Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. júní 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra opnaði sýninguna Í fótspor Collingwood 13. maí 2010

Kæru gestir

Við erum hér saman komin til að opna sýninguna Í fótspor Collingwood, sem er framlag Þjóðminjasafns Íslands til Listahátíðar í Reykjavík 2010.

Í sýningunni felst samræða listamanna, sem eru aðskildir af meira en heilli öld. Þessi aðskilnaður í tíma skiptir máli: Rithöfundurinn, listmálarinn og fagurfræðingurinn William Gershom Collingwood var fæddur 1854, en ljósmyndarinn og listamaðurinn Einar Falur Ingólfsson er fæddur 112 árum síðar. Verk Collingwood voru gerð á ferð hans á Íslandi 1897, en eftir að hafa undirbúið verkefnið fylgdi Einar Falur eins nákvæmlega og kostur er í fótspor hans meira en öld síðar, og skapaði eigin ljósmyndaverk af nær sömu þúfum og Collingwood hafði setið á við að mála og teikna sínar myndir.

Það er erfitt að gera sér grein fyrir þeirri orku og úthaldi sem þessi nákvæmi ævisöguritari hins þekkta fagurfræðings John Ruskin sýndi á þessu tíu vikna ferðalagi sínu um Ísland sumarið 1897. Á sama tíma og hann reið á milli staða í vegalausu landi með allt sitt hafurtask ritaði hann mikinn fjölda sendibréfa til fjölskyldu sinnar og gerði um 300 teikningar og vatnslitamyndir af sögustöðum hér á landi, sem hann notaði síðan í hina miklu bók sína, „Pílagrímsför til sögustaða á Íslandi“, sem kom út tveimur árum síðar. Einfaldur reikningur segir okkur að Collingwood lauk við 4-5 myndir að meðaltali dag hvern, og eins og sjá má hér á sýningunni er ekki um að ræða einfaldar skissur, heldur fullgerð listaverk.

Það er gæfa hverrar þjóðar að eiga góða vini og gjöfula, og fyrir tilstilli Íslandsvinarins Mark Watsons og Haraldar Hannessonar, hagfræðings, sem meðal annars veitti myntsafni Seðlabankans og Þjóðminjasafnsins forstöðu um árabil, á Þjóðminjasafn Íslands nú rúmlega 200 af þeim myndum sem Collingwood gerði hér á landi í þessari ævintýraferð sinni. Þetta myndasafn er ómetanlegur fjársjóður, sem segir okkur meira en mörg orð um land og þjóð á þeim tíma, auk þess að endurspegla hið rómantíska viðhorf söguaðdáandans.

Listasagan er full af dæmum um samræðu listamanna frá ólíkum tímum, þar sem einn vísar til myndefnis annars. Á stundum hefur slíkt valdið hneykslan, en í öðrum tilvikum koma fram hliðstæð viðhorfum á ólíkum tímum, eins og segja má um úrvinnslu listamannsins Gylfa Gíslasonar á verkum Þórarins B. Þorlákssonar frá upphafi 20. aldar, þar sem virðingin fyrir náttúrunni og umhverfinu er í fyrirrúmi.

Góðir gestir,

Það er augljóst að Einar Falur Ingólfsson hefur nálgast verk Collingwood og sögu hans af mikilli virðingu. Það verður fróðlegt að kynnast nánar þeirri samræðu sem Einar efnir til við hann á sýningunni og í hinni glæsilegu bók, sem kemur út samhliða henni; annars vegar er sýn 19. aldarinnar, en hins vegar 21. aldarinnar. Fjöllin hafa vakað í þúsund ár, eins og góður listamaður hefur bent okkur á, en margt annað hefur breyst; þar sem áður voru vegleysur og ófærar mýrar eru nú greiðfærar leiðir og gróin tún, og jarðbundin kot hafa vikið fyrir reisulegum bæjum – en tíminn hefur einnig skilið eftir frekari minjar, eins og sjá má á boðskorti sýningarinnar. Og ekki skiptir minna máli að þó að samfélagið hafi breyst eigum við enn þetta fallega einstaka land sem er okkar stærstu verðmæti. Þjóðinni hefur miðað fram á veg í skjóli fjalla og jökla, en má þó aldrei gleyma því sem áður var, og halda við samræðu tímans, eins og gert er hér.

Ég segi sýninguna Í fótspor Collingwood hér með formlega opna.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta