Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra á ráðstefnunni Líf og list án landamæra 28. september 2009
Grand hótel 28. september 2009
Það er mér ánægjuefni að vera hér með ykkur við upphaf ráðstefnunnar Líf og list án landamæra: sýnileiki, réttindi og þátttaka. Þessi ráðstefna er hluti af formennskuáætlun Íslands á vettvangi norræns samstarfs á þessu ári, og er gott dæmi um með hvaða hætti grasrótin í menningar- og félagsstarfsemi í hverju landi getur orðið að kveikjan að hugmyndum sem eiga fullt erindi til fjöldans.
Hér verður m.a. fjallað um hvernig sýnileika og kynningu fólks með fötlun er háttað í fjölmiðlum og menningarlífi Norðurlandanna, og með hvaða hætti samningur Sameinuðu Þjóðanna, sem undirritaður var 30. mars 2007, um réttindi fólks með fötlun getur orðið lyftistöng í framtíðinni til að auka þátttöku þessa þjóðfélagshóps í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi. Loks verður fjallað um menningarhátíðina List án landamæra, sem ráðstefnan dregur nafn sitt af og getur ef vel tekst til orðið fyrirmynd að svipuðum hátíðum á öðrum Norðurlöndum.
Við skiljum orðið landamæri sem mörk á milli landa og þjóðríkja, og þau eru í flestum tilvikum vel þekkt. Hér eru hins vegar til umfjöllunar önnur landamæri: bæði sýnileg og ósýnileg mörk í umhverfi okkar og þjóðfélagi, lítil eða stór, sem eðli sínu samkvæmt geta verið mörgum mjög afdráttarlausar hindranir þegar á reynir.
Hinn almenni borgari hér á landi sem annars staðar heldur oftar en ekki að þjóðfélagið veiti öllum jafnan aðgang að þeim gæðum sem boðið er upp á í menningarlífi, listum og öðrum þeim sviðum, sem fólk sækir andlega næringu til. Þeir sem búa við fötlun af einhverju tagi og aðrir sem láta sig málefni þeirra varða vita betur. Því er mikilvægt í hverju því samfélagi sem vill vinna að því takmarki að það þjóni hagsmunum allra sinna þegna jafnvel, án aðgreiningar, að taka öll slík landamæri til skoðunar, greina þau og flokka með það að markmiði að fjarlægja þau hið fyrsta.
Af dagskrá ráðstefnunnar má ráða að það er einmitt markmiðið hér í dag að sýna dæmi um og skilgreina þessi landamæri á sviði lista og menningar, huglæg sem raunveruleg, hvort sem þau eiga rætur sínar í sinnuleysi eða forræðishyggju, skorti á reglum eða skorti á að reglum sé fylgt. En það á einnig að líta til alþjóðlegs samhengis, fyrirmynda, mögulegra lausna og aðgerða sem geta orðið til að bæta stöðuna. Og hér eru samankomnir þeir sem málin brenna á, þeir sem geta bent á lausnirnar og ýmsir þeir sem geta átt mikinn þátt í að koma þeim lausnum í framkvæmd.
Líf og list án landamæra fyrir alla er sjálfsögð og eðlileg krafa í samfélagi manna á 21. öld. Þangað ber að stefna, og það er hægt að ryðja úr vegi öllum hindrunum slíks samfélags. Sú vinna þarf alltaf að vera í gangi, og ég er þess fullviss að þessi ráðstefna mun leggja sitt af mörkum til að gera slíkt samfélag mögulegt.
Ég óska ykkur góðs gengis á ráðstefnunni Líf og list án landamæra, og segi hana hér með formlega setta.
Takk fyrir.