Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

03. júní 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra afhendir forreldraverðlaun Heimilis og skóla 1. júní 2010

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla
heimili_og_skoli

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla

Ágætu hátíðargestir
Menntakerfið gegnir mikilvægu hlutverki í endurreisn samfélagsins þar sem við byggjum traustan grunn til framtíðar. Ég leyfi mér að fullyrða að fyrir þjóð sem þarf að byggja sig upp er fátt jafn mikilvægt og öflugt menntakerfi. Árangur í uppbyggingu samfélagsins byggist ekki síst á samstöðu og fagmennsku þeirra sem starfa í skólunum í góðu samstarfi við grenndarsamfélagið. Ég tel að vitundarvakning hafi orðið í samfélaginu í kjölfar efnahagshrunsins um mikilvægi þess að allir aðilar vinni saman að velferðarmálum í skólum til að sem bestur árangur náist.

Í dag veita Landssamtökin Heimili og skóli foreldraverðlaun samtakanna í 15. sinn við hátíðlega athöfn hér í Þjóðmenningarhúsinu. Það er ákaflega mikilvægt að beina sjónum að því sem vel er gert í skólum, jákvæðum sprotaverkefnum í skólasamfélaginu, stórum sem smáum, og veita frumkvöðlum og eldhugum viðurkenningu fyrir óeigingjarnt brautryðjendastarf sem er til hagsbóta fyrir nemendur og fjölskyldur þeirra og samfélagið í heild. Viðurkenningar af þessu tagi eru ekki síður mikilvægar á þessum miklu umbrotatímum í samfélaginu þegar brýnt er að horfa til framtíðar.

Það er ánægjulegt að sjá hversu mörg verkefni eru á hverju ári tilnefnd til Foreldraverðlaunanna og einnig vekur athygli mikil fjölbreytni verkefna. Mest ber á verkefnum á grunnskólastigi þar sem margvísleg þátttaka ýmissa aðila í grenndarsamfélaginu vekur sérstaka athygli. Einnig eru verkefni á framhaldsskólastigi áberandi. Sérstaka athygli og ánægju vekur að nemendur eru í fyrsta sinn tilnefndir til foreldraverðlauna Heimilis og skóla þar sem þeir leggja sitt af mörkum til aukins samstarfs heimilis og skóla. Að mínu mati eru allir sem hafa verið tilnefndir sigurvegarar, og vil ég nota tækifærið að þakka ykkur öllum sem hafa verið tilnefndir fyrir framlag ykkar til bættrar menntunar og aukinnar velferðar nemenda með frumkvöðlastarfi ykkar.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið gefur í gegnum tíðina átt farsælt samstarf við Heimili og skóla og hefur einnig reynt að styðja fjárhagslega við samtökin sem gegna ákaflega mikilvægu hlutverki með ýmsum hætti í innleiðingu menntalaganna og stuðningi við foreldra og foreldrasamtök um land allt. Á næstu vikum munum við undirrita samstarfssamning þar sem þetta samstarf verður kunngert.

Í nýju menntalögunum frá 2008 er lögð áhersla á velferð í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum, farsælt skólastarf og öryggi, jákvæðan skólabrag og að skapaðar séu betri leiðir til að allir nemendur fái notið skólavistar, námslega og félagslega, með jafnrétti til náms og virka þátttöku að leiðarljósi. Aðkoma foreldra getur skipt sköpum við að byggja slíkt skólasamfélag sem stuðlar að velferð nemenda og vellíðan með stuðningi við faglegt starf í skólum og menntun barna. Foreldrar leggja auk þess mikið af mörkum með því að halda utan um nemendahópa með margvíslegu foreldrastarfi og er slíkt sjálfboðastarf ómetanlegt. Kennarinn er kjölfestan í menntakerfi okkar. Þegar allt kemur til alls skiptir kennarinn, líðan hans, áhugi og fagmennska sköpum um gæði skólastarfsins þar sem hver nemandi skiptir máli. Góður kennari getur gert kraftaverk.
Á menntaþinginu sem mennta- og menningarmálaráðuneytið hélt nýlega var rauði þráðurinn í umræðum um velferð að heilt samfélag þurfi til að ala upp barn og að samvinna allra aðila sem byggist á gagnkvæmum samskiptum og gagnkvæmri virðingu sé lykillinn að árangri. Mikill samhljómur var um mikilvægi þess að hlúa að starfsanda í skólum, viðhalda vinnugleði og virkja foreldra betur til samstarfs við skóla á öllum skólastigum, þar sem foreldrar væru víða vannýtt auðlind í skólastarfi. Einnig kom fram skýr ósk um að skólar yrðu í ríkari mæli mannlífstorg eða hjartað í samfélaginu.

Ég vil hvetja alla til að taka höndum saman um að hlúa sem best að velferð nemenda á öllum skólastigum og skapa jákvæðan skólabrag í góðu samstarfi við grenndarsamfélagið. Þar vil ég sérstaklega leggja áherslu á markvissar aðgerðir skóla til að vinna gegn einelti og skýr viðbrögð innan hvers skóla í eineltismálum. Þegar upp kemur grunur um einelti verður að taka á þeim málum eftir skipulagðri áætlun. Einelti á aldrei að líðast.

Ég vil að lokum hvetja Heimili og skóla til að vinna áfram í því að auka virkni foreldra á öllum skólastigum til þátttöku í námi barna sinna og foreldrastarfi en með því að virkja foreldra er hægt að leysa úr læðingi afl sem stuðlar að enn betri menntun og velferð og um leið betra samfélagi.

Ég vil að lokum óska þeim sem hlýtur Foreldraverðlaun Heimilis og skóla til hamingju og öllum viðstöddum til hamingju með daginn.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta