Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. ágúst 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ávarp við setningu málþings um Guðrúnu frá Lundi

 

14. ágúst 2010, Ketilás í Fljótum

Kæru gestir,

Það er augljóst að sjá að Guðrún frá Lundi kemur enn á óvart – að minnsta kosti eru fáir höfundar sem myndu draga að sér jafn marga gesti og hún gerir í dag en mér skilst að hér séu ríflega 350 manns í dag – í Ketilási í Fljótum – til að ræða Guðrúnu og hennar höfundarverk.

Þetta er í anda Guðrúnar sem var um langt skeið einn alvinsælasti rithöfundur þjóðarinnar. Hún hóf raunar ekki skriftir fyrr en um sextugt en hin alkunna Dalalíf sem kom út 1946 var fyrsta útgefna bók Guðrúnar og líklega sú þekktasta. Fleiri vinsælar bækur fylgdu í kjölfarið, þeirra á meðal Afdalabarn og mitt persónulega uppáhald, Tengdadóttirin. Segja má að sögur Guðrúnar sverji sig í ætt við melódrama á borð við það sem höfundar eins og Balzac og fleiri slíkir fengust við og bækur hennar eru miklar að vöxtum, þannig er Dalalíf 2.200 síður í fimm bindum.

Sögusvið Guðrúnar, íslenska sveitin, og persónur sem glímdu við ýmis mannleg vandamál hittu beint í mark hjá þjóðinni á tímum mikilla þjóðfélagsbreytinga þar sem Íslendingar voru óðum að flytjast úr sveit í borg. Sveitin minnti á samfélag fortíðar sem um margt var aðlaðandi fyrir þá sem voru nýfluttir á mölina og ástir og örlög persóna Guðrúnar voru og eru sígilt umfjöllunarefni.

Guðrún var þó ekki óumdeild. Sá ágæti Sigurður A. Magnússon skrifaði meðal annars að framtíð íslenskra bókmennta lægi í höndum átta til tíu kerlinga sem vart væru sendibréfsfærar á íslensku. Halldór Laxness mótmælti þessu og taldi að Guðrún tilheyrði svokölluðum ævintýrakerlingum sem hefðu lengi fylgt þjóðinni og sagt henni sögur. Kerlingabækur var orð sem fljótlega festist við bækur Guðrúnar, a.m.k. hjá þeim sem stjórnuðu bókmenntaumræðunni. Sjálf áttaði Guðrún sig vel á því að til voru þeir sem ekki töldu hana til alvöru rithöfunda og þegar hún var spurð hvar hún staðsetti sig í íslenskum bókmenntum sagði hún „Hvergi, náttúrulega.“

Kæru gestir, ég veit að hér framundan eru áhugaverðir og skemmtilegir fyrirlestrar og skipuleggjendur þessa málþings eiga þakkir og heiður skilinn fyrir stórhug í skipulagningu. Njótið dagsins og takk fyrir mig.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta