Ráðherra flytur ávarp á Sundþingi Sundsambands Íslands 27. febrúar 2010
Það er heiður að fá að ávarpa ykkur hér í dag.
Sundíþróttin hefur frá byggingu landsins gegnt miklu hlutverki í sögu Íslendinga. Getið er um sundgarpa í Íslendingasögum og er Drangeyjarsund Grettis Ásmundarsonar líklega þekktasta sundafrekið í sögunum. Að kunna að synda hefur þótt vera lífsnauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga sérstaklega með tilliti til legu landsins og þeirrar staðreyndar að sjósókn hefur verið okkar helsta lífsviðurværi síðustu tvær aldirnar. Enda fór það svo að þegar menntun var að byggjast hér upp og þróast í aldanna rás í lok 19. aldar og í byrjun þeirrar 20., að sund varð hluti af menntun barna og ungmenna.
Mikilvægi íþrótta almennt í menntun barna og ungmenna er mjög mikið. Sérstaklega nú á tímum þegar lífstíll fólks hefur á undanförnum árum breyst og færst í átt til meiri kyrrsetu bæði í atvinnu og í frítíma með þeim afleiðingum að heilsufari og þekkingu fólks almennt á gildi íþrótta, líkams- og heilsurækt hefur hrakað. Vissulega verður að gera ráð fyrir því að rauður þráður í menntun hvers og eins sé ekki síst fólginn í því að afla sér þekkingar á heilbrigðum lífsstíl og iðka íþróttir sér til ánægju og heilsubótar.
Hlutverk þeirra sem kenna íþróttir í skólum og þjálfa íþróttagreinar er margþætt. Það er m.a. að kenna gildi íþrótta sem tæki í uppbyggingu einstaklingsins, kenna aðferðir til þess að ná árangri með sjálfan sig, árangri sem dugar til lengri tíma og þá gildir einu hvaða íþróttagrein eða hreyfingu viðkomandi hefur áhuga á. Íþróttakennarinn, sundþjálfarinn, knattspyrnuþjálfarinn, allir þessir aðilar eiga að kenna aðferðir sem efla andlega og líkamlega hæfni sem dugar til langframa.
Bæði afreksfólk og góðir þjóðfélagsþegnar verða þá aðeins til ef unnið er skynsamlega með alla þá þætti sem gera það að verkum að einstaklingur nær að þroska þá hæfileika sem hann býr yfir. Mig langaði að nefna þetta sérstaklega með það í huga að hvetja bæði ykkur í sundhreyfingunni og ekki síður aðra í íþróttahreyfingunni að huga mjög vel að menntun þjálfara og fara yfir áherslur í henni því við viljum öll að börnin okkar geti lagt stund á sund og aðrar íþróttagreinar undir handleiðslu hæfra þjálfara sem vinna með jákvæð gildi og víðsýni að leiðarljósi.
Íþróttahreyfingin hefur nú sem áður stóru hlutverki að gegna í samfélaginu. Það er eilífðarverkefni að auka áhuga barna og unglinga á þátttöku í íþróttum og heilsutengdri hreyfingu. Ég hef orðið vör við það að áhugi almennings á hreyfingu hefur verið að vakna frekar og þátttökutölur í Lífshlaupinu ýta undir þá sannfæringu mína að fólk vill huga betur að þessum þætti. Heilsutengd þjálfun almennings í almenningsíþróttadeildum íþróttafélaga fer vaxandi og æ fleiri sækja í skokkhópa, sjósundshópa og aðra heilsutengda þjálfun sem skipulögð er á vegum íþróttafélaga. Ég veit að sundhreyfingin hefur gert mjög margt til þess að höfða til almennings t.d. með sjósundi og sjóböðum sem eru að aukast að vinsældum og garpasundið hefur fyrir löngu sannað gildi sitt.
Ég ætla ekki að fjalla mikið um þjóðfélagsástandið hér en vil þó nefna að í vefkönnun meðal íþróttafélaga sem við í ráðuneytinu framkvæmdum í nóvember sl. kom fram að þátttaka meðal barna og ungmenna í íþróttum hefur ekki minnkað. Það eru vissulega jákvæðar fréttir þrátt fyrir niðurskurð á öllum sviðum þjóðlífsins. Okkur tókst í síðustu fjárlögum að verja öll verkefni ríkisins á íþróttasviði þó að niðurskurður hafi verið talsverður. Við þurfum samt sem áður að fylgjast með þróun mála og er það keppikefli okkar að verja íþróttastarf barna og ungmenna í samfélaginu.
Sund á Íslandi byggist á gamalli hefð, hefð sem sundsambandið hefur unnið dyggilega að því að viðhalda. Sundáhugi á Íslandi hefur alltaf verið mikill enda eru sundlaugar í flestum sveitarfélögum um land allt. Grunnurinn fyrir sundhreyfinguna til góðra starfa er þess vegna góður. Ég þakka fyrir mig og óska ykkur velfarnaðar í þeim þingstörfum sem framundan eru.