Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. október 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Formleg opnun vefsafns fyrir almenning 29. september 2009

Í upphafi 3. málsgreinar 8. greinar laga nr. 20/2002 um skylduskil til safna segir einfaldlega:

Landsbókasafn skal varðveita verk sem birtast á rafrænu formi á neti.

Það er ekki víst að margir þingmenn hafi gert sér grein fyrir því gríðarlega verkefni sem verið var að hrinda af stað með þessum fáu orðum, og það er enn erfitt að gera sér í hugarlund hvað þetta verkefni mun þýða fyrir framtíðina. Það að safna öllum vefsíðum og öðrum rafrænum gögnum sem birt eru og gerð aðgengileg almenningi á þjóðarléninu .is og varðveita þau gögn um aldur og ævi er aðeins fyrsti hluti verkefnisins. Upplýsingar eru nefnilega einskis virði nema hægt sé að nýta þær. Síðari hluti þeirrar áskorunar sem starfsfólk Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns hefur staðið frammi fyrir fólst í því að greiða öllum sem þess óska aðgang að efninu – yfirstíga fjölda tæknilega hindrana við að flokka þennan frumskóg vefsíðna og rafrænna gagna og gera leitarbært, smíða lykil að þeim fjársjóðum sem þegar hefur verið safnað og eiga aðeins eftir að stækka í framtíðinni.

Við erum hér samankomin í dag til að fagna því að tekist hefur að leysa þær þrautir sem lágu í veginum, og nú verður opnuð 1. útgáfa af viðmóti sem gerir öllum kleift að leita í þessum fjársjóðum sögunnar í gegnum nýja leitargátt sem hefur hlotið nafnið vefsafn.is.

Þar opnast kistur fullar af fróðleik og forgengilegu efni. Á vefsafn.is má finna fréttir sem eldast misvel, gamlar stjórnmálaumræður sem verða ýmist djúpúðugar eða drepfyndnar í ljósi sögunnar, dægurflugur sem áttu sér skamma ævi eða reyndust fyrirboðar til framtíðar, vefsíður fyrirtækja sem ýmist hafa dafnað eða dáið, og þannig mætti lengi telja.

Ísland mun vera meðal fyrstu ríkja í heimi til að safna öllu efni í þjóðarléni sínum með þessum hætti og gera það aðgengilegt almenningi. Hér er því um að ræða frumkvöðlastarfsemi sem ber að hrósa sérstaklega. Ég vil óska starfsfólki Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns til hamingju með árangurinn og þann áfanga sem hér er náð. Sú vefgátt sem við opnum nú á örugglega eftir að þróast frekar á næstu misserum, og það verður spennandi að sjá hversu fjálglega fróðleiksþyrstir Íslendingar taka á móti þessu nýja gagnasafni.

Góðir gestir,
Í dag eru það forréttindi að vera forvitinn ráðherra og fá tækifæri sem þetta til að grúska. Nú er rétt að nota sér aðstöðuna, og ég lýsi vefsafn.is hér með opnað, og megi fyrsta leitin á þessu nýja safni ganga hratt og vel fyrir sig og skila tilætluðum árangri.

Takk fyrir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta