Ráðherra flytur ávarp á málþingi Alþýðufræðsla á Íslandi í 120 ár 13. nóvember 2009
Ágætu málþingsgestir
Þakka ykkur fyrir að bjóða mér á þetta áhugaverða málþing um alþýðufræðslu. Það er mikilvægt mál, ekki bara fyrir okkur sem störfum í mennta- og menningarráðuneytinu eða í skólakerfinu, heldur varðar það þjóðina alla. Færa má að því rök að alþýðumenntun sé kjarnastarfsemi í samfélagi okkar sem stöðugt þurfi að standa vörð um, hlúa að og þróa áfram til móts við nýja tíma. Þetta er sérstaklega mikilvægt verkefni á þeim tímum umbrota og endurreisnar sem við lifum um þessar mundir, en þar á ágætlega við máltækið, að fortíð skal hyggja þegar framtíð skal byggja.
Það er líka eftirtektarvert að það skuli vera forystumenn í þessu sveitarfélagi, sem nú heitir Árborg, sem finna hjá sér hvöt til að kalla til málþings um alþýðumenntun á þessum tímapunkti og varpa fram svipmyndum með minningum úr skólasögunni . Jafnframt verður rætt um verkefni framtíðar. Í þessu héraði hefur löngum verið lifandi umræða um menntamál – og orðum hafa fylgt athafnir.
Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri er merkilegur skóli. Hann var ekki fyrsti barnaskóli landsins, en hann er elsti barnaskóli landsins, þ.e.
Barnaskólinn á Eyrarbakka. Hann hefur starfað óslitið síðan um miðja 19. öld, eða síðan árið 1852. Það er einkar áhugavert fyrir okkur sem vinnum að stefnumörkun og þróun skólamála að skoða skóla sem hefur jafnlanga sögu og barnaskólinn hér á Eyrarbakka og Stokkseyri.
Hvers vegna viljum við rýna í söguna og reyna að þekkja gang hennar? Er það ekki fyrst og fremst til að við getum betur skilið okkur sjálf og samtíma okkar. Það er mikilvægt að geta lagt mælistiku sögunnar á atburði og hugmyndir líðandi stundar. Það er nauðsynlegt leita að hliðstæðum í sögunni og greina samhengi fortíðar, samtíðar og framtíðar. Saga og sagnfræði er ekki síst mikilvæg þegar við horfum fram á veginn, mótum stefnu til framtíðar og reynum að hafa áhrif t.d. á þróun menntakerfisins eða skipan menntamála almennt í landinu á komandi árum og áratugum. Í framtíðarsýn í menntamálum er mikilvægt að huga að arfleifð íslenska skólakerfisins, en ekki er farsælt að gleypa hrátt hugmyndir sem byggja á ástandi í menntakerfum annarra landa, þótt mikilvægt sé að vera opinn fyrir nýjungum og kynna sér vel það sem aðrir eru að gera.
Skólinn hér við ströndina virðist hafa þrifist og dafnað í sátt við umhverfi sitt og tekið breytingum í takt við samfélagið. Stundum er sagt að skólinn sé spegill/eftirmynd þess samfélags sem hann er hluti af, en það er ekki nema hálf sagan, skólinn er ekki síður áhrifavaldur á líf nemenda sinna og fjölskyldna þeirra og miðlæg stofnun eins og skóli ræður miklu um þróun samfélagsins á hverjum stað.
Við sem hér erum og hlustum eftir sagnfræðilegri umræðu vitum að Barnaskólinn á Eyrarbakka varð til í samfélagi sem er svo gjörólíkt samfélaginu sem við hrærumst í á 21.öld að nær ógjörningur er að setja sig í spor þeirra sem þá lifðu og gengu í þann skóla. Stundum er myndin af samfélaginu „í gamla daga” dregin grófum einföldum dráttum. Hver þekkir ekki hugmyndirnar um gamla sveitasamfélagið sem var einsleitt, kyrrstætt og erfitt, þjakað af fátækt, vosbúð, sjúkdómum, hungri, barnadauða og náttúruhamförum. Að sjálfsögðu var íslenska samfélagið oft á tíðum þjakað af slíkum erfiðleikum á fyrri öldum, rétt eins og ýmis svæði þriðja heimsins eru á okkar tíð. En að gera erfiðleikana og kyrrstöðuna að megineinkenni gamla samfélagsins byggir á þekkingarleysi og fordómum. Sagnfræðingar hafa líka fært okkur þekkingu um að ,,gömlu dagarnir” eru ekki það sama og ,,gömlu dagarnir”. Samfélag 17. aldar var t.d. ólíkt samfélagi 18. aldar og á 19. öld má finna enn önnur samfélagsform. Við vitum líka að ólík samfélagsform döfnuðu við breytileg skilyrði víðs vegar um landið. Vestfirðingar bjuggu oftast nær við önnur kjör en Austfirðingar, og fólkið lifði öðru vísi hér við ströndina en í landbúnaðarhéruðum Suðurlands.
Á þessari ráðstefnu er skyggnst um sögu uppeldis og menntunar í 120 ár, á tímabili mikillar nútímavæðingar íslensks samfélags. Stofnun og þróun almenningsskóla er eitt af megineinkennum nútímans. Hugmyndir um alþýðufræðslu eiga sér þó lengri sögu hér á landi og tengjast náið sögu kirkjunnar. Fyrstu tilraunir til stofnunar skóla (að erlendri fyrirmynd) fyrir almúgabörn sem hófust í lok 18.aldar voru vanmáttugar og runnu út í sandinn. Íslensk samfélagsgerð, stjórnskipan og menning/hugmyndafræði hentaði ekki nútímalegri, stofnanabundinni almenningsfræðslu. Fyrsta skólastofnunin sem dafnaði til langframa hérlendis var Barnaskólinn hér á Eyrarbakka og hefur nú starfað óslitið í rúmlega eina og hálfa öld.
Hvers vegna?
Oft er sagt að skólar séu íhaldssamar stofnanir og víst má það til sanns vegar færa, og kvartað er undan því að skólar séu fastheldnir á tilteknar kennsluaðferðir og námsmat svo nokkuð sé nefnt og margir tregir að nýta sér nýjustu upplýsinga- og samskiptatækni. Ég heyrði því fleygt meira í gamni en alvöru að í Þýskalandi hefði meginbreytingin í skólahaldi á 20. öldinni falist í því að hætt var að negla borðin föst í gólfið, þannig að hægt var að raða borðum á ýmsa vegu. Ekki veit ég hvað er til í því en á undanförnum árum og áratugum hafa skólar hér á landi gengið í gegnum mikið breytingaskeið og vitaskuld hefur Barnaskólinn á Eyrarbakka farið í gegnum það eins og aðrir skólar. Sem dæmi má nefna þá varð mikil breyting með fyrstu grunnskólalögunum 1974 þegar lögfestur var heildstæður 9 ára grunnskóli fyrir alla í fyrsta sinn. Síðan bættist 10. árið við um 1990 þegar 6 ára börn urðu skólaskyld. Á síðustu áratugum hafa miklar breytingar orðið á kennaramenntun og símenntun fyrir kennara. Framboði námsefnis af ýmsu tagi er fjölbreyttara, samræmt námsmat hefur tekið ýmsum breytingum, skóli fyrir alla eða skóli án aðgreiningar hefur fest sig í sessi, aðkoma foreldra hefur aukist og þannig má lengi telja. Loks má nefna þá miklu kerfisbreytingu 1996 þegar grunnskólinn var fluttur aftur til sveitarfélaga, vikulegum kennslustundum fjölgað, skólaárið lengt og allir grunnskólar urðu einsetnir. Samhliða byggðist upp framhaldsskólakerfi og leikskólar sem nær til flestra nemenda, þannig að segja má að nú sé því marki náð að almenn alþýðufræðsla sé fyrir alla til a.m.k 18 ára aldurs. Þróunarstarf hefur aukist í skólum og með flutningi grunnskólans til sveitarfélaga þá færðist yfirstjórn þeirra nær íbúum og kjörnum fulltrúum í sveitarfélögum og sveitarfélög og skólar taka í auknum mæli mið af nærsamfélaginu við útfærslu menntastefnunnar.
Barnaskólinn á Eyrarbakka er gott dæmi um skóla sem hefur gengið nýlega í gegnum ýmsar breytingar skólakerfisins. Skólinn hefur tengt þær sínum sérkennum og um leið lagað þær að þróun samfélagsins við ströndina sem skólinn þjónar. Í fyrsta lagi hefur skólinn tekið virkan þátt í þróunar- og nýbreytnistarfi margs konar, hefur t.d. tekið þátt í að vera leiðandi í innleiðingu tölvu- og upplýsingatækni hér á landi, er meðal virkra skóla í Olweusarverkefninu gegn einelti og er með athyglisvert verkefni sem felst í nemendasamningum svo dæmi séu tekin. Þegar rýnt er í skýrslur undanfarinna ára kemur í ljós hve virkur þessi skóli hefur verið í þróunarstarfi af ýmsu tagi, bæði formlegu og óformlegu. Barnaskólinn á Eyrarbakka sameinaðist Grunnskólanum á Stokkseyri fyrir nokkrum árum og hefur þurft að aðlagast slíku eins og margir aðrir skólar og ekki er annað að sjá en að skólahaldið sé í sífelldri þróun, skólinn er síungur í anda. Þannig á þetta líka að vera og örugglega eiga eftir að verða stigin ýmis spor til breytinga á næstu árum sem ekki er hægt að sjá fyrir í dag.
Ég sagði í upphafi þessa ávarps að alþýðumenntun væri kjarnastarfsemi í samfélagi okkar. Í því samhengi eru tengsl skóla við nærsamfélag sitt lykilatriði. Ég segi stundum að skóli sé eins og hjarta í samfélagi. Starfi skólinn af metnaði og fagmennsku dafnar samfélagið. Við höfum dæmi þar sem snöggar breytingar á skólahaldi hafa haft neikvæð áhrif á nærsamfélagið. Í öðrum löndum má finna sorgleg dæmi þar sem samfélög hafa flosnað upp og lagst í eyði þegar almenningsskóli var lagður niður. Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri er gott dæmi um skóla sem á langa, farsæla sögu og hefur starfað í góðum tengslum við atvinnuhætti og menningu hér á ströndinni.