Ávarp ráðherra, Katrínar Jakobsdóttur á 130 ára afmæli Álftanesskóla
Í dag er þess minnst með hátíðlegum hætti að 130 ár eru liðin frá því að skóli með 30 nemendum var settur 1. október 1880 á Álftanesi, nánar tiltekið á Bessastöðum og síðan hefur skólahald verið óslitið á Álftanesi.
1. október 2010, Íþróttamiðstöðin Álftanesi
Ágætu afmælisgestir
Í dag er þess minnst með hátíðlegum hætti að 130 ár eru liðin frá því að skóli með 30 nemendum var settur 1. október 1880 á Álftanesi, nánar tiltekið á Bessastöðum og síðan hefur skólahald verið óslitið á Álftanesi. Sögu barnafræðslu á Álftanesi má hins vegar rekja með hléum til Hausastaðaskóla allt frá 1792, sem er annar elsti barnaskóli landsins. Núverandi húsnæði Álftanesskóla var hins vegar tekið í notkun 1978 og mér er tjáð að síðan þá hefur verið byggt 11 sinnum við skólahúsnæðið, í takt við stækkandi samfélag í sveitarfélaginu.
Undanfarnar vikur hefur Álftanesskóli minnst 130 ára samfelldrar skólasögu með ýmsum hætti og nú er runninn upp sjálfur afmælisdagurinn þar sem haldið er upp á afmælið með formlegum hætti með fjölbreyttri dagskrá, opnu húsi, útgáfu 130 ára sögu skólans, frumflutningi á nýjum skólasöng skólans og margt fleira. Ég vil nota tækifærið og óska skólanum og skólasamfélaginu öllu á Álftanesi hjartanlega til hamingju með daginn og þessa veglegu og fjölmennu afmælishátíð.
Við þessi tímamót er vel viðeigandi að velta því fyrir sér hvað Álftanesskóli stendur fyrir, hvaða gildi hann hefur að leiðarljósi í skólastefnu sinni. Á aðgengilegri heimasíðu skólans kemur fram að í skólastarfinu sé lögð rík áhersla á vináttu, vísindi og listir og að allir séu einstakir. Í skólastefnu skólans er áhersla lögð á að örva sjálfstæða og gagnrýna hugsun nemenda og litið er á nemendur sem sjálfstæða einstaklinga sem hafa ákveðin réttindi en jafnframt skyldur og ábyrgð. Allir hljóta að vera sammála því að þessi gildi eru mikilvæg í skólastarfi. Í skólastefnunni er einnig litið er svo á að mannleg samskipti og ábyrg hegðun séu grunnþættir í skólastarfinu og að forsenda náms sé að nemendum líði vel í skólanum. Áhersla er lögð á fjölbreytta og sveigjanlega kennsluhætti í samræmi við einstaklingsmiðað nám. Gagnkvæm virðing er forsenda jákvæðra samskipta og nauðsynlegt er að starfsfólkið sýni gott fordæmi í þeim efnum. Starfsmenn skólans leggja sig einnig fram við að eiga jákvæð samskipti við heimilin og þegar heimili og skóli leggjast á eitt má búast við betri líðan nemenda, auknu öryggi og betri námsárangri.
Álftanesskóli býr jafnframt við fjölbreytta náttúru þar sem stutt er í fjörur, fjölskrúðugt fuglalíf, tjarnir og skemmtilegt umhverfi í göngufæri og að mínu mati er afar jákvætt að áhersla er lögð á tengsl við umhverfið í skólastarfinu. Loks er lögð áhersla á að nemendur tileinki sér ábyrgan lífsstíl og virðingu gagnvart mönnum, dýrum og umhverfi sínu.
Fljótlega eftir að ég settist í stól mennta- og menningarmálaráðherra óskaði áhugamannafélagið Uppbygging sjálfsaga eftir viðtali til að kynna starfsemi félagsins og framtíðarsýn en félagið var stofnað 2008. Tilgangur félagsins er að skapa samstarfsvettvang fyrir þá sem aðhyllast hugmyndafræði uppeldis til ábyrgðar- uppbyggingar sjálfsaga. Á fundinum kynntu þau lauslega fyrir mér starfsemi félagsins og að fjölmargir skólar væru að vinna í anda þessarar hugmyndafræði. Ég hreyfst mjög af eldmóði forsvarsmanna félagsins en meðal þeirra er skólastjóri Álftanesskóla Sveinbjörn Njálsson en Álftanesskóli er einn frumkvöðla að innleiðingu uppeldis til ábyrgðar hér á landi. Mér skilst að uppbyggingarstefnan svonefnda sé vinnuaðferð til að innleiða víðsýni, umburðarlyndi og lýðræðisstarf í skólum og er talin henta mjög vel´í skólastarfi. Ég vil nota tækifærið og þakka Álftanesskóla fyrir óeigingjarnt frumkvöðlastarf við að taka þátt í að innleiða uppbyggingarstefnuna í menntastofnanir hér á landi og óska skólanum velfarnaðir í áframhaldandi starfi á þessu sviði, en fátt er mikilvægara í skólastarfi en að ala upp ábyrga, víðsýna og heilsteypta einstaklinga til að takast á við áskoranir í lýðræðissamfélagi sem svo sannarlega þarf að byggja sig upp í framtíðinni. Ég er viss um að hugmyndafræði verkefnisins uppeldi til ábyrgðar og sjálfsaga geti lagt lóð á vogarskálarnar í þeim efnum.
Ágætu hátíðargestir
Skólastarf hefur breyst gífurlega frá því að skólastarf hófst á Álftanesi fyrir 130 árum og ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því hversu stórstígar breytingar hafi orðið á síðustu árum, t.d. hvað varðar aðstöðu, búnað, starfstíma og kennsluhætti. Það er ekki svo langt síðan að flestir grunnskólar voru tvísetnir, skólaárið var miklu styttra, skóladagurinn styttri og ósamfelldur, lengd viðvera var ekki til staðar, ekki var boðið upp á mat í skólum, námsgögn voru fábrotin og tækjabúnaður af skornum skammti og kennsluhættir einhæfir og lítið um aðrar starfstéttir en kennara í skólum og þannig mætti lengi áfram telja.
Ég vil að lokum óska Álftanesskóla aftur til hamingju með 130 ára afmælið og öllum sem koma að skólahaldinu velfarnaðar í störfum sínum í framtíðinni við að mennta unga fólkið í sveitarfélaginu, en það skiptir sköpum fyrir þróun samfélagsins hvernig til tekst í því mikilvæga verkefni. Það þarf heilt þorp til að ala upp barn.