Ráðherra flytur ávarp á degi menntunar í ferðaþjónustu á Grand Hótel 25. febrúar 2010
Ágætu ráðstefnugestir
Það gleður mig að fá tækifæri til að ávarpa ykkur á degi menntunar í ferðaþjónustu sem Samtök ferðaþjónustunnar standa nú fyrir þriðja árið í röð.
Ferðaþjónustan er orðinn einn mikilvægasti atvinnuvegur hér á landi. Íslendingar ferðast nú meira um eigið land en nokkru sinni fyrr og erlendum ferðamönnum sem sækja Ísland heim fjölgar stöðugt. Samkvæmt nýútkomnum bæklingi frá Ferðamálastofu hefur erlendum ferðamönnum fjölgað um 6,8% á ári að meðaltali sl. 10 ár. Heildarfjöldi erlendra ferðamanna hefur verið í kringum ½ milljón undanfarin ár og með sama vexti má búast við allt að einni milljón erlendra ferðamanna árið 2020.
Ferðaþjónusta er margbrotinn atvinnuvegur með fjölbreyttri starfsemi á ýmsum sviðum. Þar starfar fólk við stjórnun og stefnumörkun, kynningar og auglýsingar, sölustarfsemi og fjármálaumsýslu, leiðsögn og flutninga, veitinga- og gististarfsemi, svo aðeins nokkur svið séu nefnd. Markvisst þróunarstarf, ásamt fjölbreyttu og vönduðu námsframboði, er lykilatriði við að efla þjónustu við ferðamenn.
Margvíslegt námsframboð á sviði ferðaþjónustu og í ferðatengdum greinum er nú að finna bæði í hinu formlega menntakerfi, þ.e. á framhaldsskóla- og háskólastigi, og í óformlega kerfinu, í símenntunarmiðstöðvum víðs vegar um landið. Miklu máli skiptir að góð tengsl og gagnkvæmur skilningur ríki á milli allra helstu aðila sem sinna menntun fyrir málaflokkinn. Dagur menntunar í ferðaþjónustu og sú dagskrá sem hér er í boði gegnir mikilvægu hlutverki í þessa veru.
Málþing um menntun í ferðaþjónustugreinum sem starfsgreinaráð matvæla-, veitinga- og ferðaþjónustugreina og fagaðilar á vinnumarkaði (SAF og SFR) stóðu fyrir á seinasta ári var enn fremur lofsvert framtak. Þangað var boðið fulltrúum allra þeirra sem bjóða nám á sviði ferðamála eða vinna að uppbyggingu slíks náms á framhaldsskólastigi, háskólastigi og innan símenntunar. Svona vettvangur er afar mikilvægur - þessari umræðu þarf að halda áfram og miklu skiptir fyrir framtíðina hvernig ólíkir fræðsluaðilar og skólastig munu vinna saman á komandi árum.
Á undanförnum árum hefur löggjöf um menntamál verið breytt þannig að segja má að allar meginstoðir menntakerfisins hafi verið teknar til endurskoðunar.
Nám alla ævi er lykilatriði í þeirri menntastefnu sem framangreind löggjöf byggist á. Heildstæð löggjöf gefur aukna möguleika á að skoða menntamál einstakra starfsstétta í heild sinni og stuðla að samfellu í námi og sveigjanleika í mati og gagnkvæmri viðurkenningu á námi einstaklinga.
Í ráðuneyti mennta- og menningarmála hefur verið unnið mikið starf við að skilgreina viðmiðunarramma um íslenska menntun. Í honum felast ýmis tækifæri til nýsköpunar í menntakerfinu. Tækifæri fyrir skólana og aðra sem koma að mótun námsbrauta til að skapa fjölbreytta og sveigjanlega menntun. Tenging námsbrauta, námsáfanga og viðfangsefna við hin ýmsu þrep í viðmiðunarrammanum miða að því að sem eðlilegust samfella verði í þeirri þekkingu, leikni og hæfni sem krafist er á hinum ýmsu þrepum náms upp í gegnum menntakerfið. Mikilvægt er einmitt að skoða slíkt starfsnám á sviði ferðaþjónustu í þessu ljósi og verður fróðlegt að kynnast hugmyndum Menntaskólans í Kópavogi um nýja ferðaþjónustubraut sem kynnt verður hér á eftir.
Nú er nýbúið að skipa í fyrsta sinn starfgreinaráð á grundvelli laga um framhaldsskóla frá 2008. Þeirra bíður það verkefni að móta grundvöll starfsmenntunar í samstarfi við framhaldsskólana og laga starfsmenntunina að breyttum þörfum atvinnulífsins fyrir þekkingu, leikni og hæfni. Nú eiga fulltrúar framhaldsskóla og samtaka kennara í fyrsta sinn sæti í öllum starfsgreinaráðum og tel ég það vænlegt fyrir aukið samstarf skóla og atvinnulífs. Það er einnig nýmæli að formenn hinna nýju starfsgreinaráða munu mynda svokallaða starfsgreinanefnd undir formennsku fulltrúa ráðherra. Starfsgreinanefndin á að vera ráðherra til ráðgjafar um stefnumótun í starfsnámi og framkvæmd þess. Hún á einnig að vera vettvangur samráðs og samræmingar milli starfsgreinaráða. Ég bind vonir við að starfsgreinanefndin eigi eftir að styrkja stöðu starfsmenntunarinnar með því að styrkja sameiginlegar undirstöður hennar. Þar á að vera til staðar vettvangur sem getur látið sig varða framfarir starfsmenntunarinnar í heild, óháð starfsgrein og skipulagi.
Við blasir að fjárveitingar til menntamála verða skornar niður nokkur næstu ár. Það hlýtur hins vegar að vera okkur keppikefli að standa þannig að málum að yfirstandandi kreppu sé ekki bara mætt með undanhaldi heldur blásið til sóknar undir nýjum formerkjum. Til þess þurfum við að endurmeta aðstæður og gera það besta úr því sem við höfum. Ný forgangsröðun verður að koma til að einhverju leyti. Það er til að mynda ljóst að ýmis þeirra áforma sem lágu til grundvallar lögum um framhaldsskóla frá 2008 byggðu á forsendum sem ekki eru til staðar lengur.
Í þessu ljósi er mikilvægt að ræða sérstaklega mikilvægi starfsmenntunar í ferðaþjónustu á krepputímum sem er eitt þeirra áhugaverða erinda sem flutt verða hér á eftir.
Ég vil þakka Samtökum ferðaþjónustunnar fyrir það ágæta frumkvæði að efna til þessarar ráðstefnu. Með því gefst gott tækifæri til beina sjónum að þeim úrlausnarefnum sem efst eru á baugi. Við þurfum að finna leiðir til að gera sem best úr því sem við höfum. Í því felast sóknarfærin. Við verðum nú sem aldrei fyrr að fara ótroðnar slóðir, takast á við nýjar áskoranir og efla nýsköpun á öllum sviðum menntunarinnar. Orð eru til alls fyrst. Ég vona að umræðan hér á eftir verði hvatning til nýrra og góðra verka.
Gangi ykkur vel og til hamingju með dag menntunar í ferðaþjónustu.