Ávarp menntamálaráðherra við formlega stofnun Icelandic Gaming Industry 25. september 2009
Hugmyndahúsið Grandagarði 2
Icelandic Gaming Industry - Íslenskur tölvuleikjaiðnaður
Það er til marks um nýja tíma að íslensk tölvuleikjafyrirtæki skuli nú stofna með sér samtök, þessi iðnaður hefur þróast hægt og rólega yfir langan tíma og nú munu um tíu íslensk fyrirtæki vinna á þessu sviði: þar sem hugvitinu er breytt í leiki eða tengdan hugbúnað.
21. öldin er öld hinna skapandi atvinnugreina og þær hafa tvímælalaust æ meiri þýðingu fyrir hagvöxt á Íslandi. Hagræn áhrif menningar eru vaxandi um allan heim. Atvinnuvegir framtíðar munu byggjast á nýsköpun og sköpunarkrafti. Það hefur því verið einstaklega ánægjulegt að fylgjast með örum vexti tölvuleikjafyrirtækja á Íslandi og sjá frjóa hugsun og faglegan metnað íslensks tölvuleikjafólks.
Einn mikilvægasti menningararfur okkar Íslendinga er sagnahefðin. Hún tengist beint tölvuleikjaiðnaðinum sem gengur út á að gefa sögum líf í gegnum gagnvirkni og þátttöku þeirra sem spila. Þennan sagnabrunn okkar má nýta enn betur til að gefa sögunum líf og kveikja áhuga ungu kynslóðarinnar á m.a. norrænni goðafræði og Íslendingasögunum.
Ísland hefur getið sér orð fyrir skapandi starf á síðustu árum. Árangur listamanna okkar á erlendum vettvangi undirstrika hversu mikilvægt er að við sinnum skapandi starfi í skólum. Í vinnu við gerð nýrra aðalnámskrár er lögð áhersla á skapandi greinar. Þar liggja tækifæri okkar í sjálfbæru samfélagi.
Það er mikilvægt fyrir töluleikjaiðnaðinn að huga að grunninum. Það er gleðiefni að nýstofnuð samtök tölvuleikjaframleiðenda hér á landi skuli ætla að huga sérstaklega að menningar- og menntamálum – bæði með því að styðja við og stuðla að kennslu í greininni, og einnig hvernig hægt er að nýta tölvuleiki til kennslu og til þess að koma menningu á framfæri hér heima og erlendis.
Norðurlöndin hafa náð miklum árangri á sviði skapandi atvinnugreina. Norræna ráðherranefndin kom á fót sjóði árið 2006 til að styðja við þróun norrænna tölvuleikja fyrir börn og unglinga. Nordic Game -sjóðurinn hefur skipt miklu máli fyrir íslenskan tölvuleikjaiðnað og einnig byggt upp samstarf og tengslanet á Norðurlöndum sem er afar mikilvægt fyrir okkur.
Framtíð Íslands byggist á því að við nýtum sköpunarkraft þjóðarinnar og hlúum að nýjum hugmyndum og lausnum. Ég óska nýstofnuðum samtökum, Icelandic Gaming Industry allra heilla.