Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. október 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra á ráðstefnu Samtaka um samræmd landfræðileg upplýsingakerfi á Íslandi 1. október 2009

Það er mér ánægjuefni að vera hér með ykkur við upphaf ráðstefnunnar Landupplýsingar 2009, haustráðstefnu LÍSU samtakanna. Það markmið ráðstefnunnar að mynda vettvang fyrir alla þá sem nota landupplýsingar, vinna að kortagerð, landmælingum og öðrum þáttum upplýsingavinnslu á þessu sviði, endurspeglast vel í þeirri þéttu dagskrá sem hér liggur fyrir og verður eflaust afar fróðleg fyrir alla þá sem starfa á þessu sviði.

Við gerum okkur ef til vill fæst grein fyrir því hversu háð við erum því að réttar og tímalegar upplýsingar liggi fyrir á þessu sviði. Öll skipulagsvinna, áætlanir um náttúruvernd og landnýtingu, landgræðslu og skógrækt, vegagerð og samgöngur, orkuvinnslu og íbúabyggð, svo nefnd séu nokkur dæmi, byggja á því að réttar landupplýsingar liggi fyrir. Án þeirra – hvað þá ef byggt er á röngum upplýsngum – er unnið fyrir gýg og slík vinna kann jafnvel að valda ómældu tjóni sem hægt væri að forða á grundvelli réttra upplýsinga. Hér er því um að ræða einn af grundvallarþáttum í uppbyggingu samfélagsins sem gæti reynst fallvölt spilaborg ef ekki er hægt að byggja á réttum upplýsingum.

Vegna síbreytilegrar náttúru Íslands eru gögn af því tagi sem hér um ræðir ómetanleg heimild en í samtímanum stöndum við frammi fyrir þeim vanda að þau eru aðeins að hluta í forsjá opinberra aðila hér á landi. Allar nýjar loftmyndir af landinu eru í eigu fyrirtækja á markaði og gervitunglagögn eru að mestu í eigu erlendra fyrirtækja, þó nokkur þeirra séu til í afritum hér á landi. Skrár um landfræðileg gögn eru sjaldan birtar utan þeirra stofnana sem varðveita þau og því ekki auðvelt fyrir leikmenn eða aðra mögulega notendur að leita eftir þeim eftir hefðbundnum leiðum.

Varðveisla eldri gagna á sviði landupplýsinga er vandamál sem þarf að leysa á næstu árum. Ekki hefur verið mörkuð sérstök stefna um varðveislu og öryggismál gagna af þessu tagi og því hefur verið haldið fram að íslenskt lagaumhverfi nái ekki að tryggja nægilega yfirsýn yfir hvað er til af kortum og stafrænum upplýsingagögnum í landinu. Sá lagarammi sem til er um varðveislu gagna felst einkum í lögum um Þjóðskjalasafn Íslands nr. 66/1985 og lögum um skylduskil til safna nr. 20/2002. Í hinum fyrrnefndu er að finna ákvæði sem ætlað er að tryggja varðveislu allra gagna af því tagi sem hér er um að ræða í eigu skilaskyldra aðila, jafnframt því sem þar er að finna heimild til að taka við gögnum annarra. Í þeim síðarnefndu hefur verið leitast við að tryggja skilaskyldu á öllu efni sem kemur fram á opinberum vettvangi og er Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn viðtökuaðili allra slíkra gagna.

En ef til vil þarf að gera enn betur og skerpa á þeim lögum sem hér um ræðir. Það er mikill fengur fyrir stjórnvöld að eiga vísa samvinnu samtaka eins og LÍSU vegna slíkra mála. Er rétt að hvetja samtökin til samráðs við Þjóðskjalasafn Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn til að leita leiða til að koma á heildstæðri stefnu um hvernig frumgögn á sviði landupplýsinga verði best varðveitt og gerð aðgengileg með skipulagðri skráningu þeirra.

Það er framtíðarverkefni sem ég vona að allir geti lagst á eitt með að finna farsæla lausn á. Ég óska ykkur góðrar og fróðlegrar ráðstefnu.

Takk fyrir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta