Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. apríl 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ávarp ráðherra á ársfundi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 21. apríl 2010

Ársfundur Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum


Ég vil óska öllum viðstöddum til hamingju með daginn; það fer vel á að ársfund Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og upphaf bókaviku hér á landi beri upp á sama dag við lok vetrar því stofnunin og bókavikan vísa bæði til þess grundvallar sem hið ritaða orð hefur verið fyrir íslenska menningu, og mun verða um ókomna tíð. Þetta kom skýrt fram við undirbúning þeirrar löggjafar um stofnunina sem gekk í gildi 1. september 2006: í athugasemdum við frumvarpið sagði að megin-markmiðið væri að skapa öfluga háskólastofnun sem byggðist á helstu undirstöðum íslenskrar menningar: tungumálinu og fornbókmenntunum.

Þó að enn sé mikið verk framundan hefur ýmislegt áunnist eins og fram hefur komið hér í morgun að; rannsóknir blómstra, þjónusta við almenning vex og safnið stækkar. Þetta gerist á grundvelli þeirra miklu verðmæta sem stofnunin geymir samviskusamlega í handritum, örnefna-skrám, þjóðfræðiefni og orðasöfnum – auðæfum sem gera okkur að ríkri þjóð meðal þjóða því hér er um að ræða það ríkidæmi sem öllu skiptir. Sagan sýnir nefnilega að á endanum eru verðleikar þjóða ekki metnir á grunni landfræðilegrar stærðar, efnahagslegrar velgengni, sjálfumgleði eða hernaðarsigra, heldur á grundvelli þeirrar menningar sem þær fóstra og menningarverðmæta sem kynslóðirnar skilja eftir sig.

Það var ef til vill með tilvísun til þessa sem ríkisstjórn Íslands samþykkti 25. janúar 2008 að taka þátt í að tilnefna handritasafn Árna Magnússonar í Reykjavík og í Kaupmannhöfn á sérstaka varðveisluskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu Þjóðanna, UNESCO, Memory of World Register. Handritasafnið var síðan tekið inn á þessa skrá á síðasta sumri og þar sómir það sér vel í hópi 35 verka sem stofnunin telur hafa sérstakt gildi fyrir sögu og menningararf heimsins. Þó þessi skráning hafi ef til vill farið nokkuð hljótt í íslenskum fjölmiðlum er mér til efs að íslenskur menningararfur hafi fengið meiri viðurkenningu en felst í þessari skráningu og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er falin mikil ábyrgð við að tryggja þessi gögn fyrir kynslóðir framtíðarinnar.

Þegar lögin um stofnunina voru sett var tekið fram að hún skyldi flytjast í nýja byggingu á svæði Háskóla Íslands og til hennar var ætlað nokkuð af söluandvirði Landsíma Íslands hf. Eins og fleiri áætlanir í íslensku þjóðfélagi undanfarin ár hefur þessi farið úr skorðum en Hús íslenskra fræða er þó á dagskrá, eins og viðstaddir vita, og það er hálfur sigur. Samkeppni var haldin um bygginguna og hönnun hennar hófst í janúar á síðasta ári. Það er nú þegar ljóst að húsið brýtur að mörgu leyti blað við hönnun opinberra bygginga hér á landi því það verður hið fyrsta sem er hannað samkvæmt ströngum umhverfisvottunarstöðlum sem miða að gerð vistvænna, heilnæmra og öruggra bygginga, draga úr rekstrarkostnaði og almennt bæta vinnubrögð við hönnun, framkvæmd og rekstur. Það er von mín að sem fyrst verði hægt að taka ákvörðun um framkvæmdir við þessa mikilvægu byggingu – og ég er þess fullviss að við eigum eftir að verða stolt af.

Góðir gestir,

Handritin væru lítils metin ef enginn fengi að sjá þau. Þó öryggi skipti öllu þá er aðgengi ekki síður mikilvægt öllum þeim sem vilja kynna sér þennan menningararf, bæði hér á landi og annars staðar. Sá handritavefur sem við fögnum í dag er því mikilsverður áfangi á þeirri leið að opna þennan fjársjóð öllum þeim sem hann vilja skoða. Við höfum hér á undan fengið góða lýsingu á vefnum www.handrit.org og nú er ekkert annað eftir en að opna hann formlega, sem ég geri hér með, og fá að skoða gullin sem þessi kista hefur að geyma!
Takk fyrir!




Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta