Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. apríl 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra opnar listviðburð sem nefnist Dyndilyndi sem er hluti af barnamenningarhátíð 17. apríl 2010

Dyndilyndi - listviðburður á barnamenningarhátíð

Ágæta unga listafólk og aðrir góðir gestir

Það er alltaf tilefni til hátíðar þegar börn fá að njóta sín í skapandi starfi; þau takast á við undarlega hluti án fórdóma eða tilvísunar til rökfræði, án þess að hugsa um kostnað eða notagildi, og úr vinnu þeirra spretta furðulegir heimar sem við getum öll dáðst að. Hverjir aðrir en börn geta hannað hús fyrir marglyttur og mýflugur, skoðað veröld fjallasela og sundtök laxamóður, þannig að afraksturinn sé jafn frábær og við getum séð hér í dag?

Alla vega ekki við fullorðna fólkið; það vill oft verða nokkuð djúpt niður á barnsvitundina hjá okkur flestum. Við erum of raunsæ, of bundin því sem skynsemin segir okkur – fullorðið fólk er einfaldlega oft svo leiðinlegt að börnin sjá ekkert eftirsóknarvert við það að verða eitt af okkur. Og það er mikill sannleikur í því sem rithöfundurinn Antoine de Saint-Exupery sagði í sögunni um Litla Prinsinn, sem öll börn þekkja: „Fullorðnir skilja aldrei neitt sjálfir, og það er afar þreytandi fyrir börn að vera sínkt og heilagt að útskýra hlutina fyrir þeim.“

Ég vona að öll þau fjölmörgu börn sem eiga hlut að þessum mikla listviðburði sem hér verður í gangi næstu 16 dagana verði þolinmóð við okkur fullorðna fólkið og útskýri vel og rækilega fyrir okkur það sem fyrir augu ber; ég er er viss um að fullorðna fólkið verður afar þakklátt fyrir að fá að njóta þess með ykkur börnunum sem þið hafið gert.
Þetta verkefni er hluti af mikilli barnamenningarhátíð sem verður sett með pompi og prakt á mánudaginn kemur og ég óska öllum til hamingju með þá miklu dagskrá sem framundan er.

Góða skemmtun !



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta