Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. desember 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Málfundir um háskóla og rannsóknir 11. desember 2009, Norræna húsið

Ágætu gestir.

Fyrir hálfum mánuði opnuðum við röð málfunda um háskóla og rannsóknir með fundi um gæði háskóla. Í dag snúum við okkur að almennari spurningu: Hver eru hlutverk háskóla? Spurningin er ekki einföld en hún er vonandi einfaldari en spurningin um tilgang lífsins. Margir hafa fengist við hana og gefið mörg svör en ég minnist þess þó ekki að nokkur hafi haldið því fram að háskólar væru tilgangur lífsins. Hlutverk þeirra er því væntanlega eitthvað annað og ómerkilegra, þó maður gæti stundum haldið af umræðunni að háskólarnir séu upphaf og endir alls.

Háskólar eru vinnustaðir. Þar starfar fólk og fær laun fyrir að sinna mismunandi verkefnum. Sumir kenna, aðrir rannsaka en margir bæði kenna og rannsaka. Þetta sama fólk tekur að auki að sér alls kyns önnur verkefni sem tengjast störfum þeirra við háskólana – eins og að stjórna sjálfum sér og öðrum, taka þátt í opinberri umræðu um hitt og þetta, vinna að verkefnum pro bono eða verkefnum sem aðrir greiða fyrir. Í viðbót við þá sem ég hef þegar nefnt sinnir fjöldinn allur margskonar þjónustu við starfsmenn og nemendur háskólanna – tæknifólk, fólk sem þrífur, eldar mat, reiknar út laun, heldur utan um feril nemenda, veitir upplýsingar um allt milli himins og jarðar og þar fram eftir götunum. Háskólar eru, þegar upp er staðið, flókin samfélög með margþætt hlutverk og þó ég hef varla minnst á nemendur ennþá.

Tvennt er oftast nefnt þegar háskóla ber á góma: Kennsla og rannsóknir.

Háskólar eru staðir þar sem einstaklingar fá kennslu og þjálfun á mörgum ólíkum sviðum. Sumt nám er fyrst og fremst fræðilegt á meðan annað er í eðli sínu hagnýtt og miðar fyrst og fremst að ákveðnum störfum – t.d. í heilbrigðis- og menntakerfinu. Þetta nám er auðvitað fræðilegt eins og hitt en hefur að auki það markmið að þjálfa fólk upp fyrir ákveðin störf. Íslenskir háskólar hafa haft mikið frelsi til að ákveða sjálfir hvaða nám þeir bjóða upp á. Viðskiptafræði hefur til að mynda verið mjög vinsælt háskólanám undanfarin ár og í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar kom fram að hlutfallslega miklu fleiri nemendur eru í námi í viðskiptafræði á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Á sama tíma telja margir að á Íslandi skorti þekkingu og kunnáttu í ákveðnum greinum – ekki síst á ýmsum sviðum starfsmenntunar.

Sjálf er ég þeirrar skoðunar að fólk verði sjálft að ráða hvaða framtíð það velur sér í lífinu. Það er hins vegar ljóst að námsval – ekki frekar en annað val – á sér ekki stað í tómarúmi heldur mótast af samspili einstaklings og samfélags. Námsval mótast meðal annars af upplýsingaflæði, námsframboði, tíðaranda og ímyndum sem skapast um hvert fræðasvið. Fyrir ekki svo mörgum árum sóttu fáar konur nám í verkfræði en á sumum sviðum verkfræðinnar eru þær nú komnar í meirihluta. Það nám sem áður þótti eingöngu hæfa körlum hefur nú öðlast aðra ímynd.
Spurningin er nú hvort ímynd viðskiptafræðanna hafi breyst, hafa önnur fræðasvið öðlast sterkari stöðu? Munu jafnvel ný mótast og mun sjálfkrafa komast á eftirsóknarvert jafnvægi milli fræðasviða? Eða þarf ríkið að gera skýrari kröfur til háskólanna um það nám sem þeir bjóða upp á? Þessar spurningar snerta umfjöllunarefni dagsins með beinum hætti. Er hlutverk háskólanna að veita fólki tækifæri til að þroska sig sjálft á þeim sviðum sem það kýs, - eða er hlutverkið að sjá til þess að íslenskt samfélag sé í stakk búið til að mæta ögrunum og grípa tækifæri sem gefast? Farsælast er vitaskuld þegar þetta tvennt getur farið saman.

Háskólastofnanir eiga að vera vígi fyrir akademískt frelsi og þekkingarsköpun sem byggir á hlutlægri og gagnrýnni hugsun. Í háskólum er ný þekking sköpuð og henni miðlað út í samfélagið og til næstu kynslóða. Við háskóla hafa akademískir starfsmenn mikið frelsi til að sinna rannsóknum sem þeir sjálfir hafa áhuga á. Þessi áhugi getur auðvitað verið mjög mismunandi, frá hreinum áhuga á sérkennilegum fyrirbærum yfir í sannfæringu um skyldu háskólafólks til að gagnast samfélaginu. Fyrir utan háskólana eru rannsóknir stundaðar af einstaklingum en líka í rannsóknastofnunum og fyrirtækjum þar sem frelsi til rannsókna er almennt takmarkaðra (af þeirri einföldu ástæðu að rannsóknastofnanir og fyrirtæki hafa annað hlutverk og eru rekin á öðrum forsendum en háskólar).

Háskólar eru að lang mestu leyti fjármagnaðir af ríkinu, þ.e. af skattgreiðslum borgaranna, og eru hluti af almannaþjónustu. Þetta á bæði við um ríkisháskólana og einkaháskólana. Þegar við spyrjum um hlutverk háskóla hljótum við að skoða spurninguna í þessu samhengi. Mikilvægt er að spyrja sig hvort aðkoma einkaaðila eða hagsmunaaðila að fjármögnun háskóla og þekkingarsköpunar raski með einhverjum hætti meginhlutverki háskóla, sem er að vera vígi fyrir akademískt frelsi og þekkingarsköpun sem byggir á hlutlægri og gagnrýnni hugsun?

Við höfum fengið fjóra mjög ólíka fyrirlesara til að nálgast spurninguna um hlutverk háskóla hér í dag. Að því búnu munu fara fram pallborðsumræður að þar sem fulltrúar úr ólíkum áttum sitja fyrir svörum. Spurningin um hlutverk háskóla er ekki einkamál háskólafólks heldur snertir samfélagið í heild sinni. Háskólar eru meðal grundvallarstofnana frjálsra velferðarsamfélaga og við verðum að nálgast spurninguna á þeim grunni.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta