Ráðherra flytur ávarp á fundi skólastjórafélags Suðurlands í Ráðhúskaffi á Þorlákshöfn 26. febrúar 2010
Félagsfundur Skólastjórafélags Suðurlands
Ágætu skólastjórar
Ég vil byrja á því að þakka fyrir tækifærið til að koma hingað til ykkar. Til stóð að ég myndi hitta ykkur á síðasta ári en því miður gafst ekki ráðrúm til þess.
Ég hef nú verið rúmlega eitt ár í embætti mennta- og menningarmálaráðherra. Þetta ár hefur verið afskaplega lærdómsríkur tími og ég er þakklát fyrir að auðnast það tækifæri að fá að hafa áhrif á mótun skólastarfs og á komandi kynslóðir. Að hitta ykkur hér í dag til að fjalla um skólamál er í þessu tilliti mikilvægt fyrir mig og vonandi einnig fyrir ykkur líka.
Mikilvægt er að hafa í huga að forsenda góðrar menntunar og velferðar nemenda er sameiginlegt verkefni margra aðila og þarf samstarfið að byggjast á virðingu, trausti, samábyrgð og gagnkvæmri upplýsingamiðlun. Sem stjórnendur grunnskóla berið þið mikla ábyrgð. Þið eruð í raun leiðtogar í skólastarfi en um leið verndarar og leiðsagnaraðilar í þeim skilningi að ykkar ber að standa vörð um það meginhlutverk skóla að hlúa að og efla þroska og menntun barna og ungmenna þannig að hver og einn einstaklingur fái blómstrað á eigin forsendum en læri jafnframt að lifa í lýðræðislegu þjóðfélagi í sífelldri þróun. Aukin áhersla er einnig á velferð í skólum og skýrari ákvæði er að finna um hlutverk skólastjóra.
Þrátt fyrir nýja löggjöf þurfum við sem störfum að skólamálum stöðugt að velta fyrir okkur hvernig best verður komið til móts við þarfir nemenda og tryggja sem best að þeir hljóti þá menntun sem þeir eiga rétt á og þurfa á að halda til að geta haldið áfram í námi og haldið af stað út í lífið. Nemendur þurfa nú að vera í stakk búnir, eins og áður segir, til að taka virkan þátt í samfélagi sem er í sífelldri þróun og aðlagast hratt breyttum aðstæðum, tíðaranda og efnahag sem dæmin sanna, jafnt á góðæris- og þrengingartímum. Við þurfum á því að halda að horfa fram á veginn og velta fyrir okkur hvað það er sem skiptir mestu máli, hvernig við búum börnunum okkar best í haginn til að þau geti staðið á eigin fótum í þeim verkefnum sem þau taka þátt í síðar á lífsleiðinni.
Mikil vinna hefur farið í það undanfarin misseri að smíða reglugerðir við lögin sem gefa okkur nánari fyrirmæli um vilja löggjafans í skólastarfi. Búið er að gefa út flestar reglugerðir við nýju menntalögin og vinna við þær sem eftir eru langt komnar, t.d. reglugerðir um sérfræðiþjónustu sem verður sameiginleg fyrir leik- og grunnskóla og reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla og reglugerð um undanþágunefnd grunnskóla. Mjög góð samvinna hefur verið með ráðuneytinu og hagsmunaaðilum skólamála í þessari vinnu, þ.m.t. fulltrúa Skólastjórafélags Íslands. Styst er komin reglugerð um ábyrgð nemenda sem sett er með stoð í 14. gr. grunnskólalaganna og er m.a. ætlað að taka við af gildandi reglugerð um skólareglur frá árinu 2000. Ráðuneytið leggur áherslu á víðtækt samráð við hagsmunaaðila um setningu þeirrar reglugerðar, sem m.a. gæti náð yfir ýmsa þætti óæskilegrar hegðunar í skólastarfi, t.d. með skýrari viðmiðunum um góðan skólabrag, aðgerðir gegn einelti og öðru ofbeldi og viðbrögð við erfiðum aðstæðum vegna agabrota. Þess er vænst að drög að slíkri reglugerð verði tilbúin í vor og fylgt rækilega eftir á næsta skólaári í samráði við hagsmunaaðila. Mikilvægt er að fá að heyra ábendingar frá skólastjórum um efnisatriði í þessa reglugerð.
Annar flötur á innleiðingu menntastefnunnar sem lögfest var árið 2008 felst í að endurskoða þarf aðalnámskrár skólastiganna. Sú vinna er nú að komast á fullt skrið og hef ég nýlega skipað ritnefndir fyrir hvert skólastig sem í sitja fulltrúar ráðuneytisins og sérfræðingar utan þess.
Við endurskoðun aðalnámskrár fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla á m.a. að taka mið af niðurstöðum vinnuhópa sem ég setti upp á síðasta ári til að skilgreina fimm grunnþætti menntakerfisins.
Grunnþættirnir taka mið af áherslum í markmiðsgreinum laganna og eiga að einkenna allt skólastarf og ganga þvert á allt skólastarf. Þeir eru læsi í víðum skilningi, lýðræði, jafnrétti, menntun til sjálfbærni og skapandi skólastarf. Þessi hugtök hafa að mínu mati hingað til ekki fengið nægilega áherslu í eldri námskrám og ekki verið fylgt eftir með markvissum hætti.
Þótt grunnþættirnir fimm – lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, læsi, menntun til sjálfbærni og skapandi starf – séu settir fram sem einstakir þættir er gert ráð fyrir að þeir tengist innbyrðis í menntun og skólastarfi. Í reynd eru þeir allir nátengdir og innbyrðis háðir. Lýðræði og jafnrétti eru nátengd hugtök sem hluti af mannréttindum. Menntun til sjálfbærni tekur til allra þáttanna fimm. Sjálfbærni snýst ekki einungis um umhverfið heldur einnig um ábyrgð, virðingu og lýðræðisleg vinnubrögð og réttlæti gagnvart komandi kynslóðum. Skapandi skólastarf er ekki einungis bundið við kennslu í listgreinum heldur á það við sem skapandi þáttur almennt í allri menntun. Læsi í víðum skilningi höfðar til þess að hver einstaklingur hafi hæfni til að skynja og skilja umhverfi sitt á gagnrýnin hátt. Í því samhengi má t.d. nefna fjölmiðlalæsi, fjármálalæsi, stjórnmálalæsi og hæfni til að vera læs á umhverfið, náttúruna og samfélagið. Gert er ráð fyrir að þessi áhersla á fimm meginstoðir menntakerfisins birtist í sameiginlegum almennum hluta aðalnámskrár fyrir leik, grunn- og framhaldsskóla.
Ráðuneytið væntir áframhaldandi góðs samstarfs við hagsmunaaðila skólamála í þessari vinnu. Mikilvægur þáttur í því starfi er samtal um tengsl aðalnámskrár sem ráðuneytið gefur út og skólastefnu sveitarfélaga og skólanámskrár einstakra skóla sem skólastjórar eru ábyrgir fyrir að gerðar séu.
Ég hef ákveðið að skapa vettvang m.a. fyrir slík skoðanaskipti föstudaginn 5. mars nk. í Valsheimilinu að Hlíðarenda í Reykjavík. Yfirskrift menntaþingsins er heildstæð menntun á umbrotatímum og er tilgangur þess að efna til opinnar umræðu um menntastefnu. Kynntar verða áherslur í nýjum námskrám allra skólastiga og afrakstur af þjóðfundum um menntamál. Í þremur málstofum verða ýmis álitamál reifuð og rædd sem varða m.a. aðstæður í skólasamfélaginu og velferð í skólum.
Um leið og ég hvet ykkur til að taka þátt í þeirri samræðu vænti ég þess að þingið sæki fjölbreyttur hópur hagsmunaaðila og verði árangursríkur vettvangur til að fá fram upplýsingar um stöðu mála, stilla saman strengi og skiptast á skoðunum um ýmis álitamál sem tengjast menntun.
Rétt er einnig að segja ykkur frá því að ég hef nýlega skipað samráðsnefnd leik- og grunnskóla. Hlutverk nefndarinnar er að vera umræðu- og samstarfsvettvangur aðila um ýmis fagleg málefni leikskóla og grunnskóla, vettvangur fyrir samráð og umræður þar sem hægt er að taka fyrir einstök mál, skiptast á skoðunum og veita upplýsingar, skýra mismunandi sjónarmið, vekja athygli á málum og finna ýmsum úrlausnarefnum réttan farveg. Í nefndinni sitja fulltrúar ráðuneytisins, Kennarasambands Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Heimilis og skóla, Samtaka sjálfstæðra skóla og Eflingar - stéttarfélags.
Áður en ég lýk máli mínu hér í dag langar mig að nefna tvö mál sem ég veit að þið hafið verulegar áhyggjur af. Annað málið varðar fósturbörn og hitt takmarkað aðgengi grunnskólanema að framhaldsskólaáföngum.
Í ályktun sem félagið ykkar sendi mér í nóvember á síðasta ári er því mótmælt að viðtökusveitarfélag fósturbarna þurfi að bera allan almennan kostnað af skólagöngu og skólaakstri viðkomandi barna. En ályktunin kemur í kjölfar álits ráðuneytisins á erindi sem því barst þar sem óskað var eftir túlkun ráðuneytisins á nýju ákvæði 5. gr. grunnskólalaganna að því er tekur til skólagöngu fósturbarna.
Um þetta mál vil ég segja að ég get fyllilega tekið undir sjónarmið ykkar og tel í raun með öllu óeðlilegt að koma málum þannig fyrir að viðtökusveitarfélag þurfi að standa undir öllum venjubundnum skólakostnaði fósturbarna í stað lögheimilissveitarfélags. Fjárhagslega getur þetta reynst sveitarfélögum, sérstaklega þeim fámennari, mjög erfitt. Ég hef nú þegar fundað með félagsmálaráðherra, sem fer með yfirstjórn barnaverndarmála um málið til að finna málinu réttmæta lausn. Niðurstaðan af þeim fundi var sú að félagsmálaráðuneytið sendi erindi til Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem kallað var eftir tillögum sambandsins um hvernig það telji þessu málefni best fyrir komið í lögum en eins og fram kom í áliti ráðuneytisins þá fer um þessi mál samkvæmt barnaverndarlögum. Frestur var veittur til 8. febrúar þannig að ég vænti þess að málið sé komið á ákveðinn rekspöl.
En almennt vil ég um þetta mál segja að ég hef mikinn skilning á þeirri stöðu sem upp getur komið þegar finna þarf barni fósturúrræði fjarri heimili sínu, stundum með stuttum fyrirvara. Þrátt fyrir það er það að mínu mati grundvallaratriði að samhliða því að finna fósturúrræði verði að finna lausn á skólaúrræði en réttur nemenda til skólagöngu er skýr í grunnskólalögum. Annað fyrirkomulag er ávísun á ágreining milli sveitarfélaga, getur lengt þann tíma sem tekur að tryggja barni skólavist og þannig ekki í þágu barnanna sjálfra.
Hitt málefnið varðar möguleika grunnskólanemenda til að taka framhaldsskólaáfanga. Eins og engu okkar hér dylst þá lifum við nú á umbrota- og niðurskurðartímum, vonandi þó tímabundið. Á sama tíma og ríki og sveitarfélög vinna að því að innleiða metnaðarfulla menntastefnu þá blasir við okkur sá raunveruleiki að þurfa að draga saman seglin, fjárhagslega, en gæta þess jafnframt á sama tíma að standa vörð um grunnþjónustu skólanna eins og hún hefur verið skilgreind. Þetta er ekki létt verk.
Í fjárlögum ársins 2010 er ekki gert ráð fyrir framlögum til framhaldsskólans vegna náms nemenda grunnskólans sem stundað er í vali við framhaldsskóla. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur bent á að ákvæði 26. gr. grunnskólalaganna mæli fyrir um „rétt“ nemenda til náms í framhaldsskóla og því sé með þessari ráðstöfun verið að brjóta rétt á nemendum. Með þessari ráðstöfun af hálfu ríkisins sé jafnframt verið að draga úr möguleikum sveitarfélaga til hagræðingar innan grunnskólans. Gert er ráð fyrir að með þessari ákvörðun spari ríkið um 70 millj. kr. Hins vegar er ekkert sem bannar framhaldsskólum að bjóða grunnskólanemendum áfram upp á þessa þjónustu ef þeir telja sig geta annast hana innan fjárheimilda.
Rétt er að vekja athygli á því að námslengd og skil milli skólastiga fá sérstakt vægi á menntaþinginu.
Að lokum vil ég segja þetta. Grunnskólar eru ein mikilvægasta grunnstoð samfélagsins. Hlutverk ykkar í að fóstra þessa grunnstoð er sérstaklega mikilvægt nú um mundir. Ég óska ykkur velfarnaðar í þeim verkefnum og tel jafnframt mikilvægt að allir aðilar vinni vel og samstiga að þeim málum með velferð og menntun barna að leiðarljósi.
Takk fyrir.