Ávarp ráðherra í tilefni af útgáfu bókar um rannsóknina á Hofstöðum, 19. mars 2010
19. mars, sýningarsalur Aðalstræti
Móttaka Fornleifastofnunar Íslands í tilefni af útgáfu bókar um rannsóknina á Hofstöðum
Það er ekki á hverjum degi sem við höfum tækifæri til að fagna útgáfu á vönduðu fræðiriti á sviði íslenskrar menningarsögu, hvað þá á sviði fornleifafræðinnar. Þá er það einnig áhugavert við þá merkilegu útgáfu um rannsóknir á Hofstöðum sem hér er verið að kynna að hún tengist með beinum hætti upphafi vísindalegra fornleifafræðirannsókna hér á landi, þegar þeir Finnur Jónsson og Daniel Bruun hófu rannsóknir á þessum stað 1908; við erum því í og með að fagna rúmlega aldarlangri sögu fræðilegra rannsókna á þessu sviði hér á landi.
Það er nokkuð um liðið síðan gerð hefur verið grein fyrir niðurstöðum fornleifarannsóknar hér á landi í bókarformi, og sjaldan í jafn glæsilegu og jafn læsilegu formi og hér um ræðir. Þá vekur athygli hversu alþjóðlegt þetta verkefni hefur verið. Það hefur dregið að sér mikinn fjölda innlendra og erlendra sérfræðinga, eins og sést á þeim langa lista þeirra sem hafa lagt hönd á plóginn, en þar eru taldir til alls 45 höfundar efnis í bókinni, sem ritstjórinn, Gavin Lucas, hefur fengið til verks. Ég vil óska öllu þessa góða fólki til hamingju með árangurinn, ásamt þeim fjölmörgu öðrum sem komu að því mikla verki sem hér er greint frá.
Í frægri tilvitnun um fornleifafræði segir eitthvað á þessa leið: „Fornleifafræðin felst í leit að staðreyndum ? ekki sannleika. Ef þú ert á höttunum eftir sannleikanum fer kennsla í heimspeki fram í kennslustofu hér neðar á ganginum.“ - Þó að þessi orð séu lögð í munn einhvers ótrúlegasta fornleifafræðings síðari tíma, sjálfs Indiana Jones, leynist í þeim sannleikskorn, því þær staðreyndir sem fornleifafræðin leiðir í ljós hafa oftar en ekki stangast á við almennt viðurkenndan sannleik sögunnar. Við þekkjum þetta vel í fræðimennsku síðustu ára; fornleifarannsóknir hafa leitt í ljós ýmsar staðreyndir sem ekki falla að viðteknum sannleik íslenskrar sögu, og því lifum við nú á skemmtilegum tímum sögulegrar endurskoðunar hér á landi, sem ekki sér fyrir endann á.
Leit fornleifafræðinnar að staðreyndum tekur hins vegar sinn tíma, og hér má segja að teknar séu saman niðurstöður uppgraftar sem hófst að nýju 1991 og stóð með hléum í rúman áratug; úrvinnslan hefur síðan einnig verið tímafrek. Þetta er mikilvægt að hafa í huga, því fornleifarannsóknir eru í eðli sínu langtímaverkefni, og þurfa þolinmótt fjármagn eins og það er kallað. Stuðningur Rannís við Hofstaðaverkefnið hefur verið þess eðlis, og ber að þakka hann sérstaklega, jafnframt því sem annar stuðningur innlendra, norrænna og bandarískra vísindasjóða hefur einnig verið afar mikilvægur fyrir framgang rannsóknanna.
Þó að Indiana Jones sé að sjálfsögðu ýkt dæmi vita allir viðstaddir að fornleifafræðingar eru oftar en ekki ólíkindatól og binda bagga sína ekki allir sömu hnútum. Hver hefur sína skoðun á hvernig stjórnkerfið eigi að vera á þessu sviði, bæði hvað varðar leyfisveitingar, úthlutanir sjóða, eftirlit og hver má gera hvað. Ég hef fulla trú á að skoðanaskipti um slík mál geti verið frjór vettvangur framfara fremur en skotgrafir lamandi stöðnunar, og vænti þess að á þessu sviði sem öðrum miði okkur fram á við. Á síðasta ári voru lögð fram til kynningar frumvörp til nýrra laga um menningarminjar, og ráðuneytinu bárust margar gagnlegar ábendingar um það sem betur mætti fara. Þó að ekki hafi tekist á afgreiða þau frumvörp sem lög á liðnu þingi má segja að tíminn hafi unnið með okkur og vonandi verða frumvörpin betri til síns brúks eftir þá endurskoðun sem staðið hefur yfir síðan. Þau verða brátt lögð fram til kynningar á ný, og stefnt er að því að hin nýju frumvörp á sviði menningarminja og safnamála verði lögð fram til afgreiðslu á komandi hausti.
Góðir gestir
Ég vil óska öllum aðstandendum rannsóknarinnar á Hofstöðum til hamingju með daginn, þá glæsilegu útgáfu sem við höfum hér í höndunum og þann áfanga sem hún stendur fyrir. Ég vil einnig láta í ljós þá von að við fáum í framtíðinni fleiri tilefni til að fagna stórum áföngum á sviði fornleifarannsókna.
Takk fyrir.