Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. nóvember 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur ávarp á afmælisfundi IÐNÚ og Iðnmenntar ses 13. nóvember 2009

Góðir tilheyrendur

Um þessar mundir eru liðin 60 ár frá stofnun Iðnskólaútgáfunnar (IÐNÚ) og 10 ár frá því útgáfan og Samband iðnmenntaskóla sameinuðust í Iðnmennt ses með það að markmiði að stuðla að eflingu iðn-, tækni- og starfsmenntunar, m.a. með útgáfu og dreifingu námsgagna undir útgáfuheiti IÐNÚ, eins og segir á heimasíðu Iðnmenntar.

Það er vel við hæfi að minnast þessara merku tímamóta hér í þessu sögufræga húsi sem Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík reisti árið 1896 og átti um langt skeið.

Frá upphafi hefur IÐNÚ unnið mjög merkilegt starf og lengst af borið hita og þunga af íslenskri útgáfu námsefnis fyrir iðn- og starfsmenntun, oft fyrir fámennan markhóp eins og gefur að skilja. Eftirtektarvert er einnig sameiginlegt átak starfsmenntaskólanna með stofnun Iðnmenntar 1999 til að viðhalda og efla starf IÐNÚ og færa það til nútíðar.

Starf af þessum toga er ekki hvað síst mikilvægt í tengslum við innleiðingu laga um framhaldsskóla sem samþykkt voru á Alþingi vorið 2008 og eiga að vera að fullu komin til framkvæmda árið 2011.

Framhaldsskólalögin fela í sér nýmæli sem veita framhaldsskólum aukið svigrúm og jafnframt ábyrgð á uppbyggingu náms og námskrárgerð sem m.a. er ætlað að efla og auðga iðn- og starfsnám. Má þar einkum nefna
aukinn sveigjanleika í uppbyggingu og samsetningu náms til formlegra námsloka á námsbrautum framhaldsskóla
áherslu á jafnstöðu bóknáms og starfsnáms,
hlutverk skóla í skipulagi heildarnámsferlis nemenda, þ.m.t. vinnustaðanám og gerð námssamnings.

Í þessu felast bæði tækifæri og ögranir.

Starfsmenntakerfi verður ekki þróað eða rekið svo vel sé nema í góðu og nánu samstarfi ráðuneytis, skóla og aðila vinnumarkaðar. Að undanförnu hefur verið unnið að því í ráðuneytinu að móta viðmiðaramma um íslenska menntun þar sem skilgreind er hæfni sem krafist er til lokaprófa á einstökum námsbrautum. Í því verki hefur ráðuneytið notið liðsinnis nokkurra rýnihópa á sviði starfsmenntunar þar sem fulltrúar skóla og atvinnulífs hafa starfað saman.

Á næstu vikum mun ég skipa ný starfsgreinaráð sem framhaldsskólarnir eiga nú í fyrsta sinn aðild að skv. lögum um framhaldsskóla. Hlutverk þeirra verður m.a. að endurskilgreina lokamarkmið einstakra starfsnámsbrauta með hliðsjón af viðmiðarammanum. Einnig mun ég skipa starfsgreinanefnd sem skv. framhaldsskólalögum á að samhæfa störf starfsgreinaráða og vera mér til ráðuneytis um stefnumótun í starfsmenntun.

Á þessum tímamótum er nauðsynlegt að staldra við og endurmeta íslenska starfsmenntastefnu. Spyrja þarf grundvallarspurninga, m.a. um uppbyggingu og tilhögun námsins, vægi, tengsl og gæði skólanáms og vinnustaðanáms. Þar munu ný starfsgreinaráð og starfsgreinanefndin gegna mikilvægu hlutverki í að móta stefnu. Efla þarf iðn- og starfsnám í menntakerfi okkar, ekki hvað síst á þeim krefjandi tímum sem þjóðin gengur nú í gegnum. Þar þurfa allir hlutaðeigandi aðilar að leggja hönd á plóg.

Ég ítreka heillaóskir mínar til afmælisbarna dagsins og þakka ómetanlegt framlag þeirra til þróunar starfsmenntunar hér á landi. Jafnframt lýsi ég vilja og væntingum um gott samstarf í því sameiginlega verkefni að efla iðn- og starfsnám í menntakerfi okkar með ráðum og dáð á næstu mánuðum og árum.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta