Ráðherra talar á fyrsta degi aðventu á menningarkvöldi í Grafarvogskirkju 29. nóvember 2009
Menningarkvöld í Grafarvogskirkju á fyrsta degi aðventu.
Kæru gestir í Grafarvogskirkju,
Það er mér sönn ánægja að fá að vera með ykkur á þessari fallegu stund í upphafi aðventu. Á jólum er góður tími til að líta um öxl, rifja upp bernskujólin og skyggnast um leið inn í eigin sál og hugsa um lífið og sannleikann. Og þegar ég leit aftur til bernskunnar í leit að innblæstri fyrir þetta kvöld þá staldraði ég við bókmenntirnar – þangað sæki ég raunar gjarnan innblástur – og mig langaði að rifja upp með ykkur hér í kvöld eina eftirminnilega jólasögu sem fjallar um Emil í Kattholti og kemur fyrir í einni af bókum Astridar Lindgren um þann unga heiðursmann. Emil, eins og þið munið sjálfsagt, var mikill prakkari og svo hugmyndaríkur að hann framdi aldrei sama skammarstrikið tvisvar - en eyddi samt löngum dögum í skammarkróknum í smíðaskemmunni og tálgaði litla karla. Hann bjó í Kattholti í Hlynskógum með foreldrum sínum, Ídu litlu systur og vinnufólkinu Alfreð og Línu. Jólahald í Kattholti var með miklum myndarbrag – og mamma Emils sendi ávallt veglega matarkörfu á fátækrahælið í Hlynskógum en þurfalingahælið er skýrt svo í sögunni: „Hugsaðu þér ömurlegt, lítið hús með tveimur kytrum og allt húsið troðfullt af fátækum útslitnum gamalmennum sem hírast þar í einni kös af skít og lús við sult og vesöld, þá veistu hvað þurfalingur og fátækrahæli er.“ Þannig var sem sagt ástandið á þessu hæli og ekki var betra að þar réð ríkjum ráðskona sem var mikið illfygli.
Svo var það þannig um jólin að Emil var hinn prúðasti, sat grafkyrr og þögull undir messunni og á aðfangadagskvöld skrifaði móðir hans í dagbókina sína – sem var nokkurs konar skammarstrikaannáll Emils – „Blessaður drengurinn er í raun og veru góður og gerir engin skammarstrik, að minnsta kosti ekki í kirkjunni.“ Og Emil hélt uppteknum hætti á jóladag en svo kom annar í jólum og þá fóru mamma og pabbi Emils í jólaboð í Skorpholti og segir þá: „Allir í Hlynskógum vissu hvernig Emil var, þess vegna var börnum ekki boðið með. Mér er alveg sama, sagði Emil. Það verður verst fyrir þau í Skorpholti. Aumingja fólkið, ef svo fer fram fá þau aldrei að hitta mig!“ En hitt gátu foreldrar Emils ekki vitað að þennan dag kom Æri-Jochum í heimsókn af þurfalingahælinu og sagði frá því að ráðskonan hefði borðað allan jólamatinn alein og ekki gefið fátæklingunum neitt. Og Emil, sem ávallt var réttsýnn og líka maður aðgerða, brást hratt við – og ákvað að nú skyldi haldin veisla í Kattholti „? því nú átti hver lifandi maður á fátækrahælinu í Hlynskógum að koma í Kattholt og það strax! Já, en Emil, sagði Ída litla óttaslegin, ertu viss um að þetta sé ekki skammarstrik? Alfreð var líka hræddur og hélt að þetta væri kannski skammarstrik, en Emil fullvissaði hann um að svo væri ekki. Þetta væri góðverk sem Guðs englar myndu klappa saman lófunum fyrir eins mikið og þeir höfðu áður grátið yfir ömurlegum jólunum á fátækrahælinu. Og mamma verður líka glöð, sagði Emil. Já, en hvað um pabba? spurði Ída. Hum, sagði Emil. En þetta er að minnsta kosti ekki neitt skammarstrik.“
Emil náði svo að plata ráðskonuna út úr húsi með því að segja henni frá veislunni í Skorpholti, og nefna þar freistandi ostabúðing sem þar kynni að bíða. Ráðskonan er fljót að falla fyrir þessu og hleypur af stað en Emil leiðir svo hersinguna í Kattholt þar sem þau fá besta málsverð ævi sinnar þar sem réttirnir sem eru taldir upp ná yfir tvær blaðsíður. Þau klára hvern bita (nema einn sykurhúðaðan mjólkurgrís) og síðan skilar Emil þeim á hælið á eldiviðarsleðanum. Þau sofa vel en ráðskonan lendir í hremmingum þegar hún dettur í úlfagryfju sem Emil hafði grafið fyrr í sögunni í von um að veiða úlf - en þaðan slapp hún nú.
Allt komst svo upp þann þriðja dag jóla þegar frændfólk Emils í Ingholti átti að koma í jólaboð. Og þar segir frá þegar mamma Emils skrifaði í dagbókina um kvöldið – og tár falla á blaðsíðurnar: „Þriðja dag jóla í neyð minni um aftaninn, stendur sem fyrirsögn. Og síðan: Í dag hefur hann setið í smíðaskemmunni allan daginn, vesalings barnið. Víst er hann hjartagóður, pilturinn, en stundum held ég að hann sé ekki með öllum mjalla.“
Jú, víst er það svo að baráttumenn réttlætisins eru stundum ekki taldir með öllum mjalla en það var Emil svo sannarlega enda átti hann seinna meir eftir að verða oddviti, kannski vegna þess að hann lét sig málefni þeirra sem minna mega sín varða.
Emil reiddist yfir ranglætinu og vildi leiðrétta það með sínum hætti. Hann lyfti þarna kyndli réttlætisins og eyddi svo deginum í skammarkróknum fyrir. En réttlæti er vafalaust hugtak sem er mörgum hugleikið þessa dagana, nú þegar við í íslensku samfélagi lifum mikla umbrotatíma, þar sem oflæti og ofsi hefur fengið að þrífast í skjóli peningahyggju með erfiðum afleiðingum fyrir samfélagið allt sem þarf nú að taka höndum saman og byggja upp að nýju. Hluti af því byggingarefni þarf að vera réttlæti en annar mikilvægur hluti er fyrirgefningin, að fyrirgefa og ná sáttum. Aðeins þannig verður friðurinn endurheimtur í íslensku samfélagi, með þessum tveimur þáttum sem þurfa að haldast í hendu.„Án fyrirgefningar er engin framtíð,“ sagði mikill baráttumaður fyrir friði og réttlæti. Árið 1984 hlaut Desmond Tutu biskup í Suður-Afríku friðarverðlaun Nóbels fyrir friðsamlega baráttu gegn aðskilnaðarstefnu hvíta minnihlutans. Í ræðu sinni þegar hann tók við verðlaunum Nóbels sagði hann: „Það er enginn friður í Suður-Afríku. Það er enginn friður af því það er ekkert réttlæti.“ Þegar við skyggnumst inn á við þessi jól vona ég að við leitum að þessu, friði, réttlæti og fyrirgefningu. Og ég vona að íslensku samfélagi eigi eftir að lánast að finna þetta allt þrennt. Og þegar við skyggnumst til baka vona ég líka að við finnum aftur bernskuna, hvert og eitt, og hugsum um það sem skiptir máli fyrir börnin, börnin sem einu sinni voru og börnin sem eru nú. Mig langar að ljúka þessu á tveimur ljóðum eftir Jón úr Vör sem minna okkur á bernskuna en þau eru fá, skáldin, sem af jafnmikilli fegurð og næmni hafa fjallað um æsku sína eins og hann gerir í Þorpinu. Í þessu ljóði skáldsins úr Vör fjallar hann um jólin.
Jól,
kertaljós í bláum fjarska,
bak við ár,
æskuminning um fegurð.
Stíg ég hreinn upp úr bala
á eldhúsgólfinu,
signdur af þreyttri móður,
færður í nýja skyrtu.
Jól,
fagnaðartár
fátæks barns -
Kannski er það alltaf mælikvarði okkar á öll jól hversu lík þau eru okkar æskujólum, hversu vel þau ná anda þeirra hátíðlegu augnablika þegar við vorum sjálf börn. Og kannski verðum við öll börn um jólin.
Þetta er falleg stund hér í Grafarvogskirkju og mig langar til að ljúka máli mínu með öðru fallegu ljóði eftir Jón úr Vör sem þó er ekki að finna í Þorpinu. Ljóðið heitir Stillt og hljótt og ég vona að þessi fallegu orð fylgi okkur héðan út og inn í aðventuna.
Stillt vakir ljósið
í stjakans hvítu hönd,
milt og hljótt fer sól
yfir myrkvuð lönd.
Ei með orðaflaumi
mun eyðast heimsins nauð.
Kyrrt og rótt í jörðu
vex korn í brauð.
Takk fyrir