Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

03. desember 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur afmælisávarp í upphafi menningardagskrár Þjóðræknisfélags Íslendinga 1. desember 2009

mennta-og_menningarmalaradherra
mennta-og_menningarmalaradherra


Góðir gestir

Vesturheimsferðir eru í raun sérstakur kafli í sögu landsins. Meginþungi þeirra var 1870 til 1914 en á því skeiði fluttust að minnsta kosti 15000 manns vestur um haf og langflestir til Kanada. Ástæðurnar voru margvíslegar. Hér heima var erfitt að efna í bú, jarðir lágu ekki á lausu en vistarskyldan eða vistarbandið batt unga karla og konur við störf í sveit, menn einfaldlega máttu ekki setjast að við sjávarsíðuna nema með sérstökum skilmálum. Unga fólkið sá Ameríku í draumum sínum og safnaði fyrir fargjaldinu, gamlir og grónir bændur tóku sig upp með skyldulið sitt, sveitarstjórnir greiddu fyrir því að barnmargar og fátækar fjölskyldur flyttust vestur um haf. Eldgos í Öskju og gríðarleg harðindi milli 1880 og 90 hröktu margan frá búi og vestur og sjálfsagt hefur fleira komið til.

Og þetta voru engar lúxusferðir. Hingað komu stór skip og sigldu hringinn í kringum landið og söfnuðu saman fólki, í Reykjavík, á Ísafirði, á Borðeyri, Sauðárkróki, Húsavík og kannski á Seyðisfirði í lokin, síðan var siglt til Skotlands og þar um borð í enn stærra skip í bland við fólk af ýmsum þjóðernum. Menn höfðu með sér íslenskan mat og þá sem nú þótti mörgum útlendingi kosturinn skrítinn. Í mörgum tilvikum voru menn að fara að heiman í fyrsta skipti. Siglingin vestur gat tekið óratíma og um borð hafði lífið sinn gang. Í bréfum vesturfara kemur fram að þar fæddust menn og dóu. Lífið var að því leyti til eins á sjó og landi.

Fyrir vestan beið landnemanna nýtt land og ónumið en þar biðu líka nýir sjúkdómar sem Íslendingar voru næmir fyrir og drógu marga til dauða. Og vetrarkuldinn heima var hjóm eitt miðað við kanadíska veturinn. Hitt er svo sanni nær að fólkið var hraust ef það fékk nóg að borða. Það kemur glögglega fram í bréfum að lífsbaráttan var hörð. Menn urðu að læra til nýrra verka, veiða fisk úr vötnum, reisa hús úr bjálkum, grafast bókstaflega fyrir rætur trjáa á landi sem þeir þurftu að ryðja fyrir akur, þeir lærðu að rækta korn og skjóta dýr sér til matar.

Það er hins vegar enginn bölmóður í bréfum vesturfara. Fólkið tók með sér að heiman þessa þrautseigju sem sagði mönnum að ef eitthvað lukkaðist ekki í dag þá mundi það heppnast á morgun. Fólkið tók líka með sér að heiman örnefnin. Uppsalir, Halldórsstaðir og Reynistaður eru til í Kanada. Líka Bifröst, Gimli og Grund. Kannski voru menn ekkert að flytja, þeir tóku að sínu leyti gamla landið með sér og ætluðu sér að búa til Nýja-Ísland. Það er sem sagt gömul saga og ný að menn búi til Nýja Ísland.

Ætli Stephan G. Stephansson fremsta skáld okkar í Kanada orði þetta ekki skýrast í upphafi alkunns kvæðis:

  • Þótt þú langförull legðir
    sérhvert land undir fót
    bera hugur og hjarta
    samt þíns heimalands mót?


Þetta gilti kannski fyrst og fremst um fyrstu kynslóðina sem mundi gamla landið því það var þá eins og nú að þungamiðja heimsins er alltaf á bernskuslóðum eins og Jón úr Vör orðar svo fallega í ljóði: Hve undurhægt vaggar bátur þinn/við landsteina eigin bernsku.

Næstu kynslóðir áttu þess lítinn kost að heimsækja gamla landið, en nú eru þessi bönd býsna traust og ferðirnar eru gagnkvæmar.

Íslendingar vestan hafs mynduðu með sér öflugt samfélag. Þeir gáfu út blöð og bækur, stofnuðu sína kirkju og deildu reyndar um trúmál. Þeir urðu lifandi þegnar í nýju landi og nú munu hartnær tvö hundruð þúsund Kanadamenn eiga rætur að rekja til þessa fólks og þeir hafa komið sér vel fyrir og eru stoltir af uppruna sínum. Þjóðræknisfélag sitt stofnuðu þeir 1918 og 21 ári síðar var Þjóðræknisfélag Íslendinga stofnað í Reykjavík eða 1939. Það var engin tilviljun sem réð því að það var stofnað í Eimskipafélagshúsinu á fullveldisdaginn, en segja má að Vestur-Íslendingar hafi staðið myndarlega að stofnun þess félags.

Góðir áheyrendur. Ótal fjölskyldur á Íslandi nútímans eiga tengsl vestur um haf og í mörgum ættum lifa sagnir frá vesturfaratímanum, til eru myndir af prúðbúnu fólki sem stillti sér upp hjá fotograffaranum, til eru bréf þar sem bréfritari tekst til dæmis á við það vandamál að lýsa skógarbirni eða járnbrautarlest fyrir skyldfólki sínu upp til dala á Íslandi sem aldrei hafði sér slík ósköp. Eitt og annað er líka skjalfest svo sem eins og þegar ein sveitarstjórn norður í Skagafirði ákvað að senda barnmarga fjölskyldu vestur til Ameríku og fóru allir nema einn drengur varð eftir. Hann varð seinna frægur maður hérlendis og víðar og heitir Valtýr Guðmundsson. Kannski væri Íslandssagan öðruvísi ef hann hefði látið slag standa og flust vestur. Sagan er alltaf full af tilviljunum fremur en forsjón.

Góðir áheyrendur. Ég óska ykkur til hamingju með 70 ára afmæli Þjóðræknisfélagsins, það hefur unnið gott starf og megi því farnast vel í framtíðinni.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta