Ráðherra setur listahátíðina List án landamæra 2010, 29. apríl 2010
Listahátíðin List án landamæra 2010
Gleðilega hátíð! Þá erum við saman komin einu sinni enn til að fagna menningarhátíðinni List án landamæra sem er orðinn fastur vorboði í tilveru okkar, og enn á ný er þessi mikla hátíð afar glæsileg og fjölbreytt. Við erum hér stödd í Ráðhúsi Reykjavíkur til að opna hátíðina formlega með söng, ljóðalestri, gjörningum og síðan þeirri glæsilegu samsýningu sem hér er við hliðina. Um leið erum við að fagna viðburðum sem fara fram um allt land – fyrir austan, vestan, norðan og sunnan, eins og lesa má í glæsilegri dagskrá hátíðarinnar, sem þið hafið vonandi öll séð. Það verður því af nógu að taka undir merkjum Listar án landamæra um allt land á næstu vikum, allt til loka maímánaðar, eftir þessa byrjun hjá okkur hér í dag.
Það er ljóst að List án landamæra hefur unnið sér fastan og öruggan sess í menningarlífinu hér á Íslandi, og á síðasta ári voru einnig stigin fyrstu skrefin í þá átt að kynna þetta framtak fyrir fleirum. Þeir sem standa að List án landamæra geta verið hreyknir af því hversu vel hefur tekist til; síðasta haust var nefnilega haldin sérstök ráðstefna um þann grundvöll sem hér er byggt á um jafna þátttöku allra í listum og menningarstarfi, og þessi hugmynd hefur nú verið kynnt sérstaklega fyrir öðrum Norðurlandaþjóðum. Hver veit nema við munum á næstunni fara að sjá sambærilegar menningarhátíðir á öðrum Norðurlöndum, og þá getið þið sagt: Þetta lærðu þau af okkur!
Heiti verkefna á dagskránni eru til vitnis um þann fjölbreytileika sem er að finna í því gífurlega menningarstarfi sem List án landamæra kynnir fyrir landsmönnum. Þar er að finna titla eins og „Hetjur og brauð“, „Geðveik kaffihús“, „Dagur og nótt“, „Himinn og haf“, „Svangar skálar“, „Fulgarnir í Garðinum“, Inn og út um gluggann“, „Fagur fiskur í sjó“ og „Kindin góða“, svo eitthvað sé nefnt af þeim fjölmörgu hressilegu viðburðum sem framundan eru. Sem fyrrverandi aðstoðarmaður sjónhverfingamanns hef ég auðvitað sérstakan áhuga á að sjá hvað „Sarinó Sirkusinn“ tekur sér fyrir hendur: þar er um að ræða hættulegt leikrit með söngvum fyrir alla fjölskylduna, eins og segir í dagskránni, sem hljómar sannarlegar spennandi. Það ættu því allir að finna nóg við sitt hæfi innan ramma Listar án landamæra á næstu vikum.
Eins og Hlynur Hallsson myndlistarmaður segir í inngangi dagskrár hátíðarinnar er listin afar ákjósanlegur miðill til að brjóta niður múra og afnema landamæri. Þessi hátíð er góður vitnisburður um það. Ég vil því að lokum hvetja alla sem að henni koma til að halda áfram á sömu braut, njóta þess sem framundan er og efla alla landsmenn til dáða til að njóta samverunnar, listanna og menningarinnar saman öllum til heilla.
Ég segi menningarhátíðina List án landamæra 2010 formlega setta, og góða skemmtun !