Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. júní 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ávarp ráðherra, Katrínar Jakobsdóttur á fagfundi um verslun með menningarefni og baráttu gegn ólögmætri dreifingu efnis á netinu

 

22. júní 2010, Iðnó Reykjavík

Góðir gestir

Þegar netið var að ná almennri útbreiðslu fyrir tuttugu árum eða svo, þá veltu menn fyrir sér hvort eða hvernig væri hægt að nota það í viðskiptum. Það var ekki ljóst á sínum tíma hvort það borgaði sig að auglýsa á netinu og jafnvel vangaveltur um hver ætti að greiða hverjum og svo framvegis. Ein þeirra ályktana, sem draga má af þróun vefsins á þessu tímabili er að margt hafi þar þróast hraðar en viðskipti. Þar kemur sjálfsagt margt til, til dæmis vandræði með apð byggja öryggi viðskiptavinar í kortaviðskiptum og tregða verslunar- og viðskiptafólks við að treysta þessum nýja miðli og áhrifum hans. Því hefur að minnsta kosti verið haldið fram um sölu á tónlist og kvikmyndum að útgefendur hafi verið talsvert varfærnari en seljendur annarrar vöru. Þeir standi enn í þeirri trú að sala á diskum sé mikilvægast af öllu og byggja enn afkomu sína helst á því að selja í milljónatali diska með tónlistarmönnum, sem gerðir hafa verið að viðfangsefnum fjölmiðla. Á móti þessu sjónarmiði hefur verið teflt að sala á netinu á einstökum lögum, fá eintök frá gríðarmörgum listamönnum sé betra fyrir greinina og muni þróast í þá veru. Svo eru enn aðrir sem telja að eignarrétturinn sé ekki náttúrulögmál og tilteknar tilslakanir séu nauðsynlegar hvað hann varðar.

Í ársgamalli skýrslu frá Finnlandi kemur fram að hlutfallið milli löglegs og ólöglegs niðurhals á tónlist sé einn á móti tuttugu. Þar kemur einnig fram að þar í landi hefur rafræn sala á kvikmyndum ekki náð fótfestu – þetta sem á ensku heitir „on demand service“ og er kallað „myndmiðlun eftir pöntun“ í frumvarpi til fjölmiðlalaga- og er þá ekki meðtalin myndmiðlun sjónvarpsstöðvanna. Finnar telja að um 40% allra kvikmynda, sem fólk horfir á heima hjá sér, að sjónvarpsmyndum undanskildum, séu fengin með ólögmætum hætti. Ef gert er ráð að fjöldi þeirra sem stunda skrárdreifingu – peer-to-peer- sé hlutfallslega sá sami í Finnlandi og á Íslandi þá ættu að þeir að vera um 5500 hér á landi og þess ber að geta að ekki er bara um ólöglega dreifingu að ræða.

Stór hluti, kannski meirihluti netnotenda sækir aldrei tónlist, kvikmyndir eða leiki með ólögmætum hætti af netinu og reyndar ekki löglega heldur. Það hlýtur því að vera mikil áskorun fyrir alla þá sem koma að máli að fá þennan hóp til að nýta sér framboðið og gera það rétt. Rannsóknir á Norðurlöndum sýna að það er eftirspurn eftir því efni, sem hér er til um ræðu og reyndar menningarefni af öllu tagi en framboðið virðist vera takmarkað og ekki auðvelt að nálgast það. Þeir sem ekki virða höfundarétt hafa verið miklu hugmyndaríkari og duglegri við að þróa aðferðir við að komast yfir efni með ólögmætum hætti heldur en þeir sem reyna að koma því í sölu með löglegum hætti. Viðskiptaaðferðir sjóræningjanna, ef svo  má að orði komast, hafa þróast hraðar en við lögmæt viðskipti. Einn af framkvæmdastjórum ESB orðaði þetta þannig að „sjóræningjum" hafi tekist það sem útgefendum og rétthöfum kvikmynda og tónlistar hafi ekki tekist, þ.e. að búa til einn markað fyrir menningarefni sem nýtur höfundaréttarverndar“.

Til að gera lögmæta verslun með tónlist og kvikmyndir arðsaman og eðlilegan valkost fyrir neytendur sýnist mér helstu viðfangsefnin vera:

  • að efnið sé aðgengilegt og fjölbreytt
  • að þróaðir verði nýir viðskiptahættir og dreifingaraðferðir, sem eru spennandi fyrir neytandann
  • að lög og reglur styðji og hvetji til eðlilegra viðskiptahátta
  • að ólögmæt dreifing og notkun á efninu verði hindruð.

Við heildarendurskoðun höfundarréttarlaga hef ég ákveðið að unnið sé eftir tilteknum leiðarljósum og meðal þeirra eru að efla þurfi virðingu fyrir höfundarétti með tilliti til menningarlegrar og efnahagslegrar þýðingar hans fyrir samfélagið og að stuðla beri að því að notendur taki löglega kosti fram yfir ólöglega eintakagerð. Ennfremur að höfundalögin þurfi að vera skýr og auðskiljanleg auk þess að stuðla að jafnvægi milli rétthafa og notenda. Markmiðin eru skýr í þessu efni og stuðla að lausn þeirra viðfangsefna sem hér eru til umræðu.

Góðir gestir

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta