Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. september 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur við vígslu nýbyggingar Háskólans á Akureyri

Háskólinn á Akureyri, þessi stærsta háskólastofnun Íslands utan höfuðborgarsvæðisins, hefur verið í stöðugri uppbyggingu og þróun í bráðum aldarfjórðung.

28. ágúst 2010, Sólborg Akureyri
Vígsla nýbyggingar Háskólans á Akureyri

Herra forseti Ólafur Ragnar Grímsson, forsetafrú, háskólafólk, góðir gestir

Það er mér sönn ánægja að vera hér í dag við formlega vígslu nýbyggingar Háskólans á Akureyri, sem markar þar að auki tímamót í sögu skólans, þar sem að öll kennsla og rannsóknir við þessa öflugu menntastofnun eru nú saman komnar hér á Sólborgarsvæðinu.

Háskólinn á Akureyri, þessi stærsta háskólastofnun Íslands utan höfuðborgarsvæðisins, hefur verið í stöðugri uppbyggingu og þróun í bráðum aldarfjórðung. Því má heldur ekki gleyma að skólinn hefur á þessum tíma tekið á sig tvö vandasöm hlutverk; annars vegar sem helsti fulltrúi landsbyggðarinnar, ef svo má segja, í akademísku samfélagi landsins, en hins vegar sem einn af máttarstólpum fjarkennslu hér á landi. Skólinn hefur á þessum tíma lagt  metnað sinn í að byggja upp krefjandi og styðjandi námsumhverfi fyrir nemendur ekki aðeins á þann máta sem við upplifum áþreifanlega hér í dag heldur einnig á rafrænan máta, til að þjóna þörfum þeirra sem ekki eiga kost á því að sækja nám á staðnum og sinna því í fjarnámi.

Nýja húsnæðið sem verið er að vígja, er á þriðja þúsund fermetrar að stærð. Nýir fyrirlestrarsalir búnir öflugum tæknibúnaði efla áðurnefndar aðstæður til fjarkennslu og fjarnáms og þjónusta og aðstaða nemenda til verkefnavinnu og samkomuhalds eflist. Hátíðasalur nýja húsnæðisins mun rúma allt að 500 manns í sæti og anddyrið mun þjóna hlutverki háskólatorgs og vera hjarta háskólans. Með tilkomu nýja húsnæðisins verður heildarstærð HA á Sólborg 8000 fermetrar og munar um minna.

Það gleður mig ekki síst að sjá og upplifa að þetta nýja húsnæði mun gera Háskólanum á Akureyri enn betur kleift að takast á við það veigamikla hlutverk sem við stöndum nú öll frammi fyrir, sem er stofnun nets opinberra háskóla sem ég kynnti nýlega.
Í þeirri áætlun sem kynnt var í sumar um framtíð íslenska háskólakerfisins er gert ráð fyrir því að innan fárra ára verði starfandi öflugt net opinberra háskóla sem bjóði upp á fjölbreytt háskólanám á öllum sviðum sem og betri nýtingu fjármuna. Fyrsta skrefið í þá átt er að samræma og samhæfa ýmiss konar stoðþjónustu og stjórnkerfi háskólanna, s.s. tölvukerfi, nemendaskrár, kennsluskrár, launakerfi og fleira. Einnig er reiknað með að fjarkennsla verði notuð í auknum mæli.

Þessi nýja áætlun er sett fram til að standa vörð um fjölbreytt námsframboð og öflugar rannsóknir um gæði og getu skólakerfisins hér á landi. Það kallar á forgangsröðun, tilfærslu verkefna og að kraftar þeirra sem sinnt hafa þessum málaflokki verði í auknum mæli sameinaðir. Það kallar líka á góða samvinnu milli allra aðila sem koma að menntunarmálum háskólastigsins í landinu.

Góðir gestir, Háskólanum á Akureyri er ætlað veigamikið hlutverk í mótun íslenska háskólakerfisins á komandi árum og hann hefur þegar sýnt mikið frumkvæði og forystu í þeim efnum. Ég óska því skólanum, nemendum og starfsfólki hans innilega til hamingju með þetta nýja húsnæði sem ég veit að mun gera ykkur ennþá betur í stakk búin til að stuðla að velferð íslensks samfélags á komandi árum, eins og HA hefur gert allt frá stofnun.
Takk fyrir. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta