Norræn ráðstefna um kyn og kreppu 26. september 2009
Þekkt persóna í sögu eftir Halldór Laxness, Bjartur í Sumarhúsum, sagði að menn hefðu ímyndað sér í þúsund ár að þeir kæmust úr kreppu á dularfullan hátt og eignuðust höfuðból og yrðu stórbændur. Við ætlum ekki bara að finna okkur leiðir út úr kreppunni heldur verður í dag leitað að svörum við því hvernig við getum nýtt hana til aukins kynjajafnréttis.
Sem menntamálaráðherra er mér sérstök ánægja að koma hingað í dag af því að það er ekkert dularfullt á bak við það hvernig ríkisstjórnin ætlar að mæta þeirri áskorun sem kreppan er. Við erum félagshyggjufólk og vinnum að því að leiða til öndvegis ný gildi jöfnuðar, félagslegs réttlætis, samhjálpar, sjálfbærrar þróunar, kvenfrelsis, siðbótar og lýðræðis. Við ætlum okkur að skapa norrænt velferðarsamfélag á Íslandi þar sem almannahagsmunir eru teknir fram yfir sérhagsmuni.
Við í Vinstri-grænum höfum alla tíð lagt sérstaka áherslu á jafnrétti og kvenfrelsi. Það er afar skýrt í okkar huga að við stefnum að samfélagi þar sem bæði konur og karlar fá notið sín og höfnum því að fólki sé mismunað eftir kyni. Réttlátt samfélag er hagur allra - bæði kvenna og karla. Við leggjum áherslu á að kynjunum verði tryggðir jafnir möguleikar til framfærslu. Við erum sannfærð um að samfélagið fær ekki staðist án vinnuframlags beggja kynja og að í velferðarkerfi eigi að meta það til launa. Markmið ríkisstjórnarinnar er að aðgerðir og stuðningur í yfirstandandi efnahagsþrengingunum komi konum jafnt sem körlum til góða.
Atvinnumálin eru að sjálfsögðu ofarlega í hugum okkar og er mikilvægt að atvinnuuppbygging í landinu miðist jafnt við konur sem karla. Sú reynsla sem fengist hefur í áranna rás greinir bæði frá færum leiðum og pyttum að forðast. Til dæmis gerðist það hér á Íslandi í kreppunni milli 1930 – 1940 að verkakonur voru neyddar til að lækka í launum til þess að hægt væri að halda launum karla óbreyttum. Sannarlega hefur margt breyst í jafnréttismálum á þeim 70 árum sem síðan eru liðin og mikil vakning endurspeglast til dæmis í Kvennafrídeginum sem haldinn var árið 1975 hér á Íslandi með ótrúlega fjölmennri þátttöku kvenna. Einnig má nefna að árið 1988 tóku nálægt 10.000 konur frá Norðurlöndum þátt í kvennaráðstefnu í Osló sem haldin var af Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni. En allur er varinn góður eins og sjá má af kreppum sem skömmu síðar komu á Norðurlöndum. Reynsla Færeyinga eftir kreppuna sem þar stóð yfir um og upp úr 1990 er sú að fólksflótti brast á og enn eru konur í landinu mun færri en karlar. Þær hafa enn ekki komið til baka í sama mæli og karlar. Atvinnuuppbyggingu er kennt um; að hún hafi fremur miðast við atvinnugreinar karla en kvenna. Í finnsku kreppunni sem stóð yfir á svipuðum tíma jókst vændi töluvert og vitað er að slíkt hefur alvarlegar afleiðingarnar fyrir konur. Nauðsynlegt er að afstýra aðstæðum sem stuðla að því að konur lendi í slíkri aðstöðu.
Síðustu mánuði hefur atvinnuleysi meðal kvenna aukist hlutfallslega meira en meðal karla. Í sumar fækkaði körlum á atvinnuleysisskrá en konum hélt áfram að fjölga. Vinnumálastofnun telur að skýringin geti verið tímabundin og fólgin í fleiri störfum í byggingariðnaði yfir sumartímann. Nú þegar þrengir að hjá hinu opinbera er mikilvægt að gæta að því að ástandið bitni ekki á konum fremur en körlum. Ríkisstjórnin hyggur á aðgerðir sem stuðla að því að við konum blasi ekki verri staða en körlum.
Einstæðir foreldrar eru í viðkvæmri stöðu gagnvart auknu álagi sem heimili þeirra mæta. Sérstaklega þarf að huga að konum í þessu árferði því einstæðar mæður með börn á framfæri eru langstærsti hluti einstæðra foreldra. Vaxandi fjárhagsvandi heimila hefur áhrif á alla fjölskyldumeðlimi og er því nauðsynlegt að snúa vörn í sókn. Finna tækifæri sem kunna að vera innan seilingar og nýta þau svo úr verði betri líðan og bætt afkoma.
Sem menntamálaráðherra hef ég beitt mér fyrir sóknarfærum í menntun. Sannarlega hef ég í huga að mikilvægt er að konur og karlar hafi jöfn tækifæri til að stunda nám. Sumarnám við Háskóla Íslands var valkostur sem fjölmargir nýttu sér á tímum þegar atvinnuleysi blasti annars við. Með hækkun námslána, sem voru lægri en atvinnuleysisbætur, og þeirri ákvörðun að sumarnám verði lánshæft, er komin ný staða sem sannarlega breytir miklu fyrir marga sem nú fá tækifæri til að stunda nám. Þessar aðgerðir eru vissulega kostnaðarsamar en því fjármagni er að mínu mati vel varið, enda fjárfesting til framtíðar.
Í menntamálaráðuneytinu er verið að semja nýjar námskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Hin nýja menntastefna felur í sér að jafnréttissjónarmiðum á að flétta inn í allt skólastarfið sem þannig á að gegnsýrast af jafnréttisvitund.
Á undanförnum árum, þegar ekki bar á atvinnuleysi, voru sóknarfæri fyrir ungt fólk víðar en í námi, til dæmis í byggingariðnaði en svo er ekki á þessum tímum. Bóklegt langskólanám er ekki endilega valkostur sem höfðar til allra og nú er verið að huga að þeim hópi sem hefur stutta eða enga skólagöngu eftir að skyldunámi lauk. Verið er að skoða möguleika á námi, sem er til hliðar við hefðbundið skipulag, þar sem fólk getur fundið kröftum sínum farveg og undirbúið sig fyrir lífið. Ríkisstjórnin telur mikilvægt að hlúa að menningarstarfsemi um allt land með áherslu á íslenska sköpun.
Á komandi vori verða sveitarstjórnarkosningar á Íslandi og í vetur skapast því margvísleg tækifæri til að láta að sér kveða. Hlutfall kvenna í sveitarstjórnum á Íslandi hefur aukist hægt og bítandi síðastliðna hálfa öld og eru konur nú rúmur þriðjungur sveitarstjórnarmanna. Í síðustu sveitarstjórnarkosningum var engin kona kjörin í 5 sveitarfélögum og karlar eru í meirihluta flestra sveitarstjórna. Í stöðum bæjarstjóra eru konur innan við þriðjungur og sjá má að á þessum vettvangi eru sóknarfæri fyrir konur. Við getum til dæmis dregið lærdóm af Norðurlandaþjóðunum og er ég sannfærð um að ráðstefnugestir hafa ýmsu að miðla. Með því að verða virkur í sveitarstjórnastarfi og stjórnmálahreyfingum myndast tengslanet og margvíslegar leiðir opnast. Til dæmis er ein leið til áhrifa að taka þátt í nefndastarfi og stjórnum stofnana og fyrirtækja. Í minni stjórnartíð sem ráðherra hefur ný kynslóð hafið þátttöku í nefndum á vegum menntamálaráðuneytisins og helmingurinn er konur!
Með vinstri stjórn á Íslandi hefur konum fjölgað í ríkisstjórn. Nú eru 5 konur og 7 karlar ráðherrar og voru konur 47% frambjóðenda. Fyrsta konan tók sæti á Alþingi árið 1922 og fram til ársins 1970 sátu þar ein til tvær konur og stundum engin. Árið 1978 var hlutfall kvenna á þingi 5% en árið 1980 létu konur til sín taka með sérstöku kvennaframboði sem hleypti lífi í kynjapólitíkina á Alþingi. Síðan hefur hlutfallið verið frá 25% - 35% þar til á núverandi þingi að konur eru 43% þingmanna.
Tækifærin liggja víða, við þurfum að hafa augun opin og sýna dug, djörfung og hug. Finna leiðir, opna gáttir. Kreppa þýðir endurmat á gildum, við þurfum að rækta garðinn okkar, þar eru tækifæri.
Norðurlönd hafa dýrmætri reynslu að miðla. Ég er sannfærð um að hér í dag verður drjúgur lærdómur dreginn!