaverki.

Við erum því stödd í einhverjum ævintýraheimi þar sem er kannski
æskilegt að við séum meðvituð um að geta mögulega orðið fyrirmyndir að ódauðlegum skáldsagnapersónum. Jafnvel í skáldsögu sem hefst á einhverjum eftirminnilegum orðum.

Ég óska ykkur gleðilegrar bókmenntahátíðar.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta