Á 40 ára afmæli Menntaskólans á Ísafirði
Ávarp Mennta- og menningarmálaráðherra á afmælishátíð Menntaskólans á Ísafirði.
2. október 2010, Íþróttahús Menntaskólans á Ísafirði
Skólameistari, skólanefndarmenn, kennarar, starfsfólk, nemendur og aðrir velunnarar Menntaskólans á Ísafirði
Nú eru liðnir fjórir áratugir frá því Menntaskólinn á Ísafirði tók til starfa. Aldur er auðvitað afstæður eins og oft er sagt. Skólinn er bráðungur sé litið til elstu menntastofnana. Hins vegar er hann, þótt undarlega kunni að hljóma, í hópi eldri framhaldsskóla á Íslandi. Af rétt liðlega 30 framhaldsskólum á landinu eru um tveir þriðju þeirra stofnaðir í núverandi mynd, síðar en Menntaskólinn á Ísafirði. Það ber vott um mikla grósku í uppbyggingu menntakerfisins hjá okkur á undanförnum áratugum.
Þegar skólinn hér á Ísafirði var stofnaður var margt ólíkt því sem við höfum fyrir augunum í dag, hvort heldur sem við lítum til næsta nágrennis okkar, landsins alls eða umheimsins. Skólinn var stofnaður á umróta- og breytingaskeiði í atvinnumálum og samfélagsgerð. Menntun og sérþekking var í vaxandi mæli að setja svip sinn á atvinnuhætti og efnahagslíf. Aðsókn ungmenna að framhaldsskólum fór hratt vaxandi eins og skýrt kemur fram í ungum aldri margra framhaldsskólanna okkar.
Í bráðskemmtilegri þroskasögu fyrsta skólameistara Menntaskólans á Ísafirði segir Jón Baldvin Hannibalsson góða sögu um ólík viðhorf til vaxandi skólagöngu. Jón hitti roskinn heiðursmann á förnum vegi og fór að rekja fyrir honum raunir sínar um öll þau verk sem óunnin væri áður en skólinn skyldi taka til starfa, það vantaði húsnæði, kennara og meira að segja nemendur. Þá sagði sá gamli: ,,Það vona ég að þú fáir ekkert húsnæði, enga kennara og þar af leiðandi enga nemendur því að þessi skóli verður aldrei neitt nema silkihúfa á kollinn á pjattrófum og við hér í verstöðinni þurfum síst á því að halda.“ Sem betur fer tókst Jóni að finna bæði húsnæði og nemendur og til þess hafði hann mikinn stuðning í samfélaginu hér vestra. Það var draumur bæjaryfirvalda að hér skyldi rísa menntaskóli og sá draumur varð að veruleika árið 1970.
Stofnun skólans var svar við mjög aukinni eftirspurn ungmenna eftir framhaldsskólamenntun og tilkoma hans breytti miklu um búsetuskilyrði á svæðinu. Hann opnaði ungmennum tækifæri til nýrra sóknar í krafti menntunar. Skólinn hefur frá stofnun lagað sig að breyttum aðstæðum og kröfum, t.a.m. þegar námsframboð hans var breikkað með kennslu í ýmsum verknámsgreinum auk bóknámsins. Frá þeim tíma hefur skólinn þjónað atvinnulífi svæðisins og átt eftirtektarvert samstarf við fyrirtæki um kennslu og þjálfun nemenda í iðn- og tæknigreinum.
Þá urðu tímamót í sögu skólans er sveitarfélögin á Vestfjörðum gerðu með sér samning um rekstur hans árið 1995. Styrkur skólans, eins og margra landsbyggðarskólanna, er einmitt sá bakhjarl sem þeir eiga í sínum heimabyggðum. Bakjarl sem birtist í virkum áhuga á skólastarfinu og beinni þátttöku í mótun þess og uppbyggingu skólanna. Þá verður ekki skilið við þessa brotakenndu upprifjun öðruvísi en geta þess að byltingarkennd breyting hefur orðið á allri aðstöðu skólans frá því að kennsla hófst í bráðabirgðahúsnæði fyrir 40 árum, til þeirrar glæsilegu aðstöðu sem skólinn hefur yfir að ráða í dag. Skólinn hefur sem sagt bæði fengið húsnæði og nemendur.
Heimamenn stóðu saman að því að stofna Menntaskólann á Ísafirði fyrir 40 árum. Þeir hafa stutt uppbyggingu hans frá byrjun. Þeir geta á þessum tímamótum verið stoltir er þeir virða fyrir sér afraksturinn. Skólinn er fyrir löngu orðinn að mikilvægri miðstöð menntunar þar sem fjölbreytt nám, verklegt- og bóklegt fer fram hlið við hlið. Námsframboðið er fjölbreytt og skólinn kemur til móts við nemendur með ólíkar þarfir og óskir. Hér má sjá föngulegan hóp efnilegra nemenda sem nú stundar nám við bestu aðstæður í nútímalegum framhaldsskóla. Hér geta þeir sótt sér lærdóm og færni til frekara náms og starfa, sér og samfélaginu til hagsbóta.
Síðast þegar ég var hér á Ísafirði var það í tengslum við Hrafnseyrarhátíð. Ég sótti mér að sjálfsögðu innblástur í skrif Jóns Sigurðssonar, en hann taldi að þrennt væri nauðsynlegt til að þjóðir öðluðust sjálfstæði og það væru löggjafarvald, verslunarfrelsi og skólastarf. Og það má segja að Jón hafi í þessu sem og svo mörgu öðru reynst sannspár enda er fátt mikilvægara í samfélaginu en öflugt skólastarf sem stuðlar að almennum framförum.
Þetta hefur sannast í okkar íslensku skólum sem eru hjarta samfélagsins – eins og t.d. hér á Ísafirði.
Kæru Ísfirðingar. Ég óska starfsmönnum og nemendum Menntaskólans á Ísafirði og öllum velunnurum hans til hamingju með 40 ára afmælið og vona að framtíð skólans verði björt.