Ráðherra flytur ávarp á Skólaþingi sveitarfélaga 2009, 2. nóvember 2009
Skólaþing sveitarfélaga 2009, skóli á tímamótum
Hvernig gerum við enn betur?
Ágætu skólaþinggestir
Ég vil byrja á því að þakka Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir að standa að þessu metnaðarfulla skólaþingi og lýsa ánægju minni með frumkvæði Sambandsins í skólamálum. Þetta mun vera í þriðja sinn sem Sambandið boðar til skólaþings og nú undir yfirskriftinni Skóli á tímamótum, hvernig getum við gert betur? Yfirskrift þingsins á ákaflega vel við um þessar mundir þegar innleiðing nýrra laga er í fullum gangi á öllum skólastigum og auk þess stendur allt samfélagið á tímamótum eftir efnahagshrunið á síðasta ári. Sveitarfélög þurfa í ljósi efnahagsástandsins að hagræða og forgangsraða og því er eðlilegt að spurt sé hvernig hægt sé að nýta fjármagnið sem best og tryggja gæði þjónustunnar. Samfélagið allt stendur frammi fyrir þessari spurningu en öllum ætti að vera ljóst að hlúa þarf sem best að æsku þessa lands og forgangsraða í þágu menntunar og velferðar barna og ungmenna.
Gott samstarf og staða verkefna
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur átt gott samstarf við Samband íslenskra sveitarfélaga við mótun menntastefnu á undanförnum árum, bæði við lagasetningu á sviði menntamála og í tengslum við innleiðingu laganna, þ.m.t. setningu reglugerða og mat á kostnaðaráhrifum laganna.
Sambandið hefur á undanförnum árum eflt starfsemi sína á sviði skólamála og er ánægjulegt að fylgjast með þeirri þróun. Sveitarfélög verja miklum fjármunum til skólamála og mikilvægt er að Sambandið sé sterkt bakland fyrir sveitarfélögin, bæði sem málsvari þeirra gagnvart stjórnvöldum og sem stuðningur við sveitarfélög, og veiti þeim viðeigandi ráðgjöf og upplýsingar.
Dæmi um jákvæða þróun á samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga er ráðning sameiginlegs verkefnisstjóra, með tilstyrk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, til að vinna að innleiðingu á ákvæðum nýrra laga um leik- og grunnskóla með sérstaka áherslu á mat og eftirlit með gæðum skólastarfs. Sameiginleg verkefnisstjórn ráðuneytis og Sambandsins vinnur nú að frekari mótun starfsins og eru miklar væntingar bornar til þessa samstarfsverkefnis með von um að það stuðli að enn betri innleiðingu laganna með gæði skólastarfs í víðum skilningi að leiðarljósi.
Þá vil ég geta þess að ég hef ákveðið að taka upp að nýju formlegt og reglulegt samráð ráðuneytisins við helstu hagsmunaaðila leik- og grunnskóla, þ.m.t. sveitarfélög. Hlutverk þessa samráðsvettvangs verður að fjalla um fagleg málefni skólastiganna. Stefnt er að skipun nýrrar samráðsnefndar leik- og grunnskóla á næstu vikum. Þá hefur verið stofnað til sameiginlegs Sprotasjóðs og Þróunarsjóðs námsgagna og verið er að skoða endurmenntunarmál kennara fyrir bæði skólastigin svo dæmi séu tekin.
Námskrárvinna
Í ráðuneytinu er nú unnið að innleiðingu nýrrar löggjafar um skólastigin og útfærslu þeirrar menntastefnu sem þar er mörkuð. Í vinnu að nýjum aðalnámskrám fyrir skólastigin þrjú er m.a. gert ráð fyrir sameiginlegri túlkun á stefnu og áherslum í skólakerfinu. Ég hef þegar ákveðið að markmiðsgreinar laganna verði útfærðar í fimm grunnþáttum sem einkenna eiga allt skólastarf og ganga þvert á allt skólastarf. Grunnþættirnir eru læsi í víðum skilningi, lýðræði, jafnrétti, menntun til sjálfbærni og skapandi skólastarf. Þessi hugtök hafa hingað til verið ansi fljótandi í eldri námskrám og ekki fylgt eftir með markvissum hætti. Menntun til sjálfbærni hefur markvisst verið sett á oddinn í menntastefnu og námskrám víða um heim, s.s. í Ástralíu og á Norðurlöndum. Nú er farin af stað vinna innan ráðuneytisins við að afmarka og jarðbinda þessi hugtök og sjá fyrir hvernig þau geti orðið meira í öndvegi í öllu skólastarfi.
Gert er ráð fyrir að þessi menntastefna birtist í sameiginlegum almennum hluta aðalnámskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Ráðuneytið væntir góðs samstarfs við Sambandið og fulltrúa sveitarfélaga við nánari útfærslu á menntastefnunni á næstu misserum. Mikilvægur þáttur í því starfi er samtal um tengsl aðalnámskrár sem ráðuneytið gefur út og skólastefnu sveitarfélaganna sem kveðið er á um í nýju menntalögunum. Með því að stilla saman strengi í þessu efni má skerpa kjarna menntastefnunnar um leið og sveigjanleiki skólakerfisins er tryggður þannig að sveitarfélög geti þróað skólastarf á staðbundnum sérkennum og áherslum í stefnu sveitarfélagsins.
Mikivelferðar barna - eineltismállvægi
Velferð barna er í lögum skilgreind sem grundvallaratriði í starfi skóla. Grunnskólar eiga t.d. að gæta að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan þeirra barna er hann sækja. Skólinn á að vera griðastaður barna þar sem þau finna til öryggis, fá tækifæri til að þroska og nýta hæfileika sína og njóta bernsku sinnar.
Eitt af því sem ég hef tekið eftir á mínum stutta ferli í stóli menntamálaráðherra er að til mín leita beint eða óbeint ýmsir foreldrar sem lýsa óánægju sinni með meðferð ýmis konar mála. Þessi mál hafa m.a. snúið að viðvarandi einelti í skólum, hegðunarerfiðleikum og skorti á ýmiss konar þjónustu. Í sumum tilvikum hafa mál verið óleyst árum saman og hafa foreldrarnir barist fyrir umbótum á nánast öllum mögulegum stöðum, bæði í skólunum sjálfum, hjá sérfræðiþjónustu skólanna, skólanefnd og sveitarstjórn, mennta- og menningarmálaráðuneytinu og jafnvel víðar. Ég hef spurt mig hvers vegna slíkt nær að þróast með þeim hætti í annars okkar ágæta skólakerfi. Ég vil hvetja Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélög í landinu til að beita sér fyrir heildrænni stefnu og markvissari vinnubrögðum skóla í eineltismálum.
Íslensk málstefna
Mig langar að nota tækifærið til að vekja athygli á að Íslensk málstefna var samþykkt á Alþingi sl. vor og var mennta- og menningarmálaráðuneytinu falið að fylgja málstefnunni eftir. Samkvæmt málstefnunni skulu fræðsluyfirvöld setja sér það markmið að innan þriggja ára verði allt notendaviðmót í tölvum í íslenskum leik-, grunn- og framhaldsskólum á íslensku. Því hef ég sent skólum á öllum skólastigum og sveitarfélögum bréf þar sem ég mælist til þess að skólar á öllum skólastigum, sveitarfélög, stofnanir sem heyra undir ráðuneytið og hagsmunaaðilar vinni af krafti að þessu markmiði á næstu þremur árum. Ég mun leita eftir víðtæku samráði við skólasamfélagið til að stuðla að því að þetta markmið komist til framkvæmda og vænti þess að sveitarfélög taki vel í þessa málaleitan.
Málefni tónlistarskóla
Í ráðuneytinu liggja fyrir drög að frumvarpi að heildarlögum um tónlistarskóla. Tvær leiðir hafa verið til umræðu sem lausn á kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga vegna tónlistarfræðslu:
að ríkið greiði kennslukostnað vegna nemenda sem eru í framhaldsnámi í tónlist samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla óháð aldri þeirra og hvort þeir stunda samhliða nám í framhaldsskóla, þ.e. að fjárhagslegur stuðningur við tónlistarkennslu skiptist eftir námsstigi í tónlist,
að ríkið greiði kennslukostnað vegna nemenda sem náð hafa 16 ára aldri og eldri, þ.e. að fjárhagslegur stuðningur við tónlistarkennslu skiptist með sama hætti og í almenna skólakerfinu, þ.e. að sveitarfélög bera ábyrgð á rekstri leik- og grunnskóla en ríkið framhaldsskóla.
Í viðræðum ráðuneytisins við Samband íslenskra sveitarfélaga hafa sveitarfélögin lagt á það áherslu að leið b) verði farin, þ.e. að ríkið greiði fyrir tónlistarkennslu 16 ára og eldri en af hálfu ráðuneytisins hefur verið lagt til að stuðningur ríkisins miðist við framhaldsstigið. Lauslegt mat á kostnaðaráhrifum beggja leiða liggur nú fyrir í ráðuneytinu.
Ég mun beita mér fyrir því að unnið verði að því að breyta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga varðandi fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Að undangengnu samkomulagi um breytingar á verkaskiptingu og fyrirkomulagi tónlistarfræðslu á milli ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga hef ég í hyggju að leggja fram á Alþingi nýtt frumvarp til laga um tónlistarskóla/ tónlistarfræðslu.
Með þessu móti vonast ég til þess að leysa megi þann hnút sem verið hefur á milli ríkis og sveitarfélaga á undanförnum árum á sviði tónlistarfræðslu.
Niðurskurðarhugmyndir!
Góðir áheyrendur
Ég er sannfærð um mikilvægi menntakerfisins í þeirri endurreisn samfélagsins sem nú er hafin. Skólar eru ein mikilvægasta grunnstoð samfélagsins. Ég vil ekki gera lítið úr þeim fjárhagslegu þrengingum sem samfélagið stendur frammi fyrir nú um stundir og mikilvægi hagræðingar á öllum sviðum. Á sama tíma og sveitarfélög vinna að innleiðingu nýrra metnaðarfullra menntalaga þá standa þau frammi fyrir efnahagserfiðleikum. Spurt er hvort hægt sé að halda úti sömu gæðum grunnþjónustu í leik-, grunn- og framhaldsskólum fyrir minna fjármagn eða hvort hægt sé að skera niður þjónustu án þess að draga úr gæðum hennar.
Ég hef fylgst með hugmyndum og áformum sveitarfélaga og skóla um hagræðingu og veit af áhuga sveitarfélaga að fá heimildir til að fresta ákvæðum laga, ekki síst ákveðinna þátta í leik- og grunnskólalögum og lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda. Einnig stendur ráðuneytið daglega frammi fyrir ákvörðunum um málefni framhaldsskóla vegna hagræðingarkröfu.
Í allri umræðu um þessi mál hefur verið lögð áhersla á að halda ótrauð áfram innleiðingu allra laganna og engar ákvarðanir hafa beinlínis verið teknar um frestun innleiðingar með lagabreytingum. Framhaldsskólar munu þó á næsta ári ekki fá framlag vegna eininga sem grunnskólanemendur taka á meðan þeir eru í grunnskólum en skv. grunnskólalögum eiga nemendur ákveðinn rétt í þeim efnum. Það er ekki sársaukalaust að þurfa að skera þá þjónustu niður en það hefur verið metið að þetta tilheyri ekki grunnþjónustu framhaldsskóla. Samtímis má reyndar spyrja hvort sú áhersla sem verið hefur á að hraða ferð nemenda í gegnum grunnskóla og upp í framhaldsskóla sé faglega forsvaranleg. Huga þarf að fleiri þáttum en námsgetu í bóklegum greinum við námslok í grunnskóla. Skoða þarf nánar virkt samstarf grunnskóla og framhaldsskóla um tilhögun náms á mörkum skólastiganna. Dæmi um spennandi þróunarverkefni á þessu sviði sem ráðuneytið hefur fylgst vel með er Borgarfjarðarbrúin, samstarfverkefni skólanna og sveitarfélaga í Borgarfirði.
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur þurft að skilgreina hvað sé grunnþjónusta sem ekki sé hægt að skerða þrátt fyrir efnahagsþrengingar og mér vitanlega hafa sveitarfélög ekki gengið lengra í þeim efnum en heimilt er skv. lögum. Þá vaknar sú spurning hvort breyta eigi grunnskólalögum og heimila sveitarfélögum að ganga lengra, þ.e. heimila þeim að fresta gildistöku tiltekinna lagaákvæða eða beinlínis heimila að skerða lögbundna kennslu. Ég hef kannað hug Kennarasambands Íslands í þessum efnum og þar á bæ telja menn að skerðing á lögbundnum kennslutíma eða kennsludögum sé í andstöðu við kjarasamninga kennara og þeir hafa lýst sig andsnúna slíkum aðgerðum. Ljóst er að árlegur skóladagafjöldi er bundinn í kjarasamninga kennara.
Lögbundinn vikulegur kennslustundafjöldi er hins vegar ekki bundinn í kjarasamninga þannig að auðveldara ætti að vera um vik að heimila sveitarfélögum að skerða tímabundinn vikulegan kennslutíma grunnskólanemenda um ákveðinn hámarksmínútufjölda á viku. Slíkt yrði þó aldrei gert nema að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambandið. Ég hef lýst efasemdum mínum um slíkar hugmyndir, hef lagt á það áherslu að allar aðrar leiðir verði farnar til hagræðingar áður en komi til skerðingar á kennslutíma nemenda.
Hins vegar tel ég koma vel til greina að fresta gildistöku aukins valfrelsis á unglingastigi grunnskóla, a.m.k. þar sem skólar og sveitarfélög treysta sér ekki til þess vegna efnahagsþrenginga. Eins tel ég æskilegt að skólar nýti alla möguleika í nærsamfélaginu til samstarfs til að geta boðið nemendum upp á aukna fjölbreytni sem gæti nýst sem hluti af skyldunáminu óski foreldrar þess en samkvæmt grunnskólalögum er heimilt að meta skipulagt nám sem stundað er utan grunnskóla, t.d. við tónlistarskóla, sem hluta af grunnskólanámi. Stundi nemandi slíkt nám er viðkomandi sveitarstjórn ekki skylt að standa straum af kostnaði sem af því leiðir þótt námið njóti viðurkenningar í stað skyldunáms. Einnig er heimilt að meta tímabundna þátttöku í atvinnulífi, félagslífi, íþróttum eða skipulögðu sjálfboðastarfi sem nám, enda falli það að markmiðum skólastarfs.
Ég tel að með því að nýta betur þessa lagaheimild þá geti náðst samlegðaráhrif og hagræðing í sveitarfélögum án þess að komi til þess að fækka viðmiðunarstundum nemenda skv. grunnskólalögum. Einnig vil ég hvetja sveitarfélög að leita eftir aðstoð sjálfboðaliða í skólastarfi, ekki síst með þátttöku foreldra í ýmsum verkefnum, en margir telja að foreldrar séu óvirkjuð auðlind í skólastarfi, eldri borgurum eða öðrum áhugasömum en afar lítil hefð er fyrir slíku hér á landi. Þetta þarf allt að þróa í sátt við skólasamfélagið.
Ég vil að lokum vona að skólaþingið hjálpi okkur að varða leiðina til framtíðarskólans sem vissulega er á tímamótum og óska ykkur öllum velfarnaðar í mikilvægum störfum í þágu menntunar í landinu.