Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. júní 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, á Háskólahátíð á Hrafnseyri við Arnarfjörð, 17. júní 2010

Ágæta samkoma

Í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar, þeim er þessi staður er kenndur, segir af manni sem gerðist víðförull, nam fræði við útlenska háskóla á ofanverðri 12. öld, - en sneri aftur hingað vestur á firði til að setja mark sitt á umhverfið. Í sögu hans segir að hann hafi ekki aðeins læknað sjúka í umvörpum heldur einnig tekist á við náttúruna, lært að lifa með duttlungum hennar og lagt sitt af mörkunum til að gera lífið léttara fyrir bæði sig og aðra íbúa strandsvæðisins – „því alla menn lét hann flytja yfir Arnarfjörð, þá er fara vildu. ? Og af slíkri rausn Hrafns var sem brú væri á hvorum tveggja firðinum fyrir hvern, er fara vildi“. Hrafn Sveinbjarnarson hafði reyndar ekki numið haf- og strandsvæðastjórnun en það má kalla hann „natur-talent“ því segja má að í honum holdgervist það sem við erum saman komin í dag til að ræða, háskólanám og náttúran.

Á síðastliðinni öld hefur íslenskt þjóðfélag tekið stakkaskiptum. Áður hafði bróðurpartur landsmanna lífsviðurværi sitt af þeim auðlindum sem íslensk náttúra hafði upp á að bjóða. Í samfélagi nútímans byggir verulegur hluti þjóðarinnar sitt viðurværi á atvinnuvegum sem krefjast háskólamenntunar. En Íslendingum er líklega flestum öðrum þjóðum mikilvægara að samtvinna þessa tvo þætti mannlífsins og á fáum stöðum hérlendis er náttúran einmitt jafn stórbrotin og jafn nálæg og hér á Vestfjörðum. Hér stöndum nærri fjöruborðinu, við ysta haf, sem geymir einhver gjöfulustu fiskimið jarðar. Hlýnun jarðar, skeytingarleysi mannkyns og hrein og klár gróðasjónarmið eru hins vegar á góðri leið með að gera það að verkum að hafsvæðið utan Vestfjarða gæti í náinni framtíð orðið fjölfarið farvatn fraktflutninga yfir Norðurpólinn sem og svæði fyrir olíu- og gasvinnslu með öllum þeim hættum sem því fylgja og við höfum verið óþyrmilega minnt á með dæmi frá Mexíkóflóa.

Góðir gestir – við sem búum við hafið verðum að læra að búa í sátt við náttúruna og koma fram við hana af virðingu!

Af þessum ástæðum er afar kærkomið að vera hingað komin í dag til að ávarpa fyrstu nemendurna sem útskrifast með meistaragráðu í haf- og strandsvæðastjórnun sem er samstarfsverkefni Háskólaseturs Vestfjarða og Háskólans á Akureyri. Meistaranámið í haf- og strandsvæðastjórnun, er, eins og þið vitið svo vel, kjörinn vettvangur til að leiða saman fólk með ólíkan bakgrunn í skapandi háskólaumhverfi með það að markmiði að finna leiðir til sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda. Þverfaglegt nám er lýtur að nýtingu náttúruauðlinda og einstökum þáttum þess að búa í sátt og samlyndi við umhverfið er nauðsynlegt íslensku samfélagi, svo að við getum kallað til þá ráðgjafar- og rannsóknarþekkingu sem nauðsynleg til að tryggja sjálfbærni, verndun og rannsóknir, nú eða bara til þess að láta fara fram umhverfismat sem byggir á traustum þekkingargrunni. Að námið fari fram á ensku tryggir ennfremur að við getum boðið öðrum þjóðum upp á læra af okkur virðingu fyrir náttúrunni og um leið getum við lært af þeim.

Þetta samstarfsverkefni Háskólaseturs Vestfjarða og Háskólans á Akureyri um haf- og strandsvæðastjórnun hefur ekki aðeins borið sinn fyrsta ávöxt í dag heldur er það einnig til fyrirmyndar varðandi þá stefnu sem við höfum nú tekið varðandi opinbera háskóla hér á landi. Undanfarið á hefur verið unnið að því hröðum höndum að mæta þeim aðsteðjandi vanda sem efnahagshrunið hefur haft í för með sér fyrir háskólakerfið hér á landi. Hvernig getum við mætt kröfum um niðurskurð í framlögum til háskóla en á sama tíma tryggt fyrsta flokks háskólamenntun fyrir alla landsmenn. Að mati mennta- og menningarmálaráðuneytisins er stofnun nets opinberu háskólanna nauðsynleg til að standa vörð um fjölbreytt námsframboð og öflugar rannsóknir á sviðum sem veigamikil eru fyrir íslenskt samfélag. Slíkt netsamstarf er jafnframt nauðsynlegur undanfari sameininga á háskólastiginu, standi til þess á síðari stigum. Við núverandi aðstæður er mikilvægt að standa vörð um gæði og getu skólakerfisins. Það kallar á forgangsröðun, tilfærslu verkefna og að kraftar þeirra sem sinnt hafa þessum málaflokki verði í auknum mæli sameinaðir.

Hér er vert að hafa í huga að háskólanetið er ekki bundið við háskólana eina heldur einnig hinar mörgu starfsstöðvar, hverju nafni þær nefnast, um allt land. Háskólanetinu er meðal annar ætlað að tryggja á nútímalegan máta að það sem vel er gert í dag, geti dafnað og þrifist innan metnaðarfulls háskólaumhverfis framtíðarinnar. Háskólanetið er nefnilega ekki aðeins varnaraðgerð eða viðbrögð við niðurskurði heldur úthugsuð leið til að gera íslenskt háskólakerfi skilvirkara, metnaðarfyllra og nútímalegra. Samstarf, samvinna og skilvirkni eru kjörorð háskólanetsins. Samstarf Háskólaseturs Vestfjarða og Háskólans á Akureyri um meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun er í þeim anda.

Til hamingju með árangurinn og ég vil að lokum óska nýútskrifuðum meisturum í haf- og strandsvæðastjórnun velfarnaðar í starfi við að stuðla að sjálfbærni og virðingu fyrir okkar dýrmætu náttúru.

Bestu þakkir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta