Ráðherra opnar sýningu íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar í Listasafn Íslands 25. febrúar 2010
Góðir gestir,
Það er mér sönn ánægja að fá að opna sýninguna Íslensk kvikmyndaverk 2007 – 2009 hér í Listasafni Íslands.
Á þessari yfirgripsmiklu sýningu getur fólk séð brot úr um 150 kvikmyndaverkum sem framleidd hafa verið hér á landi á síðustu þremur árum, þ.e. kvikmyndum, heimildamyndum, stuttmyndum og sjónvarpsþáttum.
Það er því um auðugan garð að gresja og ljóst að mikill kraftur hefur verið í íslenskri kvikmyndagerð á þessum þremur árum.
Þrátt fyrir niðurskurð til þessarar greinar á fjárlögum ársins á sjónvarpssjóður að geta sinnt því hlutverki sínu að koma að því að nýtt leikið íslenskt sjónvarpsefni verði reglulega frumsýnt í íslensku sjónvarpi.
Íslensk kvikmyndagerð þarf að taka á sig tímabundin áföll þessi misserin, eins og svo margir aðrir í íslensku samfélagi, en þetta vegarnesti undanfarinna ára fyllir mann bjartsýni.
Þá er ánægjulegt að tilkynna það hér við þetta tilefni að ákveðið hefur verið að veita eftirstöðvum Menningarsjóðs útvarpsstöðva til framleiðslu innlends dagskrárefnis. Það verður gert í tveimur úthlutunum, 40 milljónir króna í hvort skipti, á þessu ári og því næsta. Ég mun á næstunni skipa sjóðnum nýja stjórn og verður fyrsta úthlutunin auglýst í kjölfarið.