Samstarfsnefndarfundur með skólameisturum framhaldsskóla 19. október 2009
Ágætu skólameistarar!
Ég býð ykkur velkomna til þessa haustfundar samstarfsnefndarinnar sem að þessu sinni er haldinn hér í Reykjavík. Eins og þið vitið þá hafa haustfundirnir oftast verið haldnir utan Reykjavíkur og staðið í tvo daga. Að þessu sinni var ákveðið að halda eins dags fund og hafa hann í Reykjavík vegna þeirra óvenjulegu aðstæðna sem við búum við um þessar mundir.
Ég ætla að byrja á því að fara yfir þær breytingar sem orðið hafa í hópi skólameistara og starfsmanna ráðuneytisins frá síðasta fundi okkar. Kristín Arnalds, skólameistari Fjölbrautaskólans í Breiðholti, lét af störfum í upphafi skólaárs. Kristín hafði lengi gegnt störfum sem skólameistari skólans og kann ég henni þakkir fyrir vel unnin störf. Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir tók við sem skólameistari skólans 1. ágúst sl. Þá hóf göngu sína í haust nýr skóli, Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ, og veitir Guðbjörg Aðalbergsdóttir honum forstöðu en hún var áður skólameistari Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Skúlína Kjartansdóttir var ráðin skólameistari Fjölbrautaskóla Snæfellinga á vordögum. Laufey Petrea Magnúsdóttir hefur verið skipuð skólameistari við Framhaldsskólann á Húsavík en hún gegndi starfi Guðmundar Birkis Þorkelssonar sl. skólaár á meðan hann var í leyfi. Þá vil ég geta þess að Einar Birgir Steinþórsson, skólameistari Flensborgarskólans, er í námsleyfi og gegnir Magnús Þorkelsson starfi hans á meðan. Bryndís Sigurjónsdóttir hefur verið sett skólameistari við Borgarholtsskóla í eitt ár í fjarveru Ólafs Sigurðssonar sem hefur hafið störf í ráðuneytinu. Ólafur Jón Arnbjörnsson, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja er áfram í leyfi og gegnir Kristján Ásmundsson, starfi hans á meðan. Þá hefur Helgi Ómar Bragason, skólameistari Menntaskólans á Egilsstöðum, komið til starfa að nýju eftir námsleyfi. Allt þetta góða fólk býð ég velkomið til starfa og óska því velfarnaðar.
Í ráðuneytinu hafa þær breytingar orðið að Baldur Guðlaugsson hefur tekið við starfi ráðuneytisstjóra. Sigurður Sigursveinsson lét af störfum í vor og í hans stað hefur Ólafur Sigurðsson, skólameistari Borgarholtsskóla , verið ráðinn eins og áður sagði. Skipulag á skrifstofu menntamála hefur verið í mótun frá því að breytingar urðu um síðustu áramót. Ég hef lagt áherslu á að mikilvægi stefnumótunar og þróunar endurspeglist í skipulaginu og hefur nú verið stofnuð stefnumótunar- og þróunardeild sem Sigurjón Mýrdal stýrir. Meginverkefni þeirrar deildar mun á næstu misserum vera að vinna að námskrárgerð fyrir leik-, grunn- og framhaldsskólastig. Þórir Ólafsson stýrir nú framhaldsskóla- og framhaldsfræðsludeild, Sigríður Lára Ásbergsdóttir leik- og grunnskóladeild og Stefán Stefánsson, verkefnadeild sem vinnur að skipulagi þeirra fjölmörgu verkefna sem framundan eru við innleiðingu nýrra laga.
Eins og dagskrá þessa fundar ber með sér eru fjármál og innleiðing nýrra laga og þróun nýrrar aðalnámskrár fyrirferðarmikil þessa dagana. Einnig fara nú í hönd viðræður milli ráðuneytisins og framhaldsskóla um nýja skólasamninga en í nýjum framhaldsskólalögum fá þeir samningar aukið vægi m.a. varðandi innritun í framhaldsskóla.
Á tímum sem þessum þegar miklar og krefjandi breytingar eru framundan er afar mikilvægt að virkt samráð sé á milli menntamálaráðuneytis og skólastjórnenda. Að milli okkar sé traust, að upplýsingum sé miðlað á báða vegu og að unnið sé í góðu samkomulagi. Samstarfsnefndarfundur sem þessi og skólasamningar eru leiðir til þess en einnig er mikilvægt að efla samráðið með frekari hætti.
Víkjum fyrst að fjármálum
Á samstarfsnefndarfundi síðastliðið vor var kynnt vinna starfshóps ráðuneytisins og skólameistara um sparnaðarleiðir í framhaldsskólum. Tekið var mið af áherslum sem fram komu í þeirri vinnu um forgangsröðun við fjárlagagerð en endanleg útfærsla þeirra var að sjálfsögðu á ábyrgð ráðuneytisins. Að fylgja eftir kröfu um niðurskurð á framlögum til skóla er krefjandi verkefni og áhrifa niðurskurðar mun óhjákvæmilega gæta í starfi þeirra á næstu árum. Á sama tíma er skólasókn í hámarki. Tekin var sú ákvörðun að niðurskurður yrði minni í framlögum til framhaldsskóla en annarra stofnana mennta- og menningarmálaráðuneytis. Miðað var við að niðurskurður á fjárframlögum til framhaldsskóla yrði 5,5% en framlög til háskóla eru skert um 8,5% og annarra stofnana á vegum ráðuneytisins um 10%.
Forgangsröðun ráðuneytisins og hvernig hún kemur fram gagnvart hverjum skóla var kynnt skólameisturum nú í sumar en einnig urðu breytingar á áætluðum fjárframlögum í reiknilíkani vegna húsnæðisframlags og framlags vegna námsbrauta fyrir fatlaða. Miðað við áætlun um samdrátt í útgjöldum til að ná jöfnuði í ríkisútgjöldum þurfa menn að vera viðbúnir frekari niðurskurði næstu tvö til þrjú árin. Það er því mikilvægt að sú vinna sem hafin var með samstarfi skólameistara og ráðuneytisins um sparnaðaraðgerðir haldi áfram og að leitað sé allra leiða til að viðhalda hinu góða starfi sem á sér stað í framhaldskólum þrátt fyrir þrengri fjárhag.
Námskrár og innleiðing nýrra laga
Nú þegar rúmt ár er síðan ný lög um framhaldsskóla voru sett hefur margt breyst. Óhjákvæmilega hljóta þær breytingar sem átt hafa sér stað í efnahagslífinu, stjórnmálum og þjóðfélaginu almennt að setja sitt mark á hvaða áherslur eru lagðar innan ákvæða laganna. Lögin setja mjög víðan ramma um starfsemi skólanna og þeim er gefið aukið svigrúm til að móta sitt námsframboð innan þeirra viðmiða sem ráðuneytið setur í aðalnámskrá. Þau viðmið snúa bæði að efnislegum áherslum og einnig að uppbyggingu (strúktúr) námsins. Nýju lögin gerðu ráð fyrir aukinni dreifstýringu og að skólarnir skipulegðu námsframboð sitt í samræmi við stefnu sína og staðbundnar áherslur. Því er með nýju lögunum gert ráð fyrir fjölbreyttara námsframboði á framhaldsskólastigi en nú er.
Ég hef lagt áherslu á að í skólastarfi skuli vera lögð áhersla á fimm grunnstoðir sem endurspeglast skuli í námskrám og í öllu skólastarfi. Þessar stoðir eru: læsi í víðum skilningi, lýðræði, jafnrétti, menntun til sjálfbærni og skapandi skólastarf.
Framhaldsskólar hafa þegar hafið vinnu við námsbrautarlýsingar útfrá drögum að viðmiðum um lykilhæfni og lokapróf sem ráðuneytið gaf út síðastliðið vor. Þessi vinna mun þurfa að mótast frekar með hliðsjón af þeim áherslum sem ég hef nú sett fram og munu verða þróaðar áfram í námskrárferlinu og í samstarfi ráðuneytis og skóla.
Mörg úrlausnarefni eru framundan varðandi uppbyggingu náms á framhaldsskólastigi. Þau snúast t.d. um þrepaskiptingu og lokapróf, lengd náms, námsframboð og sérhæfingu skóla, þróun starfsnáms og vinnustaðanáms, nýtt meistaranám, nám að loknu stúdentsprófi og svo mætti lengi telja. Ákveðin skref hafa verið stigin til þess að móta lausnir í þessum málum. Ráðuneytið hefur átt gott samstarf við ýmsa aðila úr framhaldsskólum og af öðrum vettvangi til þess að ræða hugmyndir um framtíðarskipan.
Það á við bæði um hinar efnislegu áherslur og uppbyggingu námsins að þar skiptir hið mikla þróunarstarf sem nú á sér stað í framhaldsskólum höfuðmáli. Á endanum er það framkvæmdin, sem er í ykkar höndum skólameistarar góðir og annars starfsfólks framhaldsskóla, er ræður úrslitum um hvernig til tekst. Skilboðin í aðalnámskránni þurfa að vera skýr en þau eru dauður bókstafur ef þau falla ekki saman við þá vinnu og þann drifkraft og þær hugmyndir og þarfir sem fyrir hendi eru í skólunum. Í því ferli innleiðingar sem framundan er mun því ráðuneytið, áfram sem hingað til, leitast við að hafa virkt samráð við framhaldsskóla.
Skólasamningar og innritun
Á morgun mun hefjast fyrsta lota viðræðna ráðuneytisins og framhaldsskóla um skólasamninga og á næstu vikum munu fulltrúar ráðuneytisins heimsækja alla skóla og ræða við þá um sameiginleg viðfangsefni. Ráðuneytið hefur mótað nýtt form skólasamninga í samræmi við ný lög sem verða kynnt hér í dag. Nýju lögin gera það að verkum að skólasamningarnir fá nú aukið vægi í samskiptum ráðuneytis og framhaldsskóla frá því sem áður var. Lögð er áhersla á að samningar myndi ramma utanum sem flest samskipti ráðuneytis og framhaldsskóla og að þar komi fram áherslur beggja aðila um starfsemi viðkomandi skóla. Samningarnir eiga líka að vera vettvangur samræðna og skoðanaskipta milli ráðuneytisins og skólanna þar sem leitað er úrlausna á sameiginlegum viðfangsefnum. Á það bæði við um fjármál og rekstur, stjórnunarlega þætti og faglegt starf.
Eitt af þeim mikilvægu málum sem tengjast skólasamningum er innritun í framhaldsskóla. Starfshópur í ráðuneytinu um innritunarmál hefur nú skilað áfangaskýrslu sem fjallað verður um hér í dag. Ný lög um framhaldsskóla leggja nýjar skyldur á ráðuneyti og skóla varðandi innritun og nýja starfshætti skólanna. Fræðsluskylda til átján ára aldurs gerir auknar kröfur um þjónustu við nemendur í þeirra nærumhverfi. Samhliða þessu er það sameiginlegt verkefni ráðuneytis og skóla að skipuleggja fjölbreytt nám fyrir þann breiða hóp nemenda sem á rétt á skólavist.
Á þessa skyldu reyndi við innritun nú í vor og ljóst er af þeirri reynslu að úrbóta er þörf. Eins og við önnur flókin úrlausnarefni eru hér engar einfaldar lausnir en mikilvægt er að á næsta ári verði stigin skref til breytinga á innritun. Starfshópurinn leggur til að skólum verði gert skylt að veita forgang ólögráða umsækjendum af sínu svæði er uppfylla inntökuskilyrði á tilteknar námsbrautir. Ákveðið verði í skólasamningi um útfærslu forgangsins og til hvaða námsbrauta hann tekur. Landið verði áfram eitt innritunarsvæði gagnvart sérhæfðum námsbrautum. Einnig verði stuðlað að því að auka fjölbreytni í námsframboði. Ég legg áherslu á að þessar tillögur verði ræddar ítarlega og þeim fylgt eftir í komandi viðræðum um skólasamninga.
Ágætu skólameistarar
Ég hef nú farið yfir þau helstu stóru mál sem nú eru uppi í framhaldsskólum. Viðfangsefnin eru vissulega krefjandi en í vinnu við úrlausn þeirra felast líka mörg tækifæri. Með virku samstarfi okkar sem að þessum verkefnum koma er ekkert óyfirstíganlegt. Að því sögðu óska ég þess að við munum í dag eiga opin og heiðarleg skoðanaskipti og verðum í lok dags betur búin undir að takast saman á við þau mörgu viðfangsefni sem okkar bíða.