Ávarp ráðherra, Katrínar Jakobsdóttur við setningu 13. Unglingalandsmóts UMFÍ
30. júlí 2010, Borgarnes
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff. Formaður UMFÍ. Ágætu gestir Unglingalandsmótsins.
Það er mér bæði ánægja og heiður að fá að vera með ykkur hér á Unglingalandsmóti UMFÍ í Borgarnesi.
Fátt er nokkurri þjóð mikilvægara en heilbrigð og glöð ungmenni sem sinna íþróttum og félagsstarfi í tómstundum sínum.
Eitt af meginhlutverkum Ungmennafélags Íslands er og hefur verið að efla félagsþroska einstaklinga og gera þá betur hæfa til að takast á við lífið og tilveruna. Þróttmikil og fjölbreytt starfsemi ungmennafélaga um land allt á liðnum áratugum byggir á þrotlausu og óeigingjörnu sjálfboðastarfi fjölda einstaklinga, sem hefur tvímælalaust skilað sér til æsku landsins. Þjóðin þekkir og metur mikils það starf.
Samkeppni um tíma og áhuga barna og ungmenna hefur aukist verulega á síðustu árum. Áreitið er mikið og vandi að velja milli hinna ýmsu gylliboða. Það kemur hins vegar ekki á óvart að rannsóknir hafa leitt í ljós að þau börn og ungmenni, sem taka þátt í félags- og íþróttastarfi eru síður líkleg til að lenda í erfiðleikum á unglingsárunum. Þátttaka í skipulögðu félags- og tómstundastarfi, undir leiðsögn reyndra og menntaðra leiðbeinenda og þjálfara, verður sífellt mikilvægari í uppeldi og þroskaferli barna og ungmenna.
Það að gefa unglingum og foreldrum tækifæri til að koma saman bæði í leik og keppni við kjöraðstæður um Verslunarmannahelgi er góður kostur, bæði fyrir ungmennin og ekki síður fyrir foreldra og forráðamenn þeirra. Sá tími sem við verjum með börnum okkar er okkur öllum mjög dýrmætur. Sá fjöldi foreldra sem hér er sannar það. Af dagskrá mótsins má sjá að hér er af mörgu að taka, allir geta tekið þátt og verið virkir, því hér er mikið um að vera og margt í boði um þessa helgi.
Við í ráðuneytinu höfum átt mjög góða samvinnu við Ungmennafélagshreyfinguna um langt árabil. Ráðuneytið hefur leitast við að fylgjast með starfinu og styðja við bakið á starfsemi UMFÍ eins og mögulegt er og leggur mennta- og menntamálaráðuneytið áherslu á áframhaldandi gott samstarf við ykkur.
Ánægjulegt er að sjá hversu vel bæjaryfirvöld hér í Borgarbyggð hafa byggt upp íþróttaaðstöðu sem er til fyrirmyndar en hér er líka gaman að vera, menningin er við hvert fótmál og skólastarf blómlegt.
Þegar litið er yfir þann glæsilega hóp sem kominn er til landsmóts á fögru sumarkvöldi við lygnan fjörðinn, er ekki annað hægt en að gleðjast yfir því góða verki sem hér hefur verið unnið.
Megi gæfan vera með ykkur í leik og í starfi og megi þetta Unglingalandsmót UMFÍ takast sem best.