Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. október 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

Ávarp ráðherra, Katrínar Jakobsdóttur á 10 ára afmæli Kvasis, samtaka fræðslu- og símenntunarmiðstöðva

Ágætu afmælisgestir Kvasis. Til hamingju með 10 ára afmælið. 10 ára afmæli er merkisviðburður þótt aldurinn sé kannski ekki mjög hár.

Hótel Örk Hveragerði

10 ára afmæli Kvasir

Ágætu afmælisgestir Kvasis. Til hamingju með 10 ára afmælið.
10 ára afmæli er merkisviðburður þótt aldurinn sé kannski ekki mjög hár. Símenntunarmiðstöðvarnar sem aðild eiga að Kvasi hafa náð miklum árangri og eiga hrós skilið fyrir framlag sitt til íslenskra menntamála.

Ég vil þakka ykkur fyrir þetta.

Símenntun í landinu hefur vaxið hröðum skrefum síðasta áratug. Umsvif símenntunarmiðstöðvanna sem aðild eiga að Kvasi hafa t.d. aukist þannig að frá 2004 til 2009 hafa nemendastundir meira en tvöfaldast.

Á þeim erfiðu tímum sem við nú lifum hafa símenntunarmiðstöðvarnar sýnt styrk sinn og mikinn sveigjanleika með þátttöku í úrræðum fyrir atvinnuleitendur. Þær hafa verið fljótar að bregðast við þörfum og aðlaga fjölbreytt námsúrræði fyrir atvinnuleitendur með skömmum fyrirvara. Má í því sambandi einnig nefna náms- og starfsráðgjöfina. Aðferðafræðin við hana hefur verið þróuð á síðustu árum í samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Sama máli gegnir um annan mikilvægan þátt í starfseminni sem er raunfærnimatið. Þessir mikilvægu þættir hafa nú verið festir í lög.

Ný lög um framhaldsfræðslu voru samþykkt á Alþingi 22. mars sl. og hafa nú öðlast gildi frá og með 1. október. Að mínu mati var það löngu tímabært að setja lög um fullorðinsfræðslu og símenntun. Ákveðið kerfi hafði mótast og fjárveitingar aukist. Hins vegar vantaði lagastoð fyrir ýmsar skilgreiningar og hugtök er varða réttindi einstaklinga og stofnanna. Lagalegur rammi um fyrirkomulag fjárveitinga var heldur ekki fyrir hendi.

Í mennta- og menningarmálaráðuneytinu er nú unnið af fullum þunga að innleiðingu laganna. Ég ætla ekki að fara ítarlega yfir þá vinnu því ég veit að fulltrúi ráðuneytisins mun fjalla um þetta mál hér hjá ykkur í fyrramálið. Ég vil þó nefna að sú vinna felur í sér nokkra þætti. Í fyrsta lagi standa yfir viðræður við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins um nýjan þjónustusamning sem byggir á ýmsum ákvæðum laganna. Í öðru lagi mun stjórn nýs Fræðslusjóðs verða skipuð einhvern næstu daga og verður hennar fyrsta verkefni að gera tillögur til mín um úthlutunarreglur fyrir sjóðinn. Í þriðja lagi eru fjórir vinnuhópar að störfum við undirbúning reglugerðar sem byggja mun á mismunandi ákvæðum nýju laganna. Símenntunarmiðstöðvarnar hafa átt fulltrúa í hópunum. Í fjórða og síðasta lagi er í undirbúningi ráðstefna um innleiðingu laganna sem haldin verður að Hótel Sögu föstudaginn 19. nóvember. Þar verður m.a. fjallað um tengsl framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðva og hvernig við getum á sem bestan hátt samhæft þessi kerfi. Fulltrúar fræðsluaðilanna, Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Félags íslenskra framhaldsskóla taka þátt í undirbúningi ráðstefnunnar með starfsmönnum ráðuneytisins. Það er einlæg von mín að sjá ykkur sem flest á ráðstefnunni þann 19. nóvember. Samræða og samstarf allra aðila er mjög mikilvægt og þarna mun gefast gott tækifæri til að ræða málin af hreinskilni og í bróðerni.

Í ágúst sl. skilaði starfshópur sem ég hafði skipað um þekkingarsetur á Íslandi áfangaskýrslu til mín. Skýrslan tekur til 189 setra um land allt og sýnir að þekkingarstarfsemi á landsbyggðinni er margbrotin og einkennist af smáum en fjölbreyttum einingum. Þar kemur einnig fram að efnahags- og menningarleg áhrif þekkingarsetra eru umtalsverð og að þau auka fjölbreytni í atvinnu- og mannlífi

Ég tel mikilvægt að unnið verði enn frekar úr þeim gögnum sem aflað var, sérstaklega hvað varðar samstarf og samvinnu ólíkra setra og tengsl þeirra við stofnanir á höfuðborgarsvæðinu.  Þannig má veita sem mestri þekkingu sem víðast um samfélagið.

Í ágúst sl. gaf ráðuneytið einnig út stefnu um opinbera háskóla og felst hún fyrst og fremst í því að standa vörð um starfsemi opinberu háskólanna með því að stofna samstarfsnet þeirra með hugsanlega sameiningu í huga. Eitt af markmiðum stefnunnar er að halda uppi öflugri og fjölbreyttri háskólastarfsemi víðs vegar á landinu. Fjarkennsla verður notuð í auknum mæli til að bjóða upp á fjölbreytt nám sem víðast með samstarfi við þekkingarsetur og símenntunarmiðstöðvar.

Áætlað er að í maí 2011 verði skilgreining á tengslum og samstarfi við þekkingarmiðstöðvar og símenntunarmiðstöðvar lokið og að í september 2012 verði markmið um stofnun samstarfsnets komið að fullu til framkvæmda.

Það eru margháttuð rök sem mæla með því að framhaldsfræðsla sé samfélagslegt verkefni þó að við munum auðvitað vinna þetta í nánu samstarfi við þá aðila sem hafa staðið fyrir þessu öfluga og mikla framhaldsfræðslustarfi hér á undanförnum árum sem eru aðilar vinnumarkaðarins. Það er um leið mikilvægt að samfélagið taki þátt í þessu og leggi til fjármagn því að fyrir því eru samfélagsleg rök. Ég hef áður rökstutt þetta með vísan í fern rök sem Jón Torfi Jónsson, prófessor á menntavísindasviði Háskóla Íslands, hefur lagt fram. Mér finnst full ástæða til að draga þessi atriði fram að nýju hér í dag.

Í fyrsta lagi eru það lýðræðisrökin sem felast í fyrstu markmiðsgrein laganna en þar segir að veita eigi einstaklingum með stutta skólagöngu að baki aukin tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu.   Við búum í síbreytilegu þjóðfélagi þar sem skiptir ekki aðeins máli að geta lesið texta heldur að vera gagnrýninn á texta, átta sig á uppruna, höfundi, tilgangi textans, og geta lesið í myndmál og annað sem getur ljáð textanum merkingu. Rannsóknarskýrsla Alþingis  um hrun íslenska stjórn- og fjármálakerfisins  sýnir svo ekki verður um villst að skortur á gagnsæi og dreifingu upplýsinga, sem og skortur á skilningi, siðferði og gagnrýni var ein af meginorsökum hrunsins. Eins má nefna mikilvægi þess fyrir okkur öll að læra að skila umhverfinu til afkomendanna í ekki lakara ástandi en við tókum við því og mæta þörfum samtíðar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum. Þetta eru dæmi um lýðræðisrök fyrir öflugri fullorðinsfræðslu, þ.e. að gera fólki kleift að vera virkir þátttakendur í að byggja upp réttlátt og sjálfbært lýðræðissamfélag.

Í öðru lagi eru það mannauðsrökin og mest fer fyrir þeim í nýju lögunum. Þau snúa að því að styrkja stöðu fólks á vinnumarkaði og auka líkur á nýsköpun í starfi. Þau snúast bæði um þekkingu sem hvort tveggja er nauðsynleg fyrir vinnu og tækniframfarir.

Í þriðja lagi eru síðan svokölluð almenn tæknirök sem snúast um að fólk geti verið sem hreyfanlegast á vinnumarkaði

Í fjórða lagi eru það jafnræðisrök sem felast í að minnka þennan innbyrðis mun á menntunarstigi. Þessi munur hefur verið að aukast á undanförnum árum.

Ég tel þessa röksemdafærslu í fjórum liðum sýna nauðsyn þess að hið opinbera axli ákveðna ábyrgð á fullorðinsfræðslu ásamt aðilum vinnumarkaðarins og öðrum sem þar kunna að taka þátt. Fullorðinsfræðsla er að mínu mati samfélagslegt verkefni, hluti af okkar samábyrga velferðarsamfélagi en ekki aðeins hagsmunamál atvinnurekenda og launþega, þó að þeir hafi unnið gríðarlega mikilvægt frumkvöðlastarf í að þróa fullorðinsfræðslu hér á landi.

Góðir ráðstefnugestir.

Hjá símenntunarmiðstöðvunum um allt land hafa námskeið í anda gömlu góðu alþýðufræðslunnar alltaf skipað mikilvægan sess. Námskeið um framandi lönd, tungumál, skrautskrift, hannyrðir o.fl. skipta máli fyrir lífsgæði og ég hvet ykkur til að halda áfram þessari starfsemi eins og kostur er.

Það er óhætt að segja að við lifum á viðburðarríkum tímum í íslensku samfélagi. Á vettvangi menntamála hafa verið umbrotatímar undanfarin ár. Öll meginsvið menntakerfisins hafa verið tekin til endurskoðunar og ný löggjöf verið sett á öllum stigum menntakerfisins.

Árið 2006 voru t.d. sett rammalög um háskóla. Árið 2008 voru samþykktir 4 mikilvægir lagabálkar, um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, auk nýrrar löggjafar um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Árið 2007 voru jafnframt sett lög um námsgögn. Á þessu ári 2010 voru svo lögin um framhaldsfræðslu sett.

Við innleiðingu laga um framhaldsfræðslu geri ég mér vonir um að samstaða náist við hina ýmsu hagsmunaaðila, aðstandendur Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, símenntunarmiðstöðvar o.fl. um aukið samstarf til að hækka menntunarstig íslensku þjóðarinnar til aukinnar virkni í atvinnulífi og samfélaginu í heild. Jafnframt verði tryggt að menntun og færni sem er metin innan framhaldsfræðslunnar verði viðurkennd innan framhaldsskólakerfisins og þeir sem þess óska geti bætt við menntun sína án hindrana.

Ég tel mikilvægt að við störfum saman að því meginmarkmiði að veita fólki á vinnumarkaði með stutta formlega menntun, fólki sem horfið hefur frá námi án þess að ljúka námi á framhaldsskólastigi, innflytjendum og öðrum sambærilegum hópum tækifæri til að afla sér menntunar, bæta stöðu sína á vinnumarkaði og í samfélaginu sem heild. Þá þarf framhaldsfræðslan að greiða leið þeirra sem þurfa vegna breyttra aðstæðna á vinnumarkaði á nýrri þekkingu og færni að halda.

Með öflugri framhaldsfræðslu leita ég þannig eftir samstarfi við sem flesta um aukna lýðræðislega þátttöku í samfélaginu. Þetta getur t.d. komið fram í því að framhaldsfræðslan stuðli að jákvæðri byggðaþróun í landinu. Að hún, stuðli að jafnrétti, aukinni félagslegri aðlögun jaðarhópa m.a. fatlaðra og innflytjenda að atvinnulífi og samfélaginu. Að okkur takist að auka læsi fullorðinna í víðustu merkingu þess hugtaks og efla íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur og auka starfstengda íslenskukennslu fyrir þá.

Þetta eru háleit markmið en árangur svona stefnu verður e.t.v. best mældur í afrekum einstaklinganna sjálfra sem þátt taka í starfinu.

Mig langar hér undir lokin til að skjóta inn stuttri frásögn sem ráðuneytinu barst frá einni af símenntunarmiðstöðvunum. Þetta er tilvitnun í tölvupóst sem miðstöðinni barst frá fyrrverandi nemanda.

Hún er svona:

„Komdu sæl. Jón heiti ég. Ég veit ekki hvort þú kannast við mig en ég vil koma fram miklu þakklæti til ykkar og þeirra sem stóðu að þessu námskeiði aftur í nám. Ég ætla ekki að tileinka ykkur alla hluti (ég get sumt sjálfur hehe) en það sem þið gerðuð mér var ómetanlegt – (ykkur þá hafði ég sannfært mig sem ynni eins og vélmenni fyrir lág laun). Þitt fólk sannfærði mig um að ég gæti lært og hvöttuð mig til dáða til að halda áfram. Og nú um jólin útskrifaðist ég með iðnréttindi úr framhaldsskóla. Og lauslega reiknað er ég með 8,5 í meðaleinkunn yfir alla skólagönguna. Ég segi bara takk fyrir að benda mér á allt sem ég hef tileinkað mér. Í von um að þið eigið eftir að blómstra lengi vel….”

Svo mörg voru þau orð.

Ágætu þátttakendur á þessari ráðstefnu.

Ég vil að lokum ítreka hamingjuóskir mínar til Kvasis á þessum merku tímamótum og endurtaka þakkir mínar til ykkar fyrir mikilvægt framlag til fræðslu fullorðinna og eflingar mannlífs um land allt.

Gangi ykkur allt í haginn.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta