Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. apríl 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra opnar viku bókarinnar í Austurbæjarskóla 21. apríl 2010

Kæru nemendur í Austurbæjarskóla! Til hamingju með 80 ára afmælið !

„Blindur er bóklaus maður“ segir málsháttur sem höfum oft á lofti og víst er að helstu undirstöður íslenskrar menningar eru tungumálið og bókmenntaarfurinn.

Það er mér sönn ánægja að opna nú Viku bókarinnar 2010 en forsaga hennar er að árið 1995 samþykkti menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, að 23. apríl yrði framvegis alþjóðlegur dagur bóka og höfundarréttar og var hann fyrst haldinn árið 1996.

23. apríl er dánardægur tveggja heimsþekktra rithöfunda, Cervantes og Shakespeares sem báðir létust 1616 en svo vill til að þetta er einnig fæðingardagur nóbelskáldsins, Halldórs Laxness.

Félag íslenskra bókaútgefenda hefur haft forgöngu um Viku bókarinnar frá árinu 1999 og undanfarin 4 ár hefur  félagið einnig í samvinnu við bóksala staðið fyrir átakinu „Þjóðargjöf“ til bókakaupa í viku bókarinnar. Markmið Þjóðargjafarinnar hefur verið frá upphafi að vekja athygli á bóklestri barna en bóklestur hefur úrslitaáhrif á lesskilning sem aftur er forsenda fyrir námsárangri. Með bóklestri eflist málþroski, skilningur á samhengi, innsýn í flókin málefni, ný þekking og vald á tjáningu – og svo er auðvitað bara svo gaman að lesa góða bók!

Í menningarneyslukönnun sem mennta- og menningarmálaráðuneytið stóð nýlega fyrir  var bóklestur skoðaður sérstaklega en 82% aðspurðra sögðust hafa lesið bók sér til ánægju, þ.e. utan vinnu eða náms, á undanförnum 12 mánuðum.  Athygli vakti að í yngsta aldurshópnum, 18 til 29 ára, sögðust  30% ekki hafa lesið neina bók á síðasta ári. Þessar niðurstöður styðja við aðrar kannanir sem benda til þess að dregið hafi úr bóklestri hjá ungmennum og því er mikilvægt að sofna ekki á verðinum og reyna að snúa vörn í sókn.

Bók er barns gaman og tengsl við fortíð og framtíðarsýn íslensku þjóðarinnar er háð því að börn og unglingar fái tilfinningu fyrir tungu forfeðra sinna og læri að meta þann fjársjóð sem fólginn er í ljóðum, sögum og frásögnum hvers konar. Fjársjóðskisturnar eru allt í kringum okkur –það þarf
bara að opna bókina og byrja að lesa!



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta