Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. nóvember 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur ræðu á ráðstefnu um skóla án aðgreiningar 19. nóvember 2009


Menntastefna um skóla án aðgreiningar hefur verið við lýði hér á landi síðan árið 1974. Þar er ekki einungis átt við námsleg markmið heldur ekki síður fullgilda þátttöku nemenda í skólasamfélaginu. Í nýjum lögum um leik-, grunn- og framhaldsskóla er þessi stefna enn frekar áréttuð og í raun lögfest í fyrsta sinn. Það er mikilsverð staðfesting á því að stefnan um skóla án aðgreiningar hafi náð að festast í sessi hér á landi á öllum skólastigum.

Í nýjum aðalnámskrám verða fimm grunnstoðir hafðar að leiðarljósi; læsi í víðum skilningi, lýðræði, jafnrétti, menntun til sjálfbærni og skapandi starf. Samþætting þessa þátta við allt skólastarf gefur fyrirheit um aukna möguleika allra nemenda í skólanum.

Hinn þekkti uppeldisfrömuður John Dewey talaði fyrir því að allir gætu lært og sagði að skólar ættu að veita öllum nemendum jafnræði, frelsi til samskipta og fullgildrar þátttöku. Það er sjálfsagt markmið að skólar hafi það svigrúm að þeir geti sinnt öllum nemendum á þessum forsendum. Það getur þó verið krefjandi verkefni og því er nýlegt formlegt samstarf mennta- og menningarmálaráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis ánægjulegt í átt að þessu marki. Þar er um að ræða áherslu á samhæfingu á þjónustu við nemendur sem eiga við fötlun að stríða á framhaldsskólastigi og má leiða líkum að því að með aukinni samvinnu ráðuneyta um þann málaflokk muni m.a. skapast forsendur til markvissari tengsla skóla við atvinnulíf og viðeigandi stuðnings utan skóla.

Í Evrópusamstarfi sem Íslendingar taka þátt í hafa verið settar fram tillögur um þróun á sviði skóla án aðgreiningar, þar á meðal um einstaklingsbundnar tilfærsluáætlanir milli skólastiga og frá skóla til atvinnulífs. Gert er ráð fyrir að þegar nemandi, sem stundar nám eftir einstaklingsnámskrá og útskrifast úr grunnskóla sé gerð einstaklingsbundin tilfærsluáætlun er miði að því að skapa skilyrði fyrir námi nemanda í framhaldsskóla og síðar fyrir þátttöku í atvinnulífi. Í nýjum reglugerðum um nemendur með sérþarfir í grunn- og framhaldsskólum eru ákvæði um slíkar tilfærsluáætlanir sem taka eiga heildstætt á stöðu nemandans, m.a. með það að markmiði að tryggja viðeigandi menntun og sem besta virka þátttöku hans í samfélaginu. Lögð er ríkuleg áhersla á vandaða þjónustu við alla nemendur á öllum skólastigum; rétt allra nemenda til menntunar og virkrar þátttöku með viðeigandi stuðningi í námi og sérfræðiþjónustu. Víðtækt samráð er haft við hagsmunaaðila áður en reglugerðir eru gefnar út og öll vinna í þessu samhengi beinist að því að styrkja skóla án aðgreiningar í sessi.

Í Lissabonyfirlýsingunni frá árinu 2007 um álit ungs fólks á námi án aðgreiningar segir orðrétt: „Nám án aðgreiningar er besti kosturinn ef hann hentar okkur. Það er að segja ef um nauðsynlegan stuðning, úrræði og sérmenntun kennara er að ræða. Kennarar þurfa að vera áhugasamir, vera vel að sér um þarfir okkar og sýna þeim skilning. Þeir þurfa að hafa góða menntun, spyrja okkur hvers við þörfnumst og hafa gott samstarf sín á milli meðan á skólagöngu okkar stendur.“

Sumarið 2008 var stofnuð rannsóknarstofa um skóla án aðgreiningar að frumkvæði prófessors Dóru S. Bjarnason og ber að fagna því framtaki. Í minnisblaði rannsóknarstofunnar um skóla án aðgreiningar segir í fyrstu grein: „Skóli án aðgreiningar er bæði menntastefna, byggð á hugmyndum um manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti – og aðferð við að skipuleggja skóla, skólakerfi og kennslu allra nemenda skólans.“ Eitt af megin markmiðum rannsóknarstofunnar er að efla og stunda rannsóknir á þessiu sviði og miðla nýrri þekkingu til skóla og stefnumótenda. Þetta er sérstakt fagnaðarefni því rannsóknir á þessu sviði eru mjög mikilvægar til að aðstoða okkur öll við að þróa stefnuna með markvissum hætti inn í okkar skólakerfi.

Skólastefnan skóli án aðgreiningar vinnur að því að efla félagsauð nemenda og fjölskyldna innan og milli hópa í samfélaginu og teysta bönd skilnings, samstöðu og virðingar fyrir sjónarmiðum annarra. Stefnan er því til þess fallin að efla gagnkvæman skilning og virðingu milli ólíkra einstaklinga og hópa. Ef þetta er sett í stærra samhengi vitum við að það sem fyrst og fremst ógnar heimsfriði eru fordómar, hatur og vanþekking á fjölbreytileika mannslífsins. Skólar eru þær stofnanir samfélagsins sem gefa möguleika á heildstæðum aðgerðum til að halda utan um nemendur og kenna þeim að mæta ólíkum félagslegum aðstæðum og menningarheimum. Það er einmitt þess vegna sem við ættum að kappkosta að í hverjum skóla sé fjölbreytilegur hópur nemenda.

Til þess að geta tekist á við þetta gríðarlega mikilvæga verkefni þurfa kennarar að fá tækifæri til fagmenntunar til að móta skólasamfélag í þessum anda. Á tímum hraðra samfélagsbreytinga eru auknar kröfur til fagstéttar kennara á öllum skólastigum. Það er talsverð áskorun fólgin í því að ná að koma til móts við hóp fjölbreytilegra nemenda á einstaklingsgrunni. Færni í að finna hæfileika hvers og eins með það að markmiði að jafna tækifæri nemenda til náms er sterk krafa en það er ekki síður krafa á kennara um færni í að ná utan um þau fjölmörgu hlutverk sem takast þarf á við, hvort sem þau felast í uppeldi, menntun, sálgæslu, forvörnum, foreldrasamstarfi eða öðru.

Eins þarf að tryggja öflugt samstarf kennara og fagaðila sem vinna saman í skólastofunni og efla stoðþjónustu við skólana því ekki er hægt að ætlast til þess að kennarinn beri einn ábyrgð. Slíkar aðstæður geta reynst kennurum erfiðar og þeir upplifað úrræðaleysi. Mikilvægt er að kennarar séu tilbúnir til að kynna sér aðstæður, þroska og sérþarfir hvers nemanda og séu í stöðugri samvinnu við foreldra, starfsfólk, sérfræðinga og skólastjórnendur um þessi mál. Samspil þessa alls er eitt stórt velferðartónverk og gegna allir tónar þess jafn mikilvægu hlutverki.

Það er óski mín að fræðimenn, kennarar og annað fagfólk sem situr þetta áhugaverða málþing hér í dag eigi öflugt samtal og finni frekari leiðir til eflingar skóla án aðgreiningar.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta