Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. nóvember 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur erindi á málræktarþingi sem tengt er degi íslenskrar tungu 14. nóvember 2009

„Út í heim á íslenskum skóm“
Eins og oft áður hef ég margan minn fróðleik úr íslenskum glæpasögum og að þessu sinni sótti ég innblásturinn í titilinn í gamla íslenska glæpasögu eftir Guðbrand Jónsson, Húsið við Norðurá frá 1926, en þar segir meðal annars frá ógeðfelldum breskum majór sem kemur hingað til lands og veldur usla. Meðal annars áreitir hann mjög unga íslenska vinnukonu, Guðrúnu að nafni og á einum stað í sögunni krefst hann þess að fylgja henni heim. Henni líst illa á þá tilhögun en lætur tilleiðast. Svo fer að majórinn leitar á hana, bítur hana m.a.s. í framan en þá vill svo heppilega til að Guðrún er með mjólkurbrúsa sem hún keyrir framan í majórinn og hleypur af stað en majórinn eltir, bölvandi og ragnandi á enska tungu. Og þá segir í sögunni „Guðrún var á íslenzkum skóm, en majórinn á þungum fjallgöngustígvélum, og dró því fljótt sundur með þeim.“

Þetta atriði — í sögu sem reyndar felur á sér ákveðna ádeilu á hið íslenska sveitasamfélag — hefur mér alltaf þótt stórskemmtilegt, þar sem dregin er upp mynd, tvíræð eða ekki, að íslenskir skór dugi vel við erfiðar aðstæður. Ég leyfi mér að túlka þetta bókstaflega í dag. Það er nefnilega nauðsynlegt að vita á hverju maður stendur.

Tungumálið okkar, íslenskan, geymir okkar helstu verðmæti. Íslenskan er ekki aðeins lykillinn að menningu okkar, sögu og sérstöðu. Við hugsum á íslensku, eins og Þorsteinn heitinn Gylfason skrifaði um. Hugsun okkar og tilvera er bundin í íslensku. Móðurmálið er grundvöllurinn að frekari afrekum, gott vald á móðurmálinu veitir okkur betri tæki til að takast á við önnur tungumál, fræðigreinar, listir og í raun allan heiminn.

Hinn 12. mars 2009 ályktaði Alþingi að samþykkja tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu sem opinbera stefnu í málefnum íslenskrar tungu. Samþykkt Alþingis markar tímamót í sögu tungunnar því að Íslendingar hafa fram að þessu ekki átt neina opinbera, skjalfesta málstefnu. Alþingi hefur falið mennta- og menningarmálaráðherra að fylgja eftir þeim aðgerðum sem lagt er til að ráðist verði í samkvæmt málstefnunni.

Þegar málstefnan var fyrst kynnt af þáverandi menntamálaráðherra 16. nóvember 2008 var prentað nokkurt upplag af ritinu Tillögur íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu. Það upplag er fyrir nokkru síðan á þrotum og hefur verið eftirspurn eftir því, m.a. frá skólum og stofnunum. Til þess að áhrifa íslenskrar málstefnu gæti sem víðast þurfa þau markmið og tillögur sem koma fram í málstefnunni að ná til almennings, skóla og stofnana. Það hefur verið eindregin ósk Íslenskrar málnefndar að ritið verði gefið út að nýju og uppfært miðað við að málstefnan er nú orðin opinber stefna á sviði íslenskrar tungu. Ráðuneytið hefur nú látið prenta stórt upplag af málstefnunni til víðtækrar kynningar, m.a. í skólum. Vil ég þakka fulltrúum frá Íslenskri málnefnd fyrir óeigingjarna vinnu við undirbúning þeirrar útgáfu sem liggur hér frammi á Málræktarþingi til dreifingar.
Í kjölfar samþykktar Alþingis á íslenskri málstefnu var skipaður starfshópur til að setja fram tillögur um leiðir til að vinna að markmiðum íslenskrar málstefnu, meta hvaða aðgerðir er hægt að ráðast í sem fyrst og til þess að sjá um kynningu málstefnunnar. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tilnefndi tvo fulltrúa í starfshópinn, þau dr. Guðrúnu Kvaran og dr. Harald Bernharðsson. Af hálfu ráðuneytisins voru þau Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir og Guðni Olgeirsson tilnefnd og Þórarinn Eldjárn var fenginn til liðs við hópinn en hann er varaformaður Íslenskrar málnefndar. Þessi starfshópur hefur farið rækilega yfir málstefnuna og þegar beitt sér fyrir ýmsum aðgerðum í anda stefnunnar. Sem dæmi má nefna starfshóp um lagalega stöðu íslenskrar tungu og táknmálsins, starfshóp um íslensku í fjölmiðlum og starfshóp um íslensku í tölvuheiminum. Hópurinn hefur sent ýmsum aðilum hvatningarbréf og haldið fundi um tilteknar aðgerðir, t.d. um íðorðastarf og um samkeppni í skólum um samningu dægurlagatexta á íslensku. Starfshópurinn mun halda áfram að fylgja stefnunni eftir og vil ég nota tækifærið til að þakka öllum sem lagt hafa hönd á plóginn við útfærslu og innleiðingu stefnunnar og vonast eftir góðu samstarfi í framhaldinu, ekki síst við skóla á öllum skólastigum sem eru afar mikilvægir í ræktun, eflingu og varðveislu tungunnar.

Í íslenskri málstefnu er megináhersla lögð á að treysta stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu. Aðalmarkmið stefnunnar er að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Íslenska er sameign okkar sem tölum hana og því er framtíð hennar í okkar höndum. Óhætt er að segja að staða íslenskrar tungu sé sterk en þó má benda á einstök svið þar sem hún hefur farið halloka fyrir öðrum tungum. Eitt þeirra er heimur tölvutækninnar. Tölvur eru orðnar snar þáttur í daglegu lífi fjölmargra Íslendinga, allt niður í grunnskóla og leikskóla. Eigi að síður er notendaviðmót tölvanna langoftast á ensku en ekki íslensku. Það getur ekki talist eðlilegt eða ásættanlegt.

Það skiptir sífellt meira máli að þessi tækni sé á íslensku og geti unnið með íslenskt mál, bæði talað og ritað. Mikið skortir á að svo sé og Íslendingar standa þar langt að baki flestum grannþjóðum sínum. Þrátt fyrir að hægt sé að nota algengustu stýrikerfi og notendabúnað á íslensku notar stór hluti skólakerfisins stýrikerfi á ensku og sama máli virðist gegna um meginhluta almennra notenda og stofnana samfélagsins. Samkvæmt íslenskri málstefnu skulu fræðsluyfirvöld setja sér það markmið að innan þriggja ára verði allt notendaviðmót í tölvum í íslenskum leik-, grunn- og framhaldsskólum á íslensku.

Á dögunum sendi ég bréf til skóla á öllum skólastigum, sveitarfélaga, skólaskrifstofa og ýmissa annarra aðila þar sem mælst er til að skólar á öllum skólastigum, sveitarfélög, stofnanir sem heyra undir ráðuneytið og hagsmunaaðilar vinni af krafti að þessu markmiði á næstu þremur árum.

Tilmæli mennta- og menningarmálaráðuneytisins eru skýr: Að allur almennur notendahugbúnaður í íslensku skólakerfi, frá leikskólum til háskóla, verði á íslensku innan þriggja ára.

Í íslenskri málstefnu er mikil áhersla lögð á skólakerfið frá leikskólum til háskóla enda má segja að sá sem hefur alla sína skólagöngu, hvort sem hún er stutt eða löng, fengið góðar leiðbeiningar um vandað mál á jákvæðan og uppbyggilegan hátt fari að námi loknu út í þjóðfélagið fær um að tala við starfssystkin sín og allan almenning á góðri íslensku og beita henni við öll tækifæri. Allt skólakerfið, frá upphafi leikskóla til loka háskólanáms, þarf að vera markviss, jákvæð þjálfun í notkun íslensku. Að henni býr allt þjóðfélagið. Góður fræðimaður, hver svo sem fræðigrein hans er, á að vera fær um að ræða við hvern sem er um greinina án þess að þurfa að bregða fyrir sig ensku eða öðru erlendu máli til að skýra hvað hann á við. Enginn verður gott skáld eða góður rithöfundur sem ekki hefur gott vald á málinu, kann að fara með það við allar kringumstæður, kann að leika sér með orðaforðann, grafa upp gamalt orðfæri og búa til nýtt. Enginn verður góður blaðamaður eða fréttamaður hjá útvarpi eða sjónvarpi sem ekki hefur gott vald á því tæki sem hann vinnur með, tungumálinu. Hafi hann fengið góða tilsögn á lífsleiðinni ætti hann að geta nýtt sér blæbrigði málsins, orðasambönd og orðatiltæki til að gera fréttir sínar lifandi og áhugaverðar og haft um leið jákvæð áhrif á málnotkun lesenda eða hlustenda sinna. Þetta eru aðeins fáein dæmi um mikilvægi tungumálsins í daglegum samskiptum manna.

Ég tel að það sé sérstaklega mikilvægt að huga að hlutverki foreldra og í málstefnunni er á fleiri en einum stað vikið að mikilvægi foreldra sem fyrstu leiðbeinenda barna í meðferð tungumálsins og fyrirmynda þeirra að góðu og vönduðu máli. Flestir foreldrar leggja sig fram við að leiðbeina börnum sínum með því að tala við þau strax frá fæðingu og lesa fyrir þau á meðan þau eru ekki fær um að lesa sjálf. En ábyrgð foreldra lýkur ekki við upphaf skólagöngu. Mikilvægi góðra málfyrirmynda tekur aldrei enda. Því er brýnt að gott samstarf sé milli skóla og foreldra um mikilvægi tungumálsins fyrir góða og vandaða menntun. Margt er hægt að gera til að efla áhuga á tungumálinu sem lifandi tæki sem móta má á margvíslegan hátt. Fyrir nokkru stóð Íslensk málnefnd í samstarfi við Samtök móðurmálskennara fyrir ljóðasamkeppni barna í efri bekkjum grunnskóla sem lauk með verðlaunaafhendingu á hátíð sem haldin var í minningu Steins Steinars á aldarafmæli hans. Þátttaka fór fram úr öllum vonum eins og reyndin hefur einnig verið í Fernuflugi Mjólkursamsölunnar. Þetta eru dæmi um góð samvinnuverkefni barna, foreldra, skóla og annarra samstarfsaðila. Börnin þurfa ef til vill dálitla hvatningu heima fyrir eða í skólanum til að setjast niður og skrifa en hugarfluginu eiga þau yfir að ráða flest hver sjálf þegar þau eru komin af stað. Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk grunnskóla sem fyrir löngu hefur fest sig í sessi er annað gott dæmi um vel heppnað samtarfsverkefni í öllu skólasamfélaginu.

Ég ætla ekki hér og nú að reyna að gera grein fyrir efnisatriðum og þeirri umfjöllun sem málstefnan geymir, heldur vísa til þess sem í henni kemur fram. Málstefnan er víðfeðm, tekur til alls 11 sviða, hverjum kafla fylgja tillögur um tiltekin úrræði og aðgerðir.
Skólakerfið allt – leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar og ekki síst háskólar – ber mikla ábyrgð og þar verður að veita markvissa og jákvæða þjálfun í notkun íslensku. Að henni býr allt þjóðfélagið. Í mennta- og menningarmálaráðuneytinu er hafinn undirbúningur að því að fylgja málstefnunni eftir á öllum skólastigum á sama tíma og unnið er að innleiðingu nýrrar löggjafar um leik-, grunn- og framhaldsskóla og útfærslu þeirrar menntastefnu sem þar er mörkuð. Í vinnu að nýjum aðalnámskrám fyrir skólastigin þrjú er m.a. gert ráð fyrir sameiginlegri túlkun á stefnu og áherslum í skólakerfinu. Ákveðið hefur verið að markmiðsgreinar laganna verði útfærðar í fimm grunnþáttum sem einkenna eiga allt skólastarf og ganga þvert á allt skólastarf. Grunnþættirnir eru læsi í víðum skilningi, lýðræði, jafnrétti, menntun til sjálfbærni og skapandi skólastarf. Þessi hugtök hafa hingað til verið ansi fljótandi í eldri námskrám og ekki fylgt eftir með markvissum hætti. Nú er farin af stað vinna innan ráðuneytisins við að afmarka og jarðbinda þessi hugtök og sjá fyrir hvernig þau geti orðið meira í öndvegi í öllu skólastarfi. Gert er ráð fyrir að þessi menntastefna birtist í sameiginlegum almennum hluta aðalnámskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Með því að stilla saman strengi í þessu efni má skerpa kjarna menntastefnunnar um leið og sveigjanleiki skólakerfisins er tryggður. Gert er ráð fyrir sérstöku menntaþingi í mars á næsta ári þar sem vinna við aðalnámskrárnar verður til umfjöllunar.
Í kjölfar þessarar skilgreingarvinnu við undirbúning nýrra aðalnámskráa fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla þá verður unnið að útfærslunni fyrir hvert skólastig. Í málstefnunni er m.a. lögð áhersla á að yfirvöld menntamála sjái til þess að hlutur móðurmálskennslu verði aukinn í öllu skólakerfinu, frá leikskóla upp í háskóla og að menntun kennara í íslensku verði aukin.

Við gerð nýrra aðalnámskráa verða þessi sjónarmið höfð að leiðarljósi á öllum skólastigum við endurskoðun aðalnámskránna, þar með talið við endurskoðun á viðmiðunarstundum til kennslunnar. Uppi hafa verið áhyggjur um að með nýjum framhaldsskólalögum verði vægi íslensku minnkað en staðreyndin er sú að engar ákvarðanir verið teknar um að minnka kjarna íslensku í framhaldsskólum. Hins vegar eru framhaldsskólar nú að útfæra lögin með gerð nýrra brautalýsinga þar sem framhaldsskólar fá meira svigrúm en áður til að skipuleggja námið, en ráðuneytið þarf að samþykkja brautarlýsingarnar. Gert er ráð fyrir 45 eininga kjarna í bóknámsbrautum framhaldsskóla samkvæmt framhaldsskólalögum í íslensku, stærðfræði og ensku.

Í íslenskri málstefnu er m.a. fullyrt að dregið hafi úr móðurmálskennslu í skólum á undanförnum árum og dregin upp dökk mynd af ástandinu. Íslensk málnefnd leggur til nokkur markmið og aðgerðir til úrbóta, þar á meðal að íslenskir grunn- og framhaldsskólanemendur standi jafnfætis jafnöldrum sínum annars staðar í Evrópu í móðurmálsfærni, þar með talið lesskilningi og að íslenskukennarar í grunnskólum séu sérmenntaðir í námsgreininni íslensku. Með hliðsjón af nýrri íslenskri málstefnu sem samþykkt hefur verið á Alþingi hefur ráðuneytið ákveðið að gera úttekt á næstunni á ritunarkennslu í grunn- og framhaldsskólum. Markmið úttektarinnar er að kanna stöðu ritunarkennslu í grunn- og framhaldsskólum og leita svara við ýmsum spurningum um kennsluna og kennsluaðferðum. Þess er vænst að hægt verði að nýta niðurstöður úttektarinnar sem lið í að styrkja ritunarkennslu í skólum.

Ég vil að lokum vekja athygli á Sprotasjóði og Þróunarsjóði námsgagna. Mennta- og menningarmálaráðuneytið auglýsti nýlega eftir umsóknum um styrki úr Sprotasjóði leik-, grunn- og framhaldsskóla. Hlutverk sjóðsins er að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi. Er þetta í fyrsta sinn sem úthlutað er úr Sprotasjóði samkvæmt nýjum menntalögum en hann er sameiginlegur sjóður þessara skólastiga og tekur við af fyrri þróunarsjóðum. Annað tveggja forgangssviða var lestrarkennsla og læsi í víðum skilningi. Mennta- og menningarmálaráðuneyti auglýsti einnig nýlega eftir umsóknum um styrki úr þróunarsjóði námsgagna en hlutverk sjóðsins er að stuðla að nýsköpun, þróun, gerð og útgáfu námsgagna fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla í því markmiði að tryggja framboð og fjölbreytileika námsgagna í samræmi við þarfir nemenda og skóla. Að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á þróun námsgagna sem tengjast lestrarkennslu og læsi í víðum skilningi. Læsi er hér notað í þeirri víðu merkingu að búa yfir nægri þekkingu, leikni og hæfni til að skilja, skynja, beita, yfirfæra og meta það sem mætir fólki í daglegu lífi og umhverfi þess nær og fjær. Læsi í víðri merkingu tekur m.a. til læsis á íslensku máli, erlendum málum; auk þess læsis á tölum, upplýsingum, menningu og listum auk náttúru og umhverfis. T.d. má ræða um bóklæsi, fjármálalæsi, menningarlæsi, stærðfræðilæsi, tölvulæsi, fjölmiðla- og upplýsingalæsi, náttúru- og umhverfislæsi en ráðuneytið leggur mikla áherslu á að stuðla að þróunarstarfi í skólum á lestrarkennslu og ekki síður læsi í víðum skilningi, sem er ein 5 grunnstoða nýrrar menntastefnu eins og áður hefur komið fram. Þessir sjóðir gefa kennurum og skólum tækifæri til að leita nýrra leiða í kennsluháttum og námsgagnagerð og skilar vonandi tilætluðum árangri í að styrkja stöðu móðurmálsins í skólum.

Góðir áheyrendur

Ábyrgðin á íslenskri tungu hvílir á okkur sem tölum hana. Við þurfum að rækta hana, vernda hana, nota hana. Aðalmarkmið málstefnunnar er að tryggja að íslenska verði áfram notuð um allt sem við hugsum og tökum okkur fyrir hendur alls staðar í íslensku samfélagi. Þar skiptir miklu að rækta málið og vanda málið — málrækt og málvöndun eru tvö lykilhugtök en eins og í öðrum aðgerðum skiptir máli að vanda sig þegar maður talar eða skrifar íslensku.

En til þess að hægt sé að nota íslensku til alls er mikilvægt að eiga góða íslenska glæpasagnahöfunda, góða íslenskukennara, fréttamenn og skáld, þess vegna er mikilvægt að við eignumst persónur eins og Ólaf Ragnar — og Georg Bjarnfreðarson í íslensku sjónvarpi, þess vegna er mikilvægt að við leikum okkur með tungumálið.

Hver ætlar að tala íslensku? Essasú?



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta