Ráðherra flytur ávarp á Menntadegi iðnaðarins á Grand Hótel Reykjavík 10. febrúar 2010
Fundarstjóri og ágætu gestir á menntadegi iðnaðarins!
Menntun og vöxtur er yfirskrift menntadags iðnaðarins í ár. Í tengslum við hana er spurt hvaða hlutverki skólar gegni í að byggja upp íslenskt atvinnulíf og hvernig menntakerfið geti treyst undirstöður þess. Með beinni vísan í þá lægð sem við upplifum nú í efnahagslífi okkar er jafnframt spurt hvort hagræðingarkrafa í menntakerfinu feli í sér tækifæri til sóknar. Ég tel mikilvægt að við leitumst við að svara þessum spurningum öllum. Við náum því þó tæpast á þeim dagparti sem þessu menntaþingi iðnaðarins er ætlaður. Höldum umræðunni áfram því spurningarnar eru brennandi.
Ég geri ráð fyrir því að allir sem hér eru í dag séu sammála um að menntun sé mikilvæg undirstaða þeirra lífsgæða sem við Íslendingar búum nú við. Á það jafnt við um þau lífsgæði sem mælast á hagrænum mælikvörðum og þeim sem við upplifum í menningarlegum verðmætum. Af menntuninni sprettur mannauður byggður á þekkingu og samspili hugvits og verkvits.
Við blasir að fjárveitingar til framhaldsskóla verða skornar niður nokkur næstu ár. Það hlýtur hins vegar að vera okkur keppikefli að standa þannig að málum að yfirstandandi kreppu sé ekki bara mætt með undanhaldi heldur blásið til sóknar undir nýjum formerkjum. Til þess þurfum við að endurmeta aðstæður og gera það besta úr því sem við höfum. Ný forgangsröðun verður að koma til að einhverju leyti. Það er til að mynda ljóst að ýmis þeirra áforma sem lágu til grundvallar lögum um framhaldsskóla frá 2008 byggðu á forsendum sem ekki eru til staðar lengur. Þannig var talið óhjákvæmilegt að fresta gildistöku reglugerðar um vinnustaðanám. Starfsþjálfun á vinnustað, eða vinnustaðanám, á samkvæmt lögunum að fá hærri sess í starfsmenntuninni. Skólarnir eiga að axla aukna ábyrgð á framkvæmd starfsnámsins í samstarfi við atvinnulífið. Vinnustaðanámssjóður var ræddur í því samhengi sem bakhjarl til að skapa bætta aðstöðu til starfsþjálfunar á vinnustað. Þannig yrði í senn unnt að greiða fyrirtækjum fyrir nemapláss og gera auknar kröfur til þeirra um að starfsþjálfunin uppfylli tilteknar gæðakröfur. Ekki er enn ljóst hvernig fjármagna á svo stóra breytingu en það er til skoðunar. Samtök iðnaðarins hafa þegar stofnað vísi að slíkum sjóði sem styrkir fyrirtæki sem leggja sig fram um að hafa í boði starfsþjálfunarpláss fyrir iðnnema. Af því frumkvæði má áreiðanlega læra og leggja línur um framhaldið.
Nú er nýbúið að skipa í fyrsta sinn starfgreinaráð á grundvelli laga um framhaldsskóla frá 2008. Þeirra bíður það verkefni að móta grundvöll starfsmenntunar í samstarfi við framhaldsskólana og laga starfsmenntunina að breyttum þörfum atvinnulífsins fyrir þekkingu, leikni og hæfni. Nú eiga fulltrúar framhaldsskóla og samtaka kennara í fyrsta sinn sæti í öllum starfsgreinaráðum og tel ég það vænlegt fyrir aukið samstarf skóla og atvinnulífs. Það er einnig nýmæli að formenn hinna nýju starfsgreinaráða munu mynda svokallaða starfsgreinanefnd undir formennsku fulltrúa ráðherra. Starfsgreinanefndin á að vera ráðherra til ráðgjafar um stefnumótun í starfsnámi og framkvæmd þess. Hún á einnig að vera vettvangur samráðs og samræmingar milli starfsgreinaráða. Ég bind vonir við að starfsgreinanefndin eigi eftir að styrkja stöðu starfsmenntunarinnar með því að styrkja sameiginlegar undirstöður hennar. Þar á að vera til staðar vettvangur sem getur látið sig varða framfarir starfsmenntunarinnar í heild, óháð starfsgrein og skipulagi. Þar má til að mynda ræða um undirbúning að stofnun vinnustaðanámssjóðs eins og þess sem áður var drepið á.
Hér á eftir á að ræða ýmis áhugaverð efni er varða skipulag menntunar og þátt hennar í sköpun mannauðsins. Sérstaklega á að ræða skipan iðnmeistaranámsins. Kristrún Ísaksdóttir, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, mun gera grein fyrir vinnu við að fella það nám að skipulagi viðmiðunarramma um íslenska menntun. Mikið starf hefur verið unnið við að skilgreina þann ramma. Í honum felast ýmis tækifæri til nýsköpunar í menntakerfinu. Tækifæri fyrir skólana og aðra sem koma að mótun námsbrauta til að skapa fjölbreytta og sveigjanlega menntun. Tenging námsbrauta, námsáfanga og viðfangsefna við hin ýmsu þrep í viðmiðunarrammanum miða að því að sem eðlilegust samfella verði í þeirri þekkingu, leikni og hæfni sem krafist er á hinum ýmsu þrepum náms upp í gegnum skólakerfið. Mikilvægt er einmitt að skoða slíka samfellu í iðnnáminu, það er frá grunnnámi til sveinsprófs, iðnmeistaraprófs og annars viðbótar- og framhaldsnáms í verk- og tæknigreinum. Ég hef trú á því að tilkoma viðmiðunarrammans eigi eftir að nýtast vel í starfsmenntuninni, bæði við að skapa meiri fjölbreytni í námsframboði og greiðari leiðir til endur- og framhaldsmenntunar.
Ég vil þakka Samtökum iðnaðarins fyrir það ágæta frumkvæði að efna til menntadags iðnaðarins. Með því gefst gott tækifæri til beina sjónum að þeim úrlausnarefnum iðnmenntunarinnar sem efst eru á baugi. Ekki skortir okkur úrlausnarefnin nú á þessum tímum þegar illa árar í efnahag okkar og lægð er í atvinnulífinu. Við þurfum að finna leiðir til að gera sem best úr því sem við höfum. Í því felast sóknarfærin. Við verðum nú sem aldrei fyrr að fara ótroðnar slóðir, takast á við nýjar áskoranir og efla nýsköpun á öllum sviðum menntunarinnar. Orð eru til alls fyrst. Ég vona að umræðan hér á eftir verði hvatning til nýrra og góðra verka.
Gangi ykkur vel og til hamingju með menntadag iðnaðarins.