Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. nóvember 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur fyrirlestur á málfundi um gæðaeftirlit kennslu og rannsókna hjá háskólum 27. nóvember 2009

Ágætu gestir.
Illu er best aflokið þannig að hér er smá upprifjun.

Fyrir rúmu ári síðan hrundi íslenska bankakerfið og krónan með.

Staða ríkissjóðs versnaði til muna og nauðsynlegt var að draga verulega úr ríkisútgjöldum.

Háskólarnir þurftu að hagræða í rekstri þegar í ár og þola niðurskurð á næsta ári.

Hvað gerist 2011 og 2012 er óljóst en það er ekki ólíklegt að um frekari niðurskurð hjá háskólunum verði að ræða.

Á sama tíma sækja fleiri í háskólana vegna aukins atvinnuleysis og við getum auðveldlega orðið sammála um að það sé betra að fólk stundi nám en að það mæli göturnar.

Ofan í allt þetta viljum við halda í og helst efla gæði þess sem við gerum.

Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er því ekki auðvelt og með „við“ á ég ekki bara við stjórnvöld heldur okkur öll, ekki síst nemendur. Við leysum þetta aldrei sómasamlega nema með samhentu átaki og þess vegna hef ég lagt áherslu á gott samstarf við háskólana og almenna umræðu um hvert við stefnum áður en ákvarðanir um breytingar á háskólakerfinu verða teknar. Það er farsælla að hafa þá sem breytingar hafa mest áhrif á með í umræðunni til að þær hafi tilætluð áhrif – þó að á því séu að sjálfsögðu undantekningar. Það getur verið nauðsynlegt að taka pólitískar ákvarðanir um breytingar í óþökk þeirra sem þær ná yfir en ég hef enga trú á gerræðislegum pólitískum ákvörðunum.

Nú veit ég að mörgum finnst nóg komið að umræðum og að tími sé kominn til að taka ákvarðanir um hvert við eigum að stefna í málefnum háskóla og vísinda. Fyrirrennari minn í starfi skipaði tvær nefndir – eina innlenda og eina erlenda – til að fjalla um og gera tillögur að aðgerðum í háskóla og vísindamálum í kjölfar hrunsins. Þegar þær skiluðu niðurstöðu skipaði ég rýnihóp valinkunnra einstaklinga frá háskólunum til að fjalla um skýrslurnar og gera tillögur að aðgerðum. Rýnihópurinn skilaði af sér í ágúst síðastliðnum með stuttri skilagrein þar sem hann lagði áherslu á þrennt:

Að nauðsynlegt væri að auka samstarf í háskólakerfinu.

Að það yrði að efla gæðamat og eftirlit og tengja fjármögnun við gæði og árangur.

Að endurskoða þyrfti fjármögnun háskólanna.

Þessi þrjú atriði voru líka ofarlega á blaði í skýrslum hinna hópanna tveggja og ég veit að í nýrri stefnu Vísinda- og tækniráðs, sem verður á dagskrá næsta fundar ráðsins í desember, verður megináherslan á aukna samvinnu, gæði og árangur. Og hér erum við stödd í dag, enn einu sinni að ræða hvað við eigum að gera. Núna erum við að velta fyrir okkur hvaða aðferðir við eigum að nota við gæðamat og eftirlit og í gær var Norman Sharp með fyrirlestur þar sem hann kynnti kosti og galla mismunandi aðferða og hvað gæti hentað okkur hér á Íslandi. Hann var að auki megnið af deginum í ráðuneytinu þar sem hann ræddi við starfsfólk ráðuneytisins, fulltrúa háskólanna og mig um hvað við gætum og ættum að gera hér á landi til að bæta gæðamenninguna. Hann hefur heitið því að vera okkur til ráðgjafar eins og við óskum. Við erum því í fullri alvöru að kanna hvers konar gæðakerfi henti okkur best – með tilliti til stærðar og bolmagns – og ég vænti þess að með vorinu munum við vera komin með skýra stefnu í gæðamálum háskólastigsins.

Til að sjá hlutina í samhengi – og í tilefni af því að þetta er fyrsta málþingið af nokkrum – vil ég örstutt gera grein fyrir þeirri vinnu sem hefur farið fram í ráðuneytinu undanfarna mánuði – til að sýna að við gerum meira en bara að tala um hlutina og panta skýrslur. Með skilagrein rýnihópsins fékk ég lista yfir verkefni sem ráðuneytið þyrfti að leysa til að ná þeim markmiðum sem ég nefndi áðan:

Vísinda- og tækniráði skortir heildstæðri stefnumótun fyrir vísindi og nýsköpun en sérstaklega skorti á eftirfylgni. Starfsháttum ráðsins hefur verið breytt, fundum fjölgað og stuðningur við starfsemi ráðsins efldur. Ráðið er nú að ljúka vinnu við nýja stefnu fyrir árin 2010 til 2012 og ég geri miklar væntingar til starfsemi ráðsins á næstu misserum.

Samstarfsvettvangur rektora háskólanna. - Ég hef í haust kallað rektorana til reglulegra funda, til að gera þeim grein fyrir vinnu ráðuneytisins og til að hvetja til opinnar samræðu á milli þeirra um framtíð háskólastigsins, samstarfs háskólanna og verkaskiptingu. Traust er meðal þess mikilvægasta sem við höfum á erfiðum tímum og án trausts milli aðila – milli háskólanna sjálfra, háskólanna og stjórnvalda og annarra sem skipta máli – verður verkefnið mun erfiðara. Nýleg blaðaskrif þar sem einstaka starfsmenn háskólanna hafa, mis málefnalega, skotið hart á aðra háskóla hafa ekki verið mjög hjálpleg. Þegar svona umræða kemur upp getur verið erfitt að meta sannleiksgildi þess sem haldið er fram þar sem við höfum ekki mjög góðar og sambærilegar upplýsingar um gæði og árangur af starfsemi háskólanna. Fullyrðingar um að einn sé að gera betur en annar verða því innihaldslitlar. Eitt af því sem ég vil sjá á næstunni eru betri og sambærilegri upplýsingar um starfsemi háskólanna.

Eitt af þeim verkefnum sem ég hef beðið háskólana um er að gera tillögu um lausn á því hvaða hluta stjórnsýslu og stoðþjónustu þeir geti sameinast um. Ég á von á tillögum frá rektorunum á næsta fundi okkar en eitt af því sem ég vonast til að sjá á næstu misserum er háskólakerfi sem virkar meira sem ein heild. Með því er ég ekki að segja að það eigi engin samkeppni að ríkja í æðri menntun á Íslandi. Við verðum hins vegar að hafa í huga að íslenskir háskólar eru í samkeppni á alþjóðavettvangi og til að standa sig betur þar verða þeir að vinna betur saman. Hér skiptir öllu máli að gæði starfseminnar séu góð og sýnileg. Það gerum við ekki með því einfaldlega að segja að við séum best í heimi – eins og við höfum kannski verið aðeins of gjörn á að gera – heldur verðum við að geta vísað í faglegt mat á gæðum og árangri sem byggir á gagnsæjum og sambærilegum upplýsingum.

Rýnihópurinn lagði til að við efndum til opinna málfunda um háskóla- og vísindamál. Í dag er fyrsti málfundurinn af fjórum. Eftir tvær vikur fjöllum við um hlutverk háskóla og í janúar munum við halda málfund um gæði og fjármögnun rannsókna, sem er eitt af helstu deiluefnum háskólanna. Að lokum ræðum við hvernig á að fjármagna háskólastofnanir. Málþingin eru mikilvæg til að efla opinbera umræðu um æðri menntun og rannsóknir en ég vonast líka til þess að umræðan hér – sem fer fram á hlutlausu svæði Norræna hússins – spili beint inn í vinnu ráðuneytisins við þá endurskoðun sem er í gangi.

Fjármögnun háskólanna er og verður stærsta verkefnið. Í dag er rekstur og fjármögnun þeirra að mörgu leyti ólík. Þrír af sjö háskólum eru sjálfseignastofnanir eða hlutafélög – þ.e. einkaskólar – en hinir eru opinberar stofnanir. Allir fá þeir borgað eftir sama reiknilíkani fyrir kennslu en fjármögnun rannsókna er mjög mismunandi eftir stofnunum og húsnæðisþátturinn er annar stór kostnaðarhluti sem ríkið hefur mjög misjafna aðkomu að. Opinberum háskólum er ekki heimilt að taka skólagjöld en einkaskólarnir gera það hins vegar. Nú segja sumir að best sé fyrir íslenskt samfélag að jafna leikvöllinn, láta eitt yfir alla ganga og háskólana sjálfa keppa um opinbert fjármagn. Aðrir halda því fram á móti að nauðsynlegt sé að taka tillit til mismunandi hlutverka háskólanna – sumir kenna að mestu leyti fög sem mikil aðsókn er að, á meðan Háskóli Íslands býður upp á allt milli himins og jarðar. Sumir takmarka mjög þann fjölda nemenda sem þeir taka við en aðrir veita mörgum tækifæri.

Síðasta verkefnið sem ég vil nefna hér fjallar um gæðamálin sjálf. Rýnihópurinn lagði til, og tók þar undir ráðleggingar sem hafa nokkrum sinnum áður komið fram, að gæðaeftirlit með kennslu og rannsóknum verði eflt með stofnun skrifstofu eða nefndar sem bæri ábyrgð á gæðaeftirliti og mati. Við erum hér saman komin í dag til að ræða þetta og við munum á næstu vikum vinna að því að móta nýtt kerfi. Þó við séum sérstaklega að skoða gæðakerfið sem nýlega var tekið upp í Lúxemborg þá erum við opin fyrir öllum góðum hugmyndum um aðrar leiðir. Ég verð að fara mjög fljótlega á ríkisstjórnarfund en ég mun fá upplýsingar frá mínu starfsfólki um umræðurnar hér í dag og við tökum tillit til þeirra í næstu skrefum.

Ég er sannfærð um að aukin áhersla á gæði háskólastarfs muni vera til góðs en það er alls ekki sama hvernig við förum að. Þó það sé auðvelt að vera sammála um að gæði skipti máli þá hættir samkomulagið fljótlega þegar farið er að skoða hvað við eigum við með gæðum og hvernig eigi að meta þau. Ég ætla ekki að blanda mér í þá umræðu hér í dag en hins vegar varpa fram annarri spurningu. Hversu langt er heilbrigt að ganga í gæðamati og eftirliti? Gæðaeftirlit á Íslandi er ekki alveg nýtt. Háskólarnir eru krafðir um öflugt innra gæðaeftirlit sem ytri eftirlitsaðilar fylgjast með og meta. Undanfarin ár hafa allir háskólar þurft að sækja um viðurkenningu ráðuneytisins til að fá leyfi til að útskrifa nemendur. Umsóknir háskólanna voru metnar af erlendum sérfræðingum. Háskólarnir stóðust allir prófið, þ.e. þeir uppfylla allir þær lágmarkskröfur sem lög um háskóla frá 2006 gera, en viðurkenningin felur samt ekki í sér eiginlegt mat á gæðum og út úr ferlinu kom ekki góður samanburður á háskólunum. Nú er ráðuneytið farið af stað með þriggja ára áætlun um mat á gæðum og við byrjum á því að skoða hvernig þrír af háskólunum hafa brugðist við gagnrýni sem kom fram í viðurkenningarskýrslunum. Við fáum niðurstöðu úr því mati snemma næsta vor. Strax í kjölfarið verður háskólakennsla í viðskiptafræði og lögfræði við alla háskólana metin. Niðurstaða úr þessu mati mun liggja fyrir næsta sumar og ætti að gefa okkur samanburð á gæðum háskólakennslu í þessum fögum. Nú tölum við um að efla gæðamat og eftirlit enn frekar en hversu mikið? Hvert er sjálfstæði háskólanna í þessu samhengi?

Nátengt þessu er spurningin um hversu stöðluð gæðin eiga að vera. Til að taka kennslu aftur sem dæmi þá verðum við að spyrja: Eiga háskólar að vera stofnanir sem útskrifa nemendur sem allir uppfylla vel skilgreinda gæðastaðla eða eiga þeir að hvetja til sjálfstæðrar hugsunar og vinnubragða og rækta fjölbreytni? Þessari spurningu vona ég að þið fáið svarað í dag eða a.m.k. færist nær skynsamlegu svari.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta