Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. maí 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra talar á morgunverðarfundi um þróunarverkefnið jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum 19. mars 2010

Jafnrétti í skólum 19032010
Jafnrétti í skólum 19032010

Jafnréttisfræðsla í skólum

Ágætu samkomugestir
Mér er það sönn ánægja að fá að ávarpa ykkur hér í mennta- og menningarráðuneytinu að þessu tilefni sem er kynning á lokaskýrslu verkefnisins Jafnréttisfræðsla í skólum.

Þó að fjallað hafi verið um jafnrétti og jafna stöðu karla og kvenna í lögum á Íslandi í a.m.k. þrjá áratugi er enn á brattann að sækja þó að auðvitað hafi líka heilmikið áunnist. Jafnlengi hefur það verið eitt af meginhlutverkum skóla að búa bæði kynin undir þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Hefur jafnréttisfræðsla öðlast þann sess sem við kjósum að sjá almennt í skólastarfi? Svar mitt er nei – við vildum geta séð enn skýrari jafnréttisáherslur í skólum þótt vissulega séu dæmi um gott jafnréttisstarf eins og það sem kynnt verður hér í dag. Þótt áherslur um jafnrétti megi finna bæði í lögum um skólastarf og í aðalnámskrám þarf á einhvern hátt að tryggja betur að þær nái fótfestu í skólastarfi – að það nái til kennaranna, inn í kennslustofuna þar sem „hjartað slær“ í skólastarfinu.

Nú er unnið undirbúningi nýrrar aðalnámskrár fyrir leik- grunn- og framhaldsskóla í mennta- og menningarmálaráðuneytinu á grundvelli laga um þessi skólastig frá 2008. Í almennum hluta aðalnámskrár verður gerð grein fyrir grunnþáttum í menntun í íslensku skólakerfi, sem grundvallast m.a. á markmiðsgreinum laga um þessi skólastig.

Þessir grunnþættir eru:

Læsi í víðum skilningi

Lýðræði og mannréttindi

Jafnrétti

Menntun til sjálfbærni

Skapandi starf

Stofnaðir voru fimm starfshópar sérfræðinga til að skilgreina og afmarka grunnþætti menntastefnunnar og fjalla um samþættingu þeirra í námskrártextanum. Hóparnir skiluðu allir tillögum sínum í lok síðasta árs. Markmiðið er að grunnþættirnir verði leiðarljós í menntun sem nái til alls skólasamfélagsins, og geti haft áhrif á inntak náms, starfshætti og skólamenningu. Þessi hópavinna er nýtt í yfirstandandi vinnu við aðalnámskrár. Það er ekki nóg að læra um grunnþætti eins og jafnrétti heldur þurfa nemendur líka að læra “í jafnrétti“.

Hvað er átt við með orðinu jafnrétti? Bent hefur verið á að hugtakið sé ekki nægilega vel skilgreint í gildandi námskrám. Talsvert hefur verið tekist á um þetta hugtak á umliðnum árum innan fræðasamfélagsins en nútímalegasta skilgreiningin er ekki eingöngu bundin við einstaklinginn heldur felst í henni að rýna í samfélagskerfin okkar og valdatengsl. Misrétti líðst vegna viðhorfa og staðalmynda og gamalgróinna kerfa sem geta verið óháð karli eða konu sem einstaklingum. Tillögur frá starfshópi ráðuneytisins um jafnrétti eru einmitt í þessum anda: þar segir „jafnréttismenntun felur í sér gagnrýna greiningu á valdakerfum og viðteknum hugmyndum samfélagsins í því augnamiði að kenna börnum og unglingum að greina þau valdatengsl sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra“. Með því að gefa börnunum okkar slíka þekkingu og greiningartæki í hendurnar sköpum við þeim frekar tækifæri til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi. Ýmis félagsleg viðmið varðandi aldur, búsetu, fötlun, kyn, kynhneigð, lífsskoðanir, menningu, stétt, trúarbrögð, tungumál eða þjóðerni hafa áhrif á valdastöðu og geta ýmist skapað mismunun eða forréttindi í lífi fólks. Eins þarf að hafa í huga að fólk getur búið við margþætta mismunum sem byggir á samtvinnun fleiri þátta.

Verkefnið Jafnréttisfræðsla í skólum sem nú fagnar merkum áfanga hefur verið unnið í öflugu samstarfi margra aðila. Ég kýs að líta á þessa skýrslu sem áfangaskýrslu frekar en lokaskýrslu því verkefni sem þessi þurfa að halda áfram og þróast. Eins og segir í skýrslunni miðar verkefnið að því að efla jafnréttis- og kynjasjónarmið í leik- og grunnskólum. Það hefur verið gert með því að styðja við bakið á þátttökuskólunum 10 sem og þeim fyrirmyndar jafnréttisfræðsluverkefnum sem þar eru unnin auk heimsíðugerðar. Mikilvægt er að leita leiða og skapa vettvang þar sem kennarar og aðrir geta nýtt sér góðar hugmyndir og kynnt sér  verkefni sem gefið hafa góða raun. Þannig er hægt að sýna fram á mikilvægi jafnréttisfræðslu í skólum og hvernig unnt er að gera hana að sjálfsögðum þætti í öllu skólastarfi (sem er jú í lögum en ekki hefur þó tekist að framfylgja þeim vel til þessa!!). Um leið og ég vil þakka öllum sem að þessu mikilvæga verkefni hafa komið fyrir gott starf í þágu jafnréttisfræðslu í skólum óska ég þeim til hamingju með áfangann og góðs gengis í framtíðinni.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta