Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

04. október 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

Ávarp ráðherra, Katrínar Jakobsdóttur - Samstarf og samræða allra skólastiga

Það gleður mig að sjá svo marga saman komna hér í dag á ráðstefnu um menntamál.

Það er ánægjulegt að sjá að hér eru mættir kennarar, skólastjórn­endur af öllum skólastigum og reyndar af fleiri sviðum menntakerfisins

Samstarf og samræða allra skólastiga
Nýjar aðalnámskrár – Grunnþættir menntunar

1. október 2010, Íþróttahöllin á Akureyri

Það gleður mig að sjá svo marga saman komna hér í dag á ráðstefnu um menntamál. Það er ánægjulegt að sjá að hér eru mættir kennarar, skólastjórn­endur af öllum skólastigum og reyndar af fleiri sviðum menntakerfisins, því að nám og kennsla á sér stað víðar en í skólum; símenntunarmiðstöðvar og vinnustaðir af ýmsu tagi eru t.d. mikilvægir hlekkir í menntakerfinu.

Ég vil þakka ykkur öllum fyrir að koma til þessa þings og taka þátt í umræðum um þetta mikilvæga málefni. Þeirri umræðu þarf að halda hátt á lofti því hvað sem á bjátar er það menntunin sem leggja mun grunn að hagsæld framtíðar.

Ég vil líka þakka þeim stofnunum og einstaklingum sem undirbúið hafa þessa ráðstefnu. Ráðstefnur af þessu tagi sem fjalla heildstætt um þróun menntamála hafa verið haldnar nokkrum sinnum hér á Akureyri undanfarin ár og vakið verðskuldaða athygli fyrir metnað, kraft og fagmennsku.

Það er óhætt að segja að við lifum á viðburðarríkum tímum í íslensku samfélagi (og þá er ég ekki eingöngu að hugsa um efnahagsmál og stjórnmál í þröngum skilningi). Á vettvangi menntamála hafa, eins og þið vitið vel, verið umbrotatímar undanfarin ár. Á nokkrum árum hafa öll meginsvið menntakerfisins verið tekin til endurskoðunar og ný löggjöf verið sett á öllum stigum menntakerfisins.

Árið 2006 voru t.d. sett rammalög um háskóla. Árið 2008 voru samþykktir 4 mikilvægir lagabálkar, um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, auk nýrrar löggjafar um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Árið 2007 voru jafnframt sett lög um námsgögn. Á þessu ári 2010 voru svo sett lög um framhaldsfræðslu sem styrkja eiga til muna námsmöguleika fullorðins fólks innan og utan vinnumarkaðar. Það vill svo til að í dag, 1. október, taka þessi nýju lög gildi, en það er mörgum hér inni fagnaðarefni.

Bent hefur verið á að þessi víðtæka lagasetning eigi sér ekki fordæmi nema þá helst í lagasetningunni 1946-48, þegar íslenska menntakerfið var uppfært í kjölfar lýðveldisstofnunar og samræmt skólakerfi sett á laggir í fyrsta sinn hér á landi. Sumir segja e.t.v. að kominn hafi verið tími á uppfærslu kerfisins eftir sextíu ár, en þá verða menn að hafa í huga að íslenska skólakerfið hefur löngum verið breytingum undirorpið og þróast í takt við þjóðfélagsbreytingar á hverjum tíma. Því bera þessi lög keim af þeim miklu þjóðfélagsbreytingum sem áttu sér stað í hagkerfinu og öðrum kerfum samfélagsins á síðustu 10 árum. Segja má að í heildina hafi verið innleidd ný hugmyndafræði inn í okkar menntakerfi sem má lýsa í stuttu máli með aukinni dreifstýringu, minni kjarna og meira valfrelsi. Þó að gagnrýni hafi ekki verið hávær þegar þessar lagabreytingar fóru í gegnum þingið hefur hún vaxið samfara auknum áhuga almennings á uppbyggingu menntakerfisins. Eins má segja að sum ákvæði í lögum sem samin voru þegar Íslendingar töldu sig öllu efnaðri en þeir voru séu öllu erfiðari í framkvæmd á niðurskurðartímum.

Mestar breytingar urðu á framhaldsskólalögunum 2008, þar sem ákvörðunarvald um inntak námskrár var að stórum hluta fært til skólanna sjálfra. Skyldubundnar námsgreinar voru lagðar af, nema á stúdentsbrautum, þar sem einungis íslenska, enska og stærðfræði eru nú tilgreindar, en vægi þeirra var minnkað frá því sem áður var. Framhaldsskólar vinna nú að staðbundinni útfærslu hennar með gerð námsbrauta á grundvelli laganna, sem tryggja eiga fjölbreytni um leið og halda á uppi svipuðum námskröfum til hefðbundinna prófa, s.s. stúdentsprófs og sveinsprófa eða annarra prófa til starfsréttinda. Þetta skapar hins vegar ákveðinn anda – þ.e. að halda uppi fjölbreytni en viðhalda um leið ákveðnum grunni.

Mikilvægt er að fá fram frekari umræðu um þessi mál og reyna að sníða af helstu agnúa. Þær breytingar sem hugsanlega verða gerðar á lögum um skólastigin munu þó ekki trufla að neinu marki þá innleiðingu sem þegar er hafin á löggjöfinni með útgáfu reglugerða en námskrárnar bíða umsagnar, m.a. frá ykkur.

Það hefur komið í minn hlut sem menntamálaráðherra að stuðla að farsælli innleiðingu þessarar nýju löggjafar. Þar er í mörg horn að líta á háskólastigi, í fullorðinsfræðslu og símenntun, í starfsnámi og í framhalds­skólum af ýmsu tagi, á grunnskólastigi og í leikskólum. Hin nýja löggjöf segir okkur líka að horfa EKKI einangrað á hin ýmsu svið og stig menntakerfisins. Hefðbundin skil milli skólastiga og aðgreining hins formlega og óformlega menntakerfis eru ekki óbreytanleg. Við þekkjum mörg dæmi þar sem skólar á mismunandi skólastigum starfa saman, eða þar sem námsmönnum eru skapaðir möguleikar til sveigjanlegra námsbrauta, og leiða ekki bara til betra og árangursríkara náms fyrir nemandann, heldur einnig til nýrra starfshátta og skólaþróunar. Eins er mikilvægt að samstarf og samlegð milli skóla á sama skólastigi sé í hávegum haft til að efla faglegt starf og nýta fjármagn og tíma fólks með skynsömum hætti.

Skólar eru menntastofnanir og hlutverk þeirra er skilgreint í löggjöf um menntun. Skólar landsins mynda samstæða heild, skólakerfi, sem tryggja skal samræmi og samhengi í menntun frá leikskólum til háskóla og fullorðinsfræðslu. Á hverju skólastigi er stefnt að fjölbreyttum viðfangsefnum og starfsháttum til að koma til móts við mismunandi námsþarfir ólíkra nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.

Í ráðuneytinu höfum við undanfarið unnið að útgáfu reglugerða á grundvelli nýrra laga um ólíkustu þætti menntamála. Þá langar mig sérstaklega að nefna reglugerð um sérfræðiþjónustu sem nú tekur í meira mæli en áður til félagslegra og kennslufræðilegra þátta í skólastarfi. Þá hefur mikil vinna verið lögð í þróun nýrra aðalnámskráa fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Í nýju námskránum er reynt að túlka og skýra þá stefnu sem mörkuð er í lögunum. Unnin hefur verið sameiginlegur inngangskafli fyrir almenna hluta aðalnámskrár skólastiganna þriggja, þar sem lögð er áhersla á sameiginleg markmið, stíganda og samhengi í starfi leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Námskrárvinnan hefur verið í góðu samstarfi við samtök kennara og skólastjórnenda og við samtök sveitarfélaga. Ég þakka fyrir þá samvinnu og vænti þess að hún haldi áfram á þeim viðkvæmu misserum sem framundan eru í mótun nýrrar skólastefnu.

Við endurskoðun aðalnámskrár fyrir öll skólastigin á m.a. að taka mið af niðurstöðum vinnuhópa sem ég setti upp á síðasta ári til að skilgreina fimm grunnþætti menntakerfisins.

Grunnþættirnir taka mið af áherslum í markmiðsgreinum laganna og eiga að einkenna allt skólastarf og ganga þvert í gegnum allt skólastarf. Þeir eru læsi í víðum skilningi, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, menntun til sjálfbærni og skapandi skólastarf.

Í vinnuhópum vegna námskrárvinnunnar sátu sérfræðingar úr háskólasamfélaginu og ráðuneytinu ásamt kennurum af vettvangi. Þessi samsetning hópsins var að mínu mati mikilvæg og afraksturinn góður. Grunnþættirnir eru hugsaðir sem leiðarstef fyrir öll skólastigin um hvernig byggja eigi upp öflugt skólasamfélag og lýsing á þeirri hæfni sem hver og einn þarf að búa yfir til að geta lifað og unnið í sátt við sjálfan sig, þróast í og með umhverfi sínu og áttað sig á möguleikum sínum til að bæta lífsskilyrði sín og annarra.

Nú vitið þið jafnvel og ég að hugtök eins og lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og skapandi skólastarf eru langt frá því nýjabrum í íslenskum námskrám. Við finnum þau í eldri námskrám, en að sumu leyti hafa þessi hugtök ekki verið skilgreind nægilega vel eða fylgt eftir í gegnum markmiðssetningu eða innleiðingu á námskrám. Sem dæmi má nefna 34 ára ákvæði um jafnréttisfræðslu í skólakerfinu. Með hliðsjón af því var ákveðið að hefja strax innleiðingu á þessu ákvæði með útgáfu Kynungabókar nú í haust. Hún verður kynnt hér á eftir af jafnréttisráðgjafa ráðuneytisins. Sams konar eftirfylgni verður í tengslum við aðra grunnþætti. Það er verkefni sem við getum unnið að á öllum skólastigum, - og það sem meira er sameinast um þau þvert á skólastig.

Námskrárgerðin er á lokasprettinum. Drög að nýrri aðalnámskrá grunnskóla eru nú til kynningar á vef ráðuneytisins og við gerum ráð fyrir að nú í byrjun október birtist drög að nýjum aðalnámskrám leikskóla og framhaldsskóla –til umsagnar. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur nýju námskrárnar, ræða þær við starfsfélaga ykkar og senda okkur athugasemdir.

Við erum hér samankomin til að velta fyrir okkur hvernig við tryggjum sem best öflugt skólastarf í landinu. Yfirskrift málþingsins vísar til þess að nú höfum við tækifæri til að innleiða heildstæða menntastefnu fyrir öll skólastig með túlkun á nýjum lögum; útgáfu reglugerða og þróun nýrrar aðalnámskrár. Það er hins vegar ekki öfundsvert verkefni á niðurskurðartímum en ég vona svo sannarlega að við náum því markmiði í sameiningu.

Hér á ráðstefnunni eru nokkrir starfsmenn ráðuneytisins og munu þeir kynna hér í dag nokkur mikilvæg atriði í nýjum námskrám og reglugerðum. Þið munið taka virkan þátt í þeim mörgu áhugaverðu atriðum sem eru á boðstólum hér í dag og trúi því að okkur muni í sameiningu takast að bæta menntun og skólastarf í öllum landshlutum. Ég hvet ykkur enn til dáða að standa saman að mótun nýrrar menntastefnu. Lögin eru grundvöllur, reglugerðir og námskrár eiga að styðja okkur í starfi, - en það er faglega starfið sjálft með nemendum okkar sem skiptir sköpum. Þar eigið þið fagfólkið miklar þakkir skildar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta