Ráðherra flytur ávarp á Tónleikum Sinfóníuhljómsveitar tónlistarskólanna í Langholtskirkju 30. janúar 2010
“Músíkin er lífsorka” sagði tónskáldið Jón Leifs. Það á svo sannarlega vel við í dag þegar lífsorka og æskuþrek eitt hundrað ungra tónlistarnema í Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna mun streyma fram í tónum hér á eftir.
Þessi glæsilega hljómsveit sem mynduð er af nemendum tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu er mikilvæg í þjálfun ungra íslenskra tónlistarnema í hljómsveitarleik. Að leika saman í stórri hljómsveit krefst aga, virðingar og samvinnu, sem er mikilvægt vegarnesti út í lífið, hvort sem maður leggur fyrir sig tónlist eða ekki.
Á undanförnum áratugum hefur byggst upp metnaðarfullt tónlistarlíf hér á landi, sem hefur borið hróður Íslands víða og verið mikilvægur menningarauki fyrir þjóðina alla. Velgengni íslenskrar tónlistar og tónlistarmanna hefur sprottið upp úr jarðvegi sívaxandi menntunar og færni, sem ber öflugu starfi tónlistarskólanna fagurt vitni. Lengi býr að fyrstu gerð og mikilvægi tónlistarkennslu verður seint ofmetið.
Tónlistarlíf og annað menningarstarf er ómetanlegt fyrir sjálfmynd þjóðarinnar. Það er því sérstakt tilhlökkunarefni að fá hér að hlýða á tónlistamenn framtíðarinnar, sem meðal annars munu frumflytja nýtt íslenskt verk eftir Snorra Sigfús Birgisson tónskáld.
Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna ber vitni um metnaðarfulla tónlistarkennslu og farsælt samstarf tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu. Vil ég færa öllum sem koma að þessu mikilvæga mennta- og menningarstarfi innilegar árnaðaróskir, sér í lagi hinu unga og efnilega tónlistarfólki sem myndar Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna.