Ráðherra flytur ávarp á fyrsta vorfundi Þjóðminjasafns Íslands 12. maí 2010
Vorfundur safnamanna á sviði þjóðminjavörslu
Kæra samstarfsfólk!
í 3. grein þjóðminjalaga nr. 107 frá 2001 segir meðal annars:
„Þjóðminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði þjóðminjavörslunnar. ? Þjóðminjasafn Íslands er byggðasöfnum og öðrum minjasöfnum til ráðgjafar og stuðlar að samvinnu safna og samræmdri safnastefnu á sviði þjóðminjavörslunnar.“
- Í lögunum eru ekki frekari ákvæði um fyrirkomulag þeirrar samvinnu og samráðs sem þarna er vísað til. Eins og þið þekkið sem hér sitjið hefur það verið með ýmsum hætti og eftir mörgum leiðum í gegnum árin; með heimsóknum til safna, í gegnum farskóla FÍSOS, í gegnum rekstrarfélag Sarps, sameiginlegs skráningarkerfis minjasafna, á vettvangi safnaráðs og að sjálfsögðu með beinum persónulegum og óformlegum samskiptum innan þess fjölbreytta hóps, sem starfar á söfnum um allt land.
Allt er þetta gott og blessað, en í ljósi þessa ákvæðis laganna er fyrsti vorfundur Þjóðminjasafnsins fagnaðarefni. Með honum er orðinn til fastur vettvangur fyrir þetta samráð og staður þar sem þið getið komið saman og rætt sameiginleg málefni sem stuðla að samvinnu safna og samræmdri safnastefnu á sviði þjóðminjavörslunnar, eins og segir í lagagreininni. - Ég hef fulla trú á að önnur höfuðsöfn taki sér þetta fyrirkomulag til fyrirmyndar á sínu sviði.
Ég tel að þess meira samráð og samtal sem eigi sér stað á milli safna af öllu tagi, þess meiri væntingar geta stjórnvöld haft uppi um vönduð og fagleg vinnubrögð og sameiginlega nálgun við úrlausnir mála. Slíkt mun án efa leiða til betri þjónustu við fræðimenn og almenning, sem þegar allt kemur til alls er helsti eigandi safna hér á landi og hefur því mestra hagsmuna að gæta um að vel sé að öllu staðið.
Á fundinum í dag er einnig á dagskrá umræða um lagaumhverfi á þessu sviði og stöðu mála hvað varðar þau frumvörp, sem hafa verið í vinnslu í ráðuneytinu á sviði menningarminja og safnamála. Á þessu stigi er ekki mikið meira um málið að segja af hálfu ráðuneytisins; verið er að vinna frekar úr þeim ábendingum sem hafa borist og vangaveltum um hvernig málum verður best ráðið, en þegar tillögur ráðuneytisins liggja fyrir er stefnt að því að kynna þær m.a. á vef ráðuneytisins.
Sú safnastefna á sviði þjóðminjavörslu 2010-2014 sem kynnt hefur verið í drögum og verður til umræðu hér í dag er í góðu samræmi við fyrri stefnu safnsins á þessu sviði, og endurspeglar um leið að nokkru þær breytingar sem hafa orðið í þessum málum undanfarin ár. Það er gott til þess að vita að þessi stefna hefur verið kynnt á fundum um allt land á nýliðnum vetri, og áhugafólk um allt land hefur þannig haft – og hefur enn – tækifæri til að koma fram með ábendingar um einstök atriði sem viðkomandi telja vert að ræða frekar eða færa til betri vegar.
Góðir gestir,
Stefnumótun sem þessi er best heppnuð þegar hún nær bæði að lýsa vel þeim grunni sem byggt er á, og setja fram með skýrum hætti raunhæf og um leið hvetjandi markmið sem hægt verður að ná innan þeirra tímamarka sem sett eru til verksins. Það verður meðal verkefna ykkar sem hér eruð á þessum fyrsta vorfundi Þjóðminjasafns Íslands að meta hvort fyrirliggjandi stefnumörkun nái þessu marki. Ráðuneytið hefur nú síðustu útgáfu stefnunnar til athugunar, og mun senda Þjóðminjasafninu sínar ábendingar að henni lokinni.
Ég óska ykkur góðs gengis við þetta verkefni og önnur sem hér verða tekin fyrir í dag.
Takk fyrir.