Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

08. september 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur ávarp við fyrstu skólasetningu nýja Framhaldsskólans í Mosfellsbæ 20. ágúst 2009

Setning Framhaldsskólans í Mosfellsbæ
Setning_moso

Í Innansveitarkroníku sinni lýsir Halldórs Laxness mannlífi í Mosfellsdal frá öndverðu og fram um seinna stríð. Þótt kronikan sé skáldsaga þá fjallar hún um fólk sem á einhverju skeiði ævinnar bjó í Mosfellssveit eða átti þar alla sína daga. Það er svo undir hælinn lagt hvort atburðir eigi stoð í raunveruleikanum eður ei og skiptir engu máli fyrir söguna, sem lýkur einhvern tímann á fimmta áratug síðustu aldar og þá var hér sveitabúskapur með gömlu lagi, líflegt mannlíf og hver og einn átti sína sögu, sín örlög, þótt venjubundinn verkahringur í daglegri önn væri fábrotinn. Krókar mannlífsins fara nefnilega eigin leiðir, alveg burtséð frá flækjum þjóðfélagsins.

Nú er öldin önnur í bókstaflegri merkingu orðsins. Mosfellssveit heitir nú Mosfellsbær, hér er blómlegt bæjarfélag, raunar með þeim stærstu á landinu, stjórnsýslan er öflug og hér er boðið upp á alla þjónustu sem sveitarfélög og ríki bera ábyrgð á. Kannski má halda því fram að í dag sé verið að reka smiðshöggið. 95% ungmenna skrá sig í framhaldsskóla og ríkið hefur fræðsluskyldu gagnvart þeim til 18 ára aldurs. Framhaldsskóli er því með sínum hætti hluti af þeim lífsgæðum sem fólk vill ganga að sem gefnum hvar sem það býr. Í dag bætist einn framhaldsskóli við með formlegum hætti, Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ. Framhaldsskólar í landinu eru nú rúmlega 30 talsins, en um það leyti sem Innansveitarkroniku lýkur voru einungis örfáir skólar aðgengilegir ungmennum.

Þjóðfélagið er líka orðið svo sérhæft. Í Innansveitarkroniku kunnu allir til búverka með gömlum hætti. Nú eru verkfæri þeirra einungis til á söfnum og verklagið ekki á færi annarra en sérfræðinga í gömlum vinnubrögðum. Nútíminn þarf á annars konar sérfræðingum að halda og þeir geta ekki lært af eldri kynslóðum til verka, þeir verða að ganga í skóla.

Nú segja sumir að ekki sé rétti tíminn til að stofna skóla og horfa þá til efnahagsumræðunnar. Fjármál voru líka til umræðu fyrr á tíð, og jafnan með nokkrum aðhaldsrómi og svartsýnistóni. Kannski vísar HKL til þess í Innansveitarkroniku með nokkurri kaldhæðni, að þá fari allt „á hausinn hjá því opinbera, nema skattstofan“. Um það skal ég ekki fjölyrða en spyr á móti: Er ekki einmitt rétti tíminn til þess að stofna skóla þegar ungmenni vilja fara í skóla sem aldrei fyrr? Endurreisnin verður að hvíla á nýrri og skapandi hugsun, áræðni í bland við íhygli og skarpa sýn.

Bæjaryfirvöld hafa frá upphafi sýnt mikinn metnað við stofnun þessa skóla. Þau hafa sett fram ákveðna sýn á menntun í bæjarfélaginu sem endurspeglast líka á öðrum skólastigum og þar hefur skólinn gott veganesti. Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ verður sá fyrsti sem tekur til starfa og vinnur samkvæmt nýjum lögum um framhaldsskóla og mun verða í fararbroddi í þróun og innleiðingu nýrra laga og námskrár. Með nýjum framhaldsskólalögum hafa skólar meiri sjálfstæði um mótun síns námsframboðs og tengingu við aðstæður í sínu nærumhverfi. Hafa þegar verið markaðar áhugaverðar leiðir í námsframboði í nýjum skóla. Væntir menntamálaráðuneytið þess að eiga gott samstarf við skólann og bæjaryfirvöld um frekari þróun.

Í Innansveitarkroniku er sú fræga saga sem sögð er af brauðinu dýra. Þá var Guðrún Jónsdóttir vinnukona send með nýbakað brauð milli bæja en villtist í þoku á Mosfellsheiði. Er nú frá því að segja að hún lá úti nokkra sólarhringa áður en hún komst til byggða og skilaði þá því brauði sem hún hafði verið send með og hafði ekki borðað af því einn bita, hvað þá meir. Hún var spurð af hverju hún hefði ekki fengið sér bita til að auka sér þrek í villunni, og þá svaraði Guðrún Jónsdóttir þessum fleygu orðum: „Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir.“

Ég ætla kannski ekki að líkja Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ við brauðið góða, en með sínum hætti má segja að héðan í frá sé vegsemd og virðing skólans fólgin í góðri umsjá og umhirðu þess góða fólks sem ráðið hefur verið til hans og þeim atbeina sem bæjarbúar og bæjaryfirvöld leggja honum.

Ég óska Mosfellingum til hamingju með skólann og óska skólameistara og öðru starfsfólki allra heilla í starfi.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta