Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. ágúst 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur í Hóladómkirkju

Hóladómkirkja, Hólum Hjaltadal
Holadomkirkja,_Holum_Hjaltadal

Hólum Hjaltadal, 15. ágúst 2010

Hólaræða á Hólahátíð

Kæru gestir,
það er mér sönn ánægja að vera hér með ykkur á Hólum á þessari Hólahátíð og eins og ávallt er yndislegt að heimsækja Skagafjörðinn og þennan gamla sögustað, kirkjustað og skólastað.

Í Jóns sögu helga segir frá Hólaskóla þeim sem starfræktur var á 12. öld. Segir þar frá Ingunni sem þar bjó og var að sögn afar lærð. Þegar þessi saga er lesin veitir hún ekki aðeins mikilvæga innsýn í horfna tíð og afrek fyrri kynslóða — hún vekur líka spurningar. Af hverju varð ekkert framhald á menntun íslenskra kvenna? Hverju tapaði íslenskt samfélag á þeirri þjóðfélagsþróun sem varð, þar sem karlveldið tók völdin og ríkti á Íslandi í 800 ár? Þjóðfélagsþróunin er nefnilega sjaldnast sjálfsögð — hún byggist á mörgum þáttum, meðal annars á viðhorfum og vali þeirri kynslóða sem ráða ríkjum hverju sinni. Þess vegna er ávallt mikilvægt að vera gagnrýninn og efast um viðhorf og siði hvers tíma og þess vegna er mikilvægt að skiptast á skoðunum því að skoðanaskiptin leiða okkur nær sannleikanum — ef hægt er að höndla hann — því að eins og John Stuart Mill benti á í sinni frægu bók Frelsinu skiptir máli að hlýða á öndverðar skoðanir, jafnvel þótt þær aðhyllist fáir og séu jafnvel rangar því að skoðanaskiptin færir okkur skýrari skynjun og fjörmeiri mynd af sannleikanum.

En þá er líka tímabært að velta vöngum hvert skoðanaskipti eftir hrun hafa leitt okkur og hvort þau hafa fært okkur skýrari skynjun. Mörgum varð tíðrætt um ný viðhorf, nýja siði og nýtt Ísland eftir efnahagshrunið. Nú væri rétti tíminn til að endurmeta allar stoðir íslensks samfélags, alla siði og samfélagið allt.

Tveimur árum eftir hrun erum við enn þjóð hjá þerapista sem ræðir sömu atvikin aftur og aftur erum við enn að tala okkur út úr hruninu, hver og einn með sína sýn og sína hugmynd. Hrunið er orðið hluti af sjálfsmynd Íslendinga. Á þjóðfundi sem haldinn var um atvinnutækifæri á höfuðborgarsvæðinu kom fram hugmynd um hrunsafn, í nýjum skáldsögum er fjallað um hrunið, útrásarvíkingar eru myrtir í nýjum glæpasögum, í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum er dregin upp mynd af þjóð í kreppu.

Kreppan er miklu meira en efnahagsleg lægð. Hún er kreppa hugarfarsins. Og hún er ekki aðeins á Íslandi heldur um allan hinn vestræna heim. Segja má að eftir breytingarnar í Austur-Evrópu, þegar vinstrimenn tókust á við breyttan heim, hafi ríkt ákveðin hugmyndafræðileg upplausn. Núna ríkir upplausn innan þeirrar hugmyndafræði sem verið hefur alráð í 20 ár og enn hefur rykið ekki sest. Hugmyndafræði frjálshyggjunnar gekk að mörgu leyti út á að gera sig sjálfsagða. Orðræðan gekk út á frelsi einstaklingsins þar sem samfélagið var orðið dragbítur á eðlilega þróun. Sem dæmi má nefna að menntun var ekki lengur leið mannsins til þroska heldur vara sem unnt var að kaupa í skólum og fól í sér skírteini upp á tiltekna færni. Í breskum fjölmiðlum var bent á að orðið education — eða menntun — hefði nánast vikið fyrir orðinu training — eða þjálfun — sem fól í sér þrönga skilgreiningu um þjálfun tiltekinna eiginleika fremur en alhliða þroska. Þessi orðræða og aðferðafræði var allsráðandi í opinberri umræðu og þess vegna er það ekki létt verk að vinna sig út úr hruni hennar.

Annað sem hrundi var oftrúin á yfirburði Íslendinga; nýtilkomið innihaldsrýrt sjálfsálit fékk kjaftshögg svo mikið að þjóðin er enn riðandi á eftir og er full reiði og vanmáttar, og hefur ekki fundið sér nýtt sjálfstraust sem í þetta sinn sé grundvallað á raunsæju mati og sjálfsskilningu. Hvorki belgingur né vanmáttarkennd eru góðir ferðafélagar en sjálfstraust sem byggt er á þekkingu á sjálfum sér, bæði kostum og göllum, er nauðsynlegt í hörðum heimi. Þess þurfum við nú að leita.

Þetta er hins vegar ekki fyrsta upplausnin og ekki sú síðasta. Við sem erum stödd hér á Hólum í dag - sem lengi var helsta vígi kaþólskrar trúar - skynjum vel anda sögunnar - rifjum upp siðaskiptin og þá upplausn sem þau ollu - rifjum upp upplýsinguna og þá upplausn sem varð þegar upplýsingin breytti hugsunarhætti manna á galdraöld þegar öll fyrirbrigði voru skýrð með göldrum og kukli.

Upplausn er erfið. Hún skapar óvissu og óöryggi. En hún skapar líka tækifæri. Okkar skylda hlýtur að vera að finna þau tækifæri, sjá hið fagra í hverdeginum, sjá tækifærin í því sem við eigum — hvort sem það er hvannasúpa á Hólum eða bókmenntir Guðrúnar frá Lundi — sjá nýjar lausnir þar sem áður var ekkert að finna.

Sjálf hef ég haldið því fram að þrátt fyrir hrun hafi Íslendingar fengið einstakt tækifæri í hendur til að taka nýja stefnu í átt að sjálfbæru samfélagi - samfélagi þar sem efnahagsstefna er í takt við stefnu í umhverfismálum og aðra uppbyggingu samfélagsins. Við megum ekki missa af því tækifæri á meðan við stöndum í hina hefðbundna dægurþrasi um kunnugleg mál.

Stóra spurning framtíðarinnar er hvernig við sem fólk ætlum okkur að lifa áfram á þessari jörð. Mörgum finnst þetta heimsendaraus, hver og einn eigi rétt á sínu lífi, sinni neyslu, sínum lífstíl. En hrunið kenndi okkur vissulega að neysla eins hefur áhrif á afkomu annarra. Sú klisja sem var allsráðandi til skamms tíma, að það góð afkoma auðmanna sé ekki á kostnað annarra var afsönnuð í verki á Íslandi. Gróði útrásarvíkinganna var einmitt á kostnað allra, okkar hinna. Afleiðingin hlýtur að vera sú að við endurskoðun hugmyndir okkar; að við gerum okkur grein fyrir því að við búum í samfélagi þar sem gengi og afkoma okkar allra tengist og snertist með ýmsum hætti.

Við Íslendingar höfum mikið rætt um skuldir okkar sjálfra undanfarin tvö ár. En sú spurning er miklu stærri. Við getum spurt okkur um réttlætið í því að þróunarríkin greiði skuldir annarra ríkja. Þær fréttir sem nú heyrast — fyrst og fremst vegna innkomu frægrar fyrirsætu og leikkonu — minna okkur nefnilega svo sannarlega á stöðuna í annarri heimsálfu sem enn þjáist vegna heimsvaldastefnu Vesturveldanna á 19. öld. Staðreynd málsins er sú að efnahagsleg velsæld og framþróun þróunarríkja er í uppnámi vegna þess lítill hluti heims, iðnríki Vesturlanda, hafa tekið út sinn gróða í kredit á kostnað náttúru og umhverfis. Orkunotkun Vesturlanda hefur verið á kostnað annarra heimshluta, sem sjá fram á rýrari lífsgæði þegar loftslag og umhverfi okkar taka stakkaskiptum. Aftur reynist sú hugsun frjálshyggjunnar að velgengni eins sé ekki á kostnað annars vera röng þegar hún er í útfærð í raun. Blóðdemantar, hungur, fátækt, barnahermenn og þjóðarmorð eru orð sem við heyrum reglulega í fréttum en skipta kannski fæsta í þægilegum vestrænum samfélögum raunverulegu máli. Vissulega hristir fólk hausinn en vinnur það markvisst að þróunarhjálp? Sýnum við Íslendingar alltaf viljann í verki til að auka réttlætið í heiminum?

Misréttið í heiminum er bein afurð ósjálfbærrar stjórnmálastefnu sem fyrst og fremst snýst um arðrán á auðlindum. Þar hefur margt haldist í hendur. Sjálf tæknivæðingin hefur auðvitað einfaldað þetta allt. Menn hafa þróað með sér tækni sem í raun er orðin jafn öflug náttúrunni sjálfri og um leið hefur sú tækni orðið til að aðskilja manninn frá náttúrunni í stað þess að hann tilheyri henni. Og áhrifin hafa breytt öllu umhverfi okkar. Meira en tveir þriðju hlutar alls rennandi vatns í heiminum renna í gegnum stíflur. Árlega eru tugir milljarða tonna af jarðvegi fluttir til með tilheyrandi breytingum á náttúrulegu umhverfi. Þessi mikla tækni hefur vissulega nýst almenningi en það er ekki alltaf raunin. Stórfyrirtæki hafa svo sannarlega nýtt sér hana fyrst og fremst í eigin þágu.

Framganga stórfyrirtækja um allan heim sem aðeins vilja nýta auðlindir eins og það er orðað er nokkuð sem við Íslendingar getum lært af og ættum að velta fyrir okkur nú þegar rætt er um erlendar fjárfestingar. Fáir Íslendingar lögðu við hlustir þegar fréttir bárust af kanadísku námafyrirtæki sem hafði fyrirætlanir um grafa eftir gulli í Chile. Til þess þurfti að vísu að færa til þrjá jökla og hætta á það að frjósamt landbúnaðarsvæði verði auðnin ein ef framkvæmdirnar ganga alla leið. Þrátt fyrir mótmæli náttúruverndarsamtaka um allan heim hófust þær í ársbyrjun 2010 — því miður því gullgröfturinn skilar ekki endilega langtímahagnaði fyrir samfélagið í Chile.

Við Íslendingar þurfum að eiga við nákvæmlega sömu spurningar. Náttúra okkar er fjöregg okkar. Í orðræðu viðskiptanna gætum við sagt að náttúra okkar væri okkar eigið fé. Og góðir bissnessmenn vita að það dugir ekki að ganga bara á eigið fé, reksturinn þarf að ganga upp án þess. Nákvæmlega sama úrlausnarefni blasir við mannkyninu og eigin fé þess — jörðinni.

Það þýðir vissulega ný viðhorf og það þýðir að við þurfum að vera gagnrýnin á þau viðhorf sem hafa ríkt. Hingað til hefur það verið dæmt sem óskhyggja og vitleysisgangur að taka huglæg gæði og siðferðisleg gæði fram yfir þau veraldlegu. Samt sem áður sýna rannsóknir og reynsla að hamingja manna eykst ekki með auði. Kannski er einmitt færi nú að raða hinum veraldlegu gæðum neðar í stigann en hinum huglægu og siðferðislegu. Hverju svarar fólk þegar það er spurt um eftirminnilegustu stundir lífsins? Svarar það því til að það hafi verið þegar það eignaðist tiltekið ökutæki? Eða fékk nú hljómtæki? Eða flutti í einbýlishús? Meira að segja uppþvottavélin sem mér skilst að sé vinsælasta heimilistækið ratar ekki inn í eftirminnilegustu stundirnar.

Þær snúast um barnsfæðingar, hamingjustundir í faðmi fjölskyldunnar, að upplifa einstök ljóð eða tónverk eða myndverk, að standa hjá Dettifossi og horfa á hann druna niður í djúpið eða horfa á sólina setjast í Skagafirði á síðsumarkvöldi. Eftirminnilegustu stundir okkar allra tengjast ekki veraldlegum gæðum. Þegar hinsta stundin nálgast og við lítum yfir farinn veg munum við ekki syrgja það að hafa ekki verið lengur í vinnunni — fremur munum við sjá á eftir tíma sem ekki var eytt í faðmi fjölskyldu og vina í blíðu og stríðu.

Kæru gestir hér á Hólum. Við breytum ekki samfélagi nema með því sem hvert og eitt okkar getur gert. Við breytum ekki heiminum nema að gera eitthvað heima hjá okkur. Kannski eru það einföld skilaboð en þau gleymast því miður of oft í hinu hefðbundna þrasi. Þannig getur samt hver og einn gert sitt og skipt máli fyrir mannkyn allt.

Bestu þakkir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta