Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. janúar 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Málfundur um gæði og fjármögnun rannsókna 15. janúar 2010

Katrin_Jakobsdottir
Katrin_Jakobsdottir

Ágætu gestir.
Við hittumst hér í þriðja skipti í dag í þessari röð af málfundum um háskóla og rannsóknir sem mennta- og menningarmálaráðuneytið stendur nú fyrir. Á síðasta málfundi var hlutverk háskóla til umræðu og fengum við fjögur mjög ólík sjónarhorn á viðfangsefnið. Í kjölfar þeirra fylgdi svo fjörleg umræða sem snerist meðal annars um áhrif fjármagns og eigenda á háskóla og þá starfsemi sem fer þar fram. Í næstu viku ætlum við að skoða fjármögnun háskóla í heild sinni og höldum því þeirri umræðu áfram.

Á fyrsta fundinum fjölluðum við um gæði og hvernig best er að skipuleggja gæðamat fyrir háskólana. Í kjölfarið höfum við lagt drög að stofnun alþjóðlegs gæðaráðs og ég vænti þess að seinni partinn í febrúar munum við hafa í höndunum mótaðar tillögur um hvernig slíkt ráð getur litið út og hvað það á að gera. Ég geri mér vonir um að ráðið taki til starfa næsta haust. Á málfundinum, og ekki síður í fyrirlestri Normans Sharps daginn áður, komu fram margar mjög góðar hugmyndir sem við höfum nýtt okkur.

Gæðamál eru ekki einfalt viðfangsefni og í dag munum við heyra meira um gæði. Í þetta sinn er viðfangsefnið gæði rannsókna og tengsl þeirra við fjárveitingar. Við víkkum því sjóndeildarhringinn, lítum út fyrir háskólana og skoðum rannsóknasamfélagið í heild sinni.

Af opinberum framlögum til rannsókna og þróunar fer stærstur hluti til háskóla í beinum framlögum, eða rúmlega 40%. Rúmlega 30% fara beint til opinberra rannsóknastofnana en rúmlega 15% af opinberu fé rennur í samkeppnissjóði. Tæplega 10% af opinberum framlögum eru árgjöld okkar í erlendar samstarfsáætlanir og er rammaáætlun Evrópusambandsins um rannsóknir og þróun þar langstærst.

Stefna Vísinda- og tækniráðs
Í dag kynnum við nýja þriggja ára stefnu Vísinda- og tækniráðs sem var samþykkt á fundi ráðsins 18. desember síðastliðinn. Hún nær til áranna 2010 og til og með 2012 eða til þess tíma sem við ætlum að nota til að vinna okkur út úr kreppunni og byggja upp nýja framtíð.

Þessi stefna hefur orðið til í andrúmslofti kreppunnar. Starfsnefndir ráðsins, vísindanefnd og tækninefnd, hófu vinnu við nýja stefnu haustið 2008 – rétt fyrir hrun. Stefnan er því ekki óskalisti yfir það sem við viljum áorka hér á landi á næstu árum, með það að augnamiði að við getum orðið best í heimi, heldur miðar hún að því að treysta þær styrku stoðir sem til staðar eru og byggja síðan á þeim.

Við stöndum að mörgu leyti mjög vel og heiti stefnunnar vísar í þá staðreynd.

Við erum mjög framarlega á mörgum sviðum rannsókna og nýsköpunar og höfum margt fram að færa sem bæði við og restin af heiminum getur notið góðs af. Við þurfum að bera gæfu til að glutra ekki niður því sem áunnist hefur og trúa á það sem við getum og kunnum.

Hér á landi er fjöldi stofnana og háskóla sem skila miklu til samfélagsins með framsæknum og gagnlegum rannsóknum sem í mörgum tilfellum leiða til nýsköpunar og aukinna verðmæta, eða framfara í menningu og fyrir samfélagið. Ef við skoðum framlög til rannsókna og þróunar og berum okkur saman við aðrar þjóðir þá kemur í ljós að við gerum eins vel og þeir bestu.

Tölfræði getur samt verið skrýtin. Árið 2007 fóru tæplega 3% af vergri landsframleiðslu til rannsókna og þróunar og það þykir nokkuð gott í samanburði við aðrar þjóðir. Það má hækka þetta hlutfall með tvennum hætti: Auka framlögin eða draga úr landsframleiðslu. Það getur farið svo að næst þegar við mælum framlag okkar þá verði hlutfallið hærra þar sem landsframleiðslan hefur dregist saman. Eins er með samkeppnissjóðina sem hækka hlutfallslega í ár en standa í stað í krónum talið. Litlu máli skiptir þó hve háum upphæðum við verjum til rannsókna og nýsköpunar ef við notum peningana illa.

Nú bendir margt til þess að Íslendingar séu mjög framarlega á mörgum sviðum vísinda. Ef við skoðum birtingar á viðurkenndum vettvangi og tilvitnanir í þessar birtingar þá kemur í ljós að íslensk vísindi standa í mörgum tilfellum mjög framarlega. Því hefur hins vegar oft verið haldið fram að við séum ekki nógu góð í að láta rannsóknirnar gera gagn. Ef svo er þá stöndum við frammi fyrir því verkefni að láta þær gera gagn en ég vara við því að líta of þröngum augum á gagnsemi og verðmætasköpun rannsókna. Við viljum bætt samfélag og menningu, betra líf fyrir alla íbúa landsins og því þarf að skilja hugtakið verðmætasköpun víðari skilningi en oft er gert. Við þurfum víðtækari og fjölbreyttari mælikvarða til að meta þau verðmæti sem rannsóknir gefa af sér.

Hvað sem öðru líður þá eru stoðir rannsókna og nýsköpunar á Íslandi styrkar. Nú verðum við að gæta þess að grafa ekki undan þeim á næstu árum og byggja á því sem við gerum vel. Í grunninn gengur stefna ráðsins út á þetta. Að treysta stoðirnar og byggja á þeim.

Ég hef ekki hugsað mér að fara yfir stefnuna lið fyrir lið heldur leggja út af þremur meginstefjum hennar, eða leiðarljósum eins og þau eru kölluð í stefnunni. Þau eru: Samvinna og samnýting; gæði og ávinningur; alþjóðleg vísindi og nýsköpun.

Samvinna og samnýting
Það er mikill fjöldi háskóla og stofnana hér á landi sem hefur það hlutverk að sinna rannsóknum og nýsköpun. Eins er fjöldi sjóða sem kalla eftir umsóknum um styrki til rannsókna- og nýsköpunarverkefna. Við höfum tekið saman yfirlit yfir helstu aðila á þessu sviði og birt með stefnunni. Því hefur oft verið haldið fram, af innlendum aðilum en ekki síður af erlendum sérfræðingum sem hafa komið hingað til að meta rannsókna- og nýsköpunarstarfsemi eða háskólana, að þetta kerfi sé of brotakennt og að samvinna sé allt of lítil milli aðila. Nú er kominn tími til að fá kerfið til að virka betur sem eina heild. Meðal þess sem er verið að hugsa um er aukið samstarf rannsóknastofnana og háskóla. Í mörgum tilfellum er besta aðstaðan og helsta vísindafólkið á ákveðnum sviðum við rannsóknastofnanir sem að auki eru oft í meiri tengslum við atvinnulífið en háskólarnir. Til að nýta betur bestu aðstöðuna og besta fólkið við uppbyggingu rannsókna en ekki síður í rannsóknanámi er mikilvægt að þessir aðilar starfi betur saman. Þróunin undanfarin ár hefur verið í átt að meiri samvinnu en það má gera mun betur.

Að mati ráðsins þarf að skilgreina betur verkefni stofnananna og sérstaklega þá mikilvægu öflun og varðveislu grunngagna sem þar fer fram. Þegar fjallað er um rannsóknir og framlög til rannsókna hjá stofnunum er oft ekki gerður greinarmunur á þessari mikilvægu starfsemi og öðrum rannsóknaverkefnum sem byggja á henni. Gagnaöflun fyrir hafrannsóknir er t.d. umfangsmikil og mjög dýr í eðli sínu. Ráðið leggur því til að þau verkefni sem krefjast langtímafjármögnunar ríkisins verði skilgreind og fjármögnun þeirra tryggð en einnig að uppbygging rannsóknainnviða taki mið af þessum verkefnum. Grunngögn af þessu tagi verða síðan að vera aðgengileg þeim sem hafa getu og vilja til að stunda rannsóknir sem byggjast á þeim.

Aukið samstarf háskóla og rannsóknastofnana eykur möguleikana á því að koma rannsóknum út í atvinnulífið. Þetta gerist þó ekki af sjálfu sér og því er nauðsynlegt að efla þessar stofnanir í að koma þekkingunni í notkun með einkaleyfum eða stofnun nýrra fyrirtækja. Við hvetjum einnig Rannís og Nýsköpunarmiðstöð Íslands, ásamt sjóðunum og stofnunum til að styðja framgang sprotafyrirtækja. Forsendurnar eru fyrir hendi en við getum gert betur með auknu samstarfi og skýrari verkaskiptingu.

Það sem hefur verið sagt hér að ofan um háskóla og stofnanir á líka við um sjóðakerfið. Lagaþrennan frá 2003 um Vísinda- og tækniráð og stuðning við rannsóknir og nýsköpun nær einungis yfir hluta af stofnana- og sjóðakerfinu. Fjöldi annarra sjóða sem velta hundruðum milljóna á ári er utan beins áhrifasviðs ráðsins. Þetta þarf í sjálfu sér ekki að vera slæmt og við vitum að þessir sjóðir eru almennt vel reknir og sinna sínum hlutverkum vel. Þeir eru hins vegar ekki alltaf mjög sýnilegir og geta því gleymst í umræðu um sjóðakerfið. Þegar Rannsóknasjóður og Tækniþróunarsjóður eru gagnrýndir fyrir að styðja ekki nógu vel við ákveðnar rannsóknir þá skiptir máli að vita hvort aðrir sjóðir hafi akkúrat það hlutverk. Að mati ráðsins er því ástæða til að skoða sjóðakerfið í heild sinni, veita greinargott yfirlit yfir sjóðina með skilgreiningum á hlutverkum þeirra og skoða hvort ástæða sé til að efla samstarf þeirra á einhverjum sviðum.

Gæði og ávinningur
Annað meginstef í stefnunni er gæði og ávinningur. Við höfum þegar eytt heilum málfundi í að fjalla um gæði háskólastarfs og í dag er meginumræðuefnið gæði og fjármögnun rannsókna. Gæði eru því mjög ofarlega á baugi hjá okkur þessa dagana. Það hefur oft komið fram að gæði er ekki einfalt hugtak og það er ekkert einfalt að meta gæði. Það er líka erfitt að meta ávinning og jafnvel að skilgreina hvað ávinningur er. Rannsókna- og nýsköpunarstarf er langtímaverkefni sem skilar almennt ekki ávinningi á stuttum tíma. Þetta er ein helsta ástæðan fyrir afskiptum ríkisins að fjármögnun rannsókna og þróunar. Þeir sem leggja til fjármagnið verða að vera mjög þolinmóðir því ekki er alltaf hægt að ganga út frá því að rannsóknir og þróun skili sér í formi betra samfélags eða aukinna verðmæta.

Það skiptir alltaf máli að skoða gæði og ávinning af því sem við erum að leggja opinbert fé í og ekki síst á tímum þegar þrengir að. Ráðið leggur því áherslu á að sjálfstæð greiningarvinna verði efld og að samstarf þeirra aðila sem sinna gagnaöflun um háskóla og rannsóknir – aðallega Hagstofan og Rannís – verði eflt til að bæta öflun og úrvinnslu gagna. Í þessari vinnu er mikilvægt að við skoðum okkur í alþjóðlegu samhengi. Með því er ekki átt við að við eigum að verða eins og allir aðrir – eða einhverjir sem við teljum vera flotta. Við viljum sjá hvar við stöndum í samanburði við aðra. Mæla okkur með sömu einingum og aðrir. Með því móti getum við séð hvar styrkur okkar er og hvar við erum veik fyrir. Slíkar upplýsingar eru mikils virði fyrir alla stefnumótun á Íslandi. Eins og ég nefndi hér á undan erum við þegar að vinna að því að stofna alþjóðlegt gæðaráð fyrir háskólana sem mun hafa sjálfstæði bæði gagnvart ráðuneytinu og háskólunum.

Ráðið leggur til að mat á gæðum og árangri rannsókna, hvar sem þær fara fram, verði haft til hliðsjónar við ákvarðanir um opinberar fjárveitingar til rannsókna. Við eigum eftir að heyra meira um það hér á eftir.

Alþjóðleg vísindi og nýsköpun
Vísindastarfsemi er alþjóðleg eins og hefur oft komið fram. Þau eru kannski misalþjóðleg eftir greinum en alltaf á einn eða annan hátt alþjóðleg. Í núverandi efnahagserfiðleikum er hætta á að fólk flytjist frá Íslandi. Vinnumarkaður vísindamanna er alþjóðlegur og þó að kreppa ríki víða um lönd er fólk með rétta menntun og reynslu enn eftirsóknarvert. Það er sérstakt áhyggjuefni hvað ungt vel menntað og hæft fólk ákveður að gera á næstu árum. Við gætum lent í svipuðum vandræðum og vinir okkar í Færeyjum sem glíma enn við þann fólksflótta sem átti sér stað í þeirra kreppu. Við verðum að huga að því að bjóða fólki tækifæri til að hasla sér völl á Íslandi – að það sjái aðlaðandi framtíð hér á landi.

Um 8% af opinberum framlögum til rannsókna og þróunar fara beint úr landi í formi greiðslna í alþjóðlegar áætlanir sem við getum síðan sótt um styrki úr. Stærsti hlutinn rennur í rammaáætlun Evrópusambandsins. Hingað til hefur okkur tekist að sækja meira heim í styrkjum úr þessum áætlunum en við greiðum í þær. Það er auðvitað góður árangur en við tökum ekki þátt til þess eins að græða krónur og aura á því. Íslensk vísindi og íslensk nýsköpun eflist við alþjóðlegt samstarf. Við viljum efla samstarfið til að efla okkur. Þetta gerist ekki sjálfkrafa, frekar en margt annað. Ráðið leggur því til að farið verði í greiningu á möguleikum okkar í alþjóðlegu samstarfi og hvernig megi bæta stuðning við sókn í alþjóðlegar áætlanir. Ég hef af þessu tilefni skipað starfshóp undir stjórn ráðuneytisstjóra mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem á að fjalla um stefnumótun og stuðning á þessu sviði. Næsti fundur Vísinda- og tækniráðs, sem verður 19. mars nk., mun síðan fjalla um alþjóðamál og álykta um hvernig best er að haga þeim í framtíðinni. Rétt eins og gæðamálin eru ofarlega á baugi þá eru alþjóðamálin meðal þess mikilvægasta sem við fáumst við á næstu vikum.

Sem Norrænn samstarfsráðherra hef ég sérstakan áhuga á Norðurlandamálum. Norræn samvinna byggir í grunninn á menntun, rannsóknum og menningu. Ég hef því lagt áherslu á að alþjóðamálin taki líka inn norrænu víddina. Nú er það svo að sú stefna sem Norðurlöndin hafa tekið í samstarfi um rannsóknir og nýsköpun snýr mjög út á við, frá Norðurlöndum út í heim. Í dag er norrænn fundur í Brussel þar sem fulltrúar Norðurlanda í rannsókna- og menntamálum hittast til að ræða nýja stefnu fyrir norrænt samstarf sem á að taka gildi fyrir árið 2011. Norðurlöndin eru ómetanlegur vettvangur fyrir okkur til að byggja upp samstarf og sækja á ný mið. Við gerum þetta ekki bara til að gagnast okkur hér heima heldur ekki síður til að vera til gagns í heiminum. Við höfum margt að bjóða sem getur gert heiminn betri.

Á fundi Vísinda- og tækniráðs var líka samþykktur vegvísir að uppbyggingu innviða fyrir rannsóknir. Þessi vegvísir er hluti af nýrri stefnu Vísinda- og tækniráðs. Hvernig okkur tekst til á þessu sviði á eftir að skipta miklu fyrir framtíðar uppbyggingu á landinu. Á þessu sviði þurfum við að hugsa alþjóðlega ekki síður en annars staðar. Rannsóknir eru dýrar og það er ekki alltaf skynsamlegasta leiðin að eignast allt sjálfur og eiga heima hjá sér. Við uppbyggingu innviða getum við notið samstarfs við nágranna okkar. Nýlega fengum við tilboð frá frændum okkar í Noregi um aðild að rannsóknasjóði sem styrkir rafræn vísindi og uppbyggingu innviða til að stunda þau – þ.e. vísindi sem byggja á meðhöndlun og greiningu risastórra gagnagrunna og krefjast verulegs reikniafls. Við erum í viðræðum við sjóðinn um hvort og hvernig við getum verið með og mun það mál skýrast fljótlega. Þetta er aðeins eitt lítið dæmi um það hvernig alþjóðlegt samstarf getur gagnast okkur.

Ég hef ekki farið yfir allt sem kemur fram í stefnunni og læt ykkur eftir að kynna ykkur hana. Stefna er lítils virði komist hún ekki í framkvæmd. Vísinda- og tækniráð samþykkti á fundi sínum í september nýtt vinnulag sem á meðal annars að tryggja betri eftirfylgni með stefnu ráðsins. Eftirfylgnin krefst öflugrar skrifstofu sem heldur þráðunum saman. Þó skrifstofa ráðsins sé staðsett í mínu ráðuneyti þá er það samstarfsverkefni margra ráðuneyta undir forystu forsætisráðuneytisins. Nú kemur að því að ráðuneytin taki höndum saman um að hrinda stefnunni í framkvæmd og við vinnum að því þessa dagana að gera áætlun um þau verkefni sem þarf að vinna. Þau eru samt þess eðlis að við þurfum aðstoð vísinda- og nýsköpunarsamfélagsins. Þessi stefna á ekki að vera stefna stjórnvalda sem beinist að ykkur heldur stefna okkar sem beinist að samfélaginu og heiminum öllum. Ég vona að við berum gæfu til að standa styrkum fótum á því sem vel er gert.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta