Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. nóvember 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur ávarp á degi íslenskrar tungu 16. nóvember 2009 í Ketilhúsinu Akureyri

Katrin Jakobsdottir flytur ávarp á degi íslenskrar tungu
Katrin Jakobsdottir_flytur_avarp_a_degi_islenskrar_tungu

Góðir hátíðargestir

Nú fögnum við degi íslenskrar tungu í fjórtánda sinn. Í allan dag og fram á kvöld er efnt til fjölbreyttra viðburða um allt land. Þannig minnumst við þess tungumáls sem tengir okkur saman sem búum á Íslandi og hugleiðum gildi þess fyrir menningu Íslendinga fyrr og síðar. Við minnumst jafnframt á þessum degi þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar sem á sérstakan sess í vitund og menningu landsmanna. Það var vel til fundið að velja fæðingardag Jónasar þegar ákveðið var að velja árlegan dag til að minnast íslenskrar tungu sérstaklega, umfram aðra daga. En auðvitað eru allir dagar í einhverjum skilningi dagar íslenskrar tungu. Hvern einasta dag erum við minnt á mikilvægi tungumálsins og það hve margt býr í því. Á hverjum degi er eitthvað sagt eða skrifað sem aldrei hefur áður verið sagt eða skrifað. Við megum gæta okkar á því að fara að umgangast málið eins og sjúkling sem ekkert hnjask þolir. Málið verður hraustara við öll heilbrigð átök. Við ættum ekki að hugsa um málið á degi íslenskrar tungu eins og skammt sé í „hinsta dag íslenskrar tungu“. Ef við hættum að treysta málinu til allra hluta sem við þurfum á að halda í starfi okkar og leik, þá gæti því verið meiri hætta búin en okkur grunar.

Eins og nefnt var hér á undan þá er efnt til fjölbreyttra viðburða þennan dag enda hafa hátíðarhöld dagsins fest sig vel í sessi. Degi íslenskrar tungu var í fyrra bætt við íslensku fánadagana. Á vefsíðu dags íslenskrar tungu má sjá að haldnar eru ráðstefnur, fundir og fyrirlestrar af ýmsu tagi, sýningar og tónlistarflutningur, samkeppnir og viðurkenningar og fleira og fleira. Ógerningur væri að telja allt upp hérna. Og viðburðir undir merkjum dags íslenskrar tungu taka á sig ýmsar myndir og snerta margt óvænt. Ágæt kona í Reykjavík var í síðustu viku beðin að lána dóttur sinni ljósahund vegna undirbúnings að degi íslenskrar tungu. Ljósahund? Ólíkleg tenging! Kannski það. En ástæðan var sú að á leikskólanum Hofi í Reykjavík vinna börnin það verkefni á degi íslenskrar tungu að flytja, í viðeigandi umgjörð, kvæði Þórarins Eldjárns um veruna Veru sem hefur á hausnum græna peru. Þá þarf í uppsetningunni ljósahund sem hægt er að skrúfa græna peru í.

Fyrr á þessu ári samþykkti Alþingi í fyrsta sinn skriflega íslenska málstefnu. Hún hefur nú verið gefin út öðru sinni og prentuð í stærra upplagi en fyrst, í tilefni dags íslenskrar tungu. Einnig er málstefnan aðgengileg á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins og víðar. Meðal helstu markmiða hinnar nýsamþykktu íslensku málstefnu er að íslenskt mál verði nothæft og notað á öllum sviðum íslensks samfélags. Þá er átt við vandaða íslensku sem nýtist sem tjáningarmiðill við hvers kyns kringumstæður. Málstefna á blaði eða í bók er þó ekki pappírsins virði ef hún nýtur ekki almenns stuðnings landsmanna. Ætla má að samstaða eigi að geta verið um þær góðu og metnaðarfullu tillögur sem fram hafa komið og samþykktar voru sem opinber íslensk málstefna.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur lagt sig sérstaklega fram um að hvetja til þess, í samræmi við hina nýju íslensku málstefnu, að grunnskólar og sem flestar aðrar stofnanir noti eingöngu þýdd stýrikerfi og annan almennan notendahugbúnað. Mikilvægt er að börn og unglingar vaxi upp við að nota íslensk hugtök í tölvuheiminum, sem óneitanlega er stór hluti af daglegu lífi þeirra; þannig verða þau ekki aðeins snemma handgengin íslensku á þessu notkunarsviði heldur sendir þetta þeim einnig þau heilbrigðu skilaboð að íslensk tunga sé nothæfur og fullgildur tjáningarmiðill á þessu sviði sem öðrum.

Síðastliðin ár hefur skapast sú hefð að mennta-og menningarmálaráðherra heimsækir skóla og menningarstofnanir í einu ákveðnu sveitarfélagi á degi íslenskrar tungu. Þá er einnig í því sveitarfélagi efnt til hátíðardagskrár og afhendingar Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar auk tveggja sérstakra viðurkenninga fyrir störf í þágu íslensks máls. Í ár varð Akureyri fyrir valinu í einstaklega góðu samstarfi við heimamenn. Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að vera hér á Akureyri á degi íslenskrar tungu og kynnast því góða og skemmtilega starfi sem hér er unnið í skólum og menningarstofnunum. Hér er meðal annars mikil gróska og frumkvöðulsstarf í skólaþróun og rannsóknum á læsi og lestrarkennslu, svo að eftir er tekið um allt land. Háskólinn á Akureyri vakti einnig athygli þegar unnið var að málstefnu hér við skólann. Málstefna Háskólans á Akureyri er vel unnin og metnaðarfull og er ástæða til að óska skólanum góðs gengis við að framfylgja henni. Við undirbúning dagskrárinnar hér í Ketilhúsinu naut ráðuneytið ánægjulegs samstarfs og gestrisni Akureyrarbæjar, má einkum nefna margháttaðan þátt Gunnars Gíslasonar fræðslustjóra og Huldu Sifjar Hermannsdóttir hjá Akureyrarstofu, auk tónlistarfólks og upplesara sem ráðuneytið færir bestu þakkir fyrir samstarfið, sem og öðrum þeim sem hér hafa lagt hönd á plóg.




Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta