Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur á fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, Hrafnseyri við Arnarfjörð, 17. júní 2010.
Kæru Vestfirðingar og aðrir gestir.
Gleðilega þjóðhátíð. Það er mér mikil ánægja og heiður að fá að ávarpa ykkur hér í dag á fæðingardegi og fæðingarstað Jóns Sigurðssonar.
Þegar Jón Sigurðsson óx úr grasi hér á Hrafnseyri var einungis einn skóli á Íslandi – Bessastaðaskóli – þar sem 30 til 40 skólapiltar stunduðu nám á ári hverju. Hins vegar var fræðslulöggjöf í gildi sem gerði ráð fyrir að börn lærðu að lesa og gætu gert grein fyrir grundvallaratriðum kristindómsins. Jón gekk ekki í hefðbundinn barnaskóla en naut eigi að síður heimakennslu og nam meðal annars latínu og grísku.
Margt hefur breyst á frá öndverðri 19. öld. Fyrir 200 árum höfðu örfáir tækifæri til að mennta sig. Á þessum tíma hefur verið byggt upp öflugt skólakerfi um land allt, með leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum. Menntunarstig þjóðarinnar hefur tekið stórfelldum framförum á skömmum tíma. Skólaskylda er frá sex til sextán ára aldurs og 97% útskrifaðara 10. bekkinga sækja um skólavist í framhaldsskóla. Nú sækja allir skóla og flestir sækja sér frekara nám sem vissulega er stórfelld breyting á skömmum tíma.
Um 30 þúsund manns stunda nám í íslenskum framhaldsskólum þó að þeir ljúki því miður ekki allir námi. Mikil fjölgun hefur svo orðið á skömmum tíma á þeim sem stunda nám í háskólum landsins og sér ekki fyrir endann á þeirri fjölgun.
Á sama tíma þurfum við að horfast í augu við efnahagslegt áfall sem varð fyrir ríflega einu og hálfu ári. Oft og tíðum viljum við að hlutirnir gangi hraðar og öllum finnst kreppan orðin nægilega löng. Gleymum því ekki að við erum hálfnuð á leið okkar út úr kreppunni þó að mörg erfið verkefni séu framundan. Gleymum því ekki að mörg teikn eru á lofti sem benda til þess að þó að Ísland hafi orðið fyrsta fórnarlamb kreppunnar og hér hafi um tíma verið raunveruleg hætta á þjóðargjaldþroti þá munum við líklega líka verða fyrri út úr henni en mörg önnur ríki.
Öll framför mannkynsins er byggð á því að halda við því, sem einu sinni er numið, og láta það gánga frá einum knérunni til annars ; með því að ein kynslóð býr þannig undir fyrir aðra, verður því komið til leiðar, að mannkyninu fer alltaf fram, þegar á allt er litið, þó oft hafi verið farið afvega, og stundum sýnist það heldur reka en gánga. – segir í ritgerð Jóns Sigurðssonar Um skóla á Íslandi en segja má að Jón hafi lagt áherslu á þrennt sem hann taldi lykilatriði fyrir sjálfstæði Íslands og var það löggjafarvaldið, verslunarfrelsið og skólastarf.
Jón lagði þar fram mótaðar hugmyndir um hvernig hann vildi sjá skólakerfið á Íslandi vaxa – hvers konar skólar ættu að vera hér og hvað þeir skyldu kenna. Jón rökstuddi mál sitt skýrt: Skólunum var ætlað, hverjum á sínu sviði, að stuðla að framförum samfélagsins og mæta þörfum á hverri tíð og taldi Jón að menn mættu ekki skirrast við þeim kostnaðarauka sem kljúfandi væri – og Jón þurfti svo sannarlega að eiga við ígildi fjármálaráðherra á þeim tíma sem var íslenska þingið – því engum peningum væri varið heppilegar en þeim sem keypt væri fyrir andleg og líkamleg framför sem mest mætti verða.
Á þeim tímum sem við nú lifum er þessi rökræða daglegt brauð – hvaða kostnaðarauki er kljúfandi og hverju þarf að fórna? Það er meðal annars af þeim sökum sem ég hef lagt fram hugmyndir um aukið samstarf opinberra háskóla og þeir sameinist undir einum hatti í þeirri trú að við mætum best þeim niðurskurði sem er framundan með því að taka höndum saman og leggja saman krafta okkar – á sama tíma og við verjum háskólastarf, kennslu og rannsóknir á hverjum stað. Og ef við leitum til Jóns Sigurðssonar um innblástur þá lagði hann áherslu á að hinir andlegu kraftar sameinuðust á einum stað, landi og þjóð til framdráttar.
En skólastarf snýst ekki aðeins og kannski minnst um stofnanir þó að hagsmunir stofnana séu það sem fjölmiðlar veita mesta athygli og hlýtur mest vægi í hinni opinberu umræðu.
Inntak skólastarfs er auðvitað það sem mestu skiptir að ræða þó að áhugi á því í hinni opinberu umræðu sé kannski minnstur. Skólarnir okkar eru fyrst og fremst fólkið sem í þeim starfar og hugmyndir þess. Og hvert stefnir sú umræða?
Á undanförnum árum og áratugum hefur skólastarf þróast í átt að auknum tengslum við atvinnulíf og sú hugmynd að nám eigi að vera arðbært með einhverjum hætti fengið byr undir báða vængi. Skólastarf hefur átt að skapa skólum tekjur – ýmist með gjaldtöku af nemendum eða með rannsóknum sem skila beinum fjárhagslegum arði.
Arðsemiskrafan hefur raunar verið sýnileg um allan heim. Víða í Bandaríkjunum og Evrópu hafa menn einblínt á kennslu og rannsóknir í fögum sem talin eru þjóna þörfum atvinnulífsins og sama má segja um Ísland. Að sumu leyti er það eðlilegt. Gleymum ekki orðum Jóns Sigurðssonar um að skólar yrðu að mæta þörfum á hverjum tíma. Nú á dögum er skortur á fólki í ýmsum íslenskum fyrirtækjum sem reiða sig á tæknimenntun, listmenntun og fleira og það er mikilvægt að mæta þeirri þörf með öflugum og samhentum aðgerðum. En skólar eiga ekki aðeins að mæta þörfum samtímans - þeirra er að leggja grunninn að góðri almennri menntun.
Við megum aldrei gleyma samfélagslegum skyldum skóla – að stuðla að almennum framförum samfélagsins sem Jón nefndi einmitt líka. Og hvernig stuðlum við að framförum samfélagsins? Jú – hvað er samfélag annað en hópur fólks sem kemur sér saman um ákveðinn sáttmála um hvernig er best að haga málum?
Til þess að gera stuðlað að almennum samfélagslegum framförum er því nauðsynlegt að hugsa samfélagið út frá fólkinu sem það byggir og þá er kannski komið að kjarnanum í allri menntun.
Páll Skúlason heimspekingur hefur bent á að menntun snúist um að efla mennsku – að efla okkur öll sem menn og þar með sem þátttakendur í samfélagi. Menntun er þar af leiðandi ekki aðeins þjálfun í tiltekinni tækni eða öflun tiltekinnar þekkingar. Hún er þroskaferli sem leiðir að ákveðnu markmiði. Og til þess að ná því markmiði þarf maður að skilja mennskuna, skilja fólk. Lengi vel hefur þetta verið undirstaða alls háskólanáms í Bandaríkjum Norður-Ameríku að háskólanemar taka grunn í heimspeki, listum og öðrum húmanískum fögum sem á að þjóna þessum tilgangi. En með kröfum um aukna sérhæfingu á öllum sviðum er hættan að þessi húmanísku fög sem erfitt er að mæla í samræmdum prófum – sem ekki veita tiltekna löggildingu – sem ekki endilega skila arði – hættan er sú að þeim hnigni og raunar sjáum við þess þegar merki.
Ef við skoðum skýrslu Rannsóknanefndar Alþingis um það sem fór úrskeiðis í aðdraganda hrunsins er þar mikinn lærdóm að draga en líka margar spurningar sem þarf að svara. Stjórnendur bankanna voru ekki ómenntaðir í þeim skilningi að þeir hefðu ekki prófgráður. Hins vegar má spyrja um menntun þeirra sem viljandi brjóta reglur því að eitt af því sem kom fram í skýrslunni var að það regluverk sem þó var til staðar var ekki virt. Það vekur spurningar um mannlegt eðli – af hverju breyta menn rangt? Þetta kann að hljóma einfeldingslega en er þó óumdeilanlega flókið. Mahatma Gandhi sem leiddi sjálfstæðisbaráttu Indverja á 20. öld hélt því ávallt til haga að pólitísk barátta fyrir frelsi og jafnrétti er ávallt byggð á persónulegri baráttu hvers og eins þar sem takast á samhyggð og virðing annars vegar og græðgi, ótti og eiginhagsmunir hins vegar. Þannig eru allar stórar sögur byggðar á einstökum mönnum og hvort þeir setja almannahagsmuni ofar sérhagsmunum í því skyni að byggja frjálst jafnaðarsamfélag.
Sókrates hélt því fram að órannsakað líf væri manneskjunni einskis virði. Hann var mikill talsmaður sjálfsþekkingar – og gagnrýninnar hugsunar. Þó að efnahagskreppa tröllríði nú heiminum hefur hún ekki leitt til breytinga á hugsunarhætti heldur er hann enn bundinn við mælanlegar einingar hagvaxtar. Hin sókratesíska nálgun um að menn gæfu sér tíma til að kanna, hugsa og gagnrýna eykur ekki endilega hagvöxt og skapar ekki endilega arð – sem gerir það að verkum að hún á undir högg að sækja.
Hins vegar ætti lærdómur okkar að vera sá að menn sem þekkja sjálfa sig og gefa sér tíma til að hugsa, gagnrýna og skoða málin eru líklegir til að taka viturlegar ákvarðanir í þágu samfélagsins. Þegar fólk lítur hins vegar á rökræðu á hinu pólitíska sviði sem íþróttakeppni þar sem mestu skiptir að skora mörk og menn hneigjast til að líta á þá sem eru annarrar skoðunar sem óvin sem þurfi að sigra. Slík rökræða er hins vegar ekki líkleg til að skila árangri.
Hefði gagnrýnin hugsun verið höfð að leiðarljósi hefðu íslenskir nemendur verið betur heima í hinu alþjóðlega fjármálakerfi og þeim öflum sem þar stjórna. Íslenskir borgarar hefðu þar af leiðandi verið gagnrýnni á aðferðir og vinnulag bankanna. Gagnrýni hefði þá ekki verið flokkuð sem úrtölur, neikvæðni og leiðindi heldur eðlilegur hluti af lýðræðissamfélagi.
Broddflugan er óþægileg þegar hún stingur og stundum er gagnrýni óréttmæt. Stundum er gagnrýni réttmæt en menn eru eigi að síður með réttmæt andsvör þannig að ákvörðun er tekin á grundvelli skoðunar – í kjölfar gagnrýninnar umræðu. Þessum óþægindum verðum við að venjast og meira en það, við verðum að fagna þeim. Það hafa menn lengi vel ekki gert - Sókrates var jú neyddur til að drekka eiturbikar eftir að hafa verið dæmdur fyrir að spilla æskulýðnum og segir það sitt um veg gagnrýninna radda á öllum tímum. Við eigum einmitt að gera þveröfugt - fagna þeim þáttum sem gera okkur að lýðræðisríki og efla þá.
Ég hef sett fimm grunnþætti í öndvegi í nýjum námskrárdrögum. Læsi, lýðræði, jafnrétti, menntun til sjálfbærni og skapandi starf. Allir þessir þættir eiga að efla nemendur í að verða gagnrýnir og virkir þegnar í lýðræðissamfélagi. Allir þessir þættir eiga að gera okkur hæfari í að kanna okkur sjálf og verða í framhaldinu öflugri þátttakendur í samfélaginu. Ég nefni sérstaklega hlutverk listanna sem einmitt gegna því hlutverki að efla sjálfsþekkingu manna. Ég segi stundum að rithöfundar vinni afrek því að þeir rífa út úr sér hjartað þannig að við lesendur getum grannskoðað það, og jafnvel hent því út um gluggann í fússi ef okkur líkar ekki það sem við sjáum. Öll sköpun krefst sjálfsþekkingar og kennir okkur um leið samskipti við aðra á öðrum grunni en við eigum að venjast í hefðbundnum hlutverkum samfélagsins.
Ég hef gert tvo menn að sérstöku umtalsefni hér í dag. Jón Sigurðsson og Sókrates. Jón stendur okkur vissulega nær og hann var um margt til fyrirmyndar þegar kom að gagnrýninni hugsun - hann var óhræddur við að vera á öndverðri skoðun við fjöldann. Hann var fræðimaður sem einmitt byggði rannsóknir sínar á húmanískum grunni. Hann iðkaði lýðræðið og skylmdist með rökum og staðreyndum. Hlutverk okkar sem nú berum ábyrgð á íslensku skólastarfi er að nemendur þess geti tileinkað sér þetta - og þannig orðið sómi Íslands, sverð og skjöldur í framtíðinni.
Þess vegna minnumst við Jóns í dag og hans verður minnst á næsta ári þegar 200 ár verða liðin frá fæðingu hans. Afmælisnefnd Jóns Sigurðssonar hefur skipulagt glæsilega dagskrá sem stendur allt árið og er einmitt kynnt í dag á nýjum vef sem kenndur er við Jón og verður sagt frá honum hér á eftir.
Kæru gestir, kæru Vestfirðingar,
ég ítreka þakklæti mitt fyrir að fá að vera með ykkur á þessum fallega degi þar sem Arnarfjörðurinn blasir við spegilsléttur. Við eigum dýrmætt land og dýrmæta þjóð og eigum að vera þakklát fyrir það.
Bestu þakkir.